„Sómakólfurinn er svona duglegasta planta sem ég þekki. Það er aldeilis príma fín planta sem þolir allt nema frost, ofvökvun og eldsvoða. Plantan þolir skugga og er vökvuð svona temmilega einu sinni í mánuði yfir sumarið og ekkert á veturna. Hún er mjög meðfærileg,“ segir Hafsteinn Hafliðason garðyrkjumaður.

Hafsteinn sendi nýlega frá sér Allt í blóma, veglegt rit um allt sem hugsast getur varðandi pottablómarækt við íslenskar aðstæður. Þar segir hann meðal annars að Zamioculcas zamiifolia, eða Sómakólfurinn, myndi þykk og mikil vatns- og forðahnýði á rótunum og þurfi því ekki mikla vökvun. Hann geti staðið án vökvunar frá september og fram í miðjan mars og líður best með það.

Hafsteinn segir í bók sinni að Sómakólfinum líði best án vökvunnar frá september fram í miðjan mars.
Fréttablaðið/Samsett

Þá upplýsir Hafsteinn að plantan þoli að standa hvar sem er innanhúss, „svo framarlega sem þangað berst einhver skíma af dagsljósi á sumrin. Umber mikla vanrækslu og óreglulega vökvun – en líður að sjálfsögðu betur ef rykið er skolað af honum nokkrum sinnum á ári.“

Ást og meðvirkni

Hafsteinn segir vökvunina vera algengustu mistökin hjá þeim sem gengur illa að halda pottaplöntunum sínum lifandi og þau sem það geri ofgeri sér í ástum. „Ofvökvun er yfirleitt aðalorsökin og hin er of mikill áburður. Það eru fáar plöntur sem þola ekki að þorna upp og láta blöðin lafa öðru hvoru.“

Þannig að segja má að stærstu mistökin liggi í væntumþykju og meðvirkni?

„Eiginlega. Mikið til,“ segir Hafsteinn og hlær.

Allt í blóma byggir á áratugalangri reynslu Hafsteins og er meðal annars uppflettirit yfir þann aragrúa potta­plantna sem þrífast á íslenskum heimilum.

„Ég er austur í Flóa og fólk er ekkert að stoppa mig úti á götu, en þetta hafa verið miklu meiri viðbrögð en ég gerði ráð fyrir,“ segir hann um viðtökurnar við bókinni.