Kristján Einar Sigur­björns­son hefur verið tals­vert í um­ræðunni að undan­förnu. Eins og mörgum er kunnugt er þessi hár­prúði Hús­víkingur til­tölu­lega ný­laus úr fangelsi á Spáni og hefur hann meðal annars rætt um fangelsis­vistina á Insta­gram-síðu sinni.

Kristján Einar er jafnan kallaður Kleini og hafa ýmsir velt fyrir sér hvaðan gælu­nafnið er komið. Kristján varpaði sjálfur ljósi á það í við­tali við Frétta­blaðið í janúar í fyrra en hann fékk viður­nefnið á Húsa­vík þar sem er fæddur og upp­alinn.

„Þegar ég var yngri átti ég það oft til að hjálpa ömmu Svönu að baka kleinur og segjum sem svo að ef við ætluðum að baka hundrað kleinur varð hún alltaf jafn hissa þegar að­eins sjö­tíu kleinur skiluðu sér úr bakstrinum. Eftir að föður­bróðir minn sá mig svo stela kleinum hægri, vinstri, á­kvað hann að byrja að kalla mig Kleina og það bara festist við mig,“ sagði Kristján í við­talinu.

Í við­talinu fór Kristján um víðan völl en á þeim tíma var hann í sam­bandi með tón­listar­konunni Svölu Björg­vins­dóttur. Þegar hann var spurður hvaða mann hann hefði að geyma svaraði hann að bragði.

„Í fljótu bragði myndi ég lýsa mér sem fyndnum, metnaðar­fullum, ein­lægum, hrein­skilnum og rómantískum. Ég er ungur maður með stóra drauma, vinur vina minna og sem fylgir hjartanu. Svo vil ég meina að ég hafi mikla dans­hæfi­leika, þó svo að engum öðrum finnst það.“