Leikhús

Ekkert er sorglegra en manneskjan

★★★★ 1/2

Tjarnarbíó

Tónskáld: Friðrik Margrétar-Guðmundsson

Leikstjórn og texti: Adolf Smári Unnarsson

Flytjendur: Dagur Þorgrímsson, Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, María Sól Ingólfsdóttir og Ólafur Freyr Birkisson

Leikmynda- og búningahönnuður: Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir

Dramatúrg: Matthías Tryggvi Haraldsson

Ljósahönnuður: Hafliði Emil Barðason

Myndbandshönnuður: Elmar Þórarinsson

Tónlistarstjórn: Pétur Björnsson

Hljómsveit: Baldvin Ingvar Tryggvason, Björg Brjánsdóttir, Friðrik Margrétar-Guðmundsson, Flemming Viðar Valmundsson, Pétur Björnsson og Unnur Jónsdóttir

Við lifum. Við deyjum. Við förum til sólarlanda þrátt fyrir heimsfaraldur, hlýnun heimsins og aðrar hamfarir, bara til þess að reyna að láta okkur líða vel milli atriða. Bara til þess að harmurinn verði ekki yfirþyrmandi. Samtímaóperan og sviðsverkið Ekkert er sorglegra en manneskjan var frumsýnt í Tjarnarbíói fyrir stuttu, en sýningin kemur ekki bara á óvart heldur setur viðmiðið hátt fyrir komandi leikár.

Tónlist Friðriks Margrétar-Guðmundssonar einkennist af naumhyggju og metnaði. Hér er notast við lifandi tónlist, ekki upptökur, og kvintettinn er órjúfanlegur hluti af upplifuninni. Endurtekningar spila stórt hlutverki í tónlistinni í bland við gáskafullar tilraunir. Sýningin fangar hugarástand, skipt upp í ástandsþætti, frekar en að hverfast um framvindu. Adolf Smári Unnarsson skrifar bæði textann og leikstýrir. Texti hans er meinfyndinn, hnyttinn og Adolf tekst að mestu að forðast þá leiðigjörnu kaldhæðni sem stundum einkennir samfélagsádeilur síðustu ára. Leikstjórnin er skýr, sem þjónar bæði verkinu og söngvurunum, þó tekur jógakórinn of langan tíma.

Hinn fullkomni gerviheimur

Söngvararnir Dagur Þorgrímsson, Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, María Sól Ingólfsdóttir og Ólafur Freyr Birkisson mynda leikhópinn. Hvert og eitt kemur með sinn einstaka tón í sýninguna. Hvert og eitt fær tækifæri til að láta ljós sitt skína. Samhljómur þeirra er sömuleiðis einkar góður og einkennist af húmor. Söngurinn er glettilega góður og sömuleiðis framburðurinn á textanum, sem fær orðin til að dansa. Líkamsbeiting þeirra, þá sérstaklega hlutlausu svipbrigðin sem einkenna sýninguna, er afburðagóð og bráðfyndin.

Sviðsverurnar klæðast vel völdum fötum frá vinsælum fatamerkjum sem kaupendur telja að gefi þeim sérstöðu en lætur alla líta eins út. Pastellitir, hvítir strigaskór, skemmtilegar blússur og buxur. Allir eins. Allir eins. Bryndís Ósk Ingvarsdóttir finnur fagurfræðinni einfalda birtingarmynd sem nær listrænu hámarki í lokamynd sýningarinnar, hinn fullkomni gerviheimur. Á endanum erum við ekkert annað en sýningargripir.

Vin í eyðimörkinni

Köld lýsing Hafliða Emils Barðasonar tónar algjörlega við sýninguna, látlaus en áhrifamikil. Of björt til að vera hlýleg, of grá til að vekja hamingju. Sömuleiðis fellur myndbandshönnun Elmars Þórarinssonar lipurlega inn í sýninguna en skjárinn hefði mátt vera nokkrum tommum stærri til að leyfa myndunum af tæknivæddu náttúrunni og rafrænu snjókornunum að njóta sín.

Ekkert er sorglegra en manneskjan er vin í eyðimörkinni, sér­staklega á þessum síðustu og skrýtnustu tímum. Eldar blossa, heimurinn hitnar, lýðræði falla. En innst inni vill manneskjan bara vera hamingjusöm og láta sem ekkert sé að. Heimurinn endar nefnilega ekki með hvelli heldur með snökti við skál. Sigríður Jónsdóttir

Niðurstaða:

Magnað ferðalag á flatbotna sumarskóm í gegnum táradal tilvistarinnar.