Bækur

Menn sem elska menn

Haukur Ingvarsson

Útgefandi: Mál og menning

Fjöldi síðna: 76

Ljóðmælandinn í „Menn sem elska menn“ fer til Osló, leggst upp í rúm á hóteli og spyr sig hvað hann sé að gera þar. Væntanlega veit hann hvers vegna hann keypti flugmiða til Osló og útvegaði sér hótelherbergi. Hann veit líka að hann ætlar á safn vegna rannsóknar sem snýst ekki um norsku konungsfjölskylduna. Af hverju spyr maðurinn þá þessarar spurningar? Það er meðal annars, eins og hann segir, vegna þess að hann er hvorki persóna í bók eftir Braga Ólafsson né Steinar Braga, getur hvorki dvalið í óskiljanlegri atburðarás né einbeitt sér að hinu óttalega.

Ljóðmælandinn kynnir til sögunnar Sigurd Hoel, sem var norskur rithöfundur, róttæklingur og forystumaður í hópi norskra rithöfunda, og Fjölnismanninn Tómas Sæmundsson, sem var leiðandi í hópi íslenskra menningarvita á sínum tíma. Báðir voru hugsjónamenn. Sá þriðji sem nefndur er til sögunnar kemur á óvart, en það er Grænlandshákarlinn. Hann er nánast forsöguleg vera, býr í djúpinu og tekur það sem hann vill taka og getur tekið. Táknar hann knýjandi þrá? Sigurd las alla merkustu höfundana og reykti eins og strompur meðan loftvarnaflauturnar gullu. Tómas fékk sendan bókapakka daginn sem hann dó, hóstandi blóði. Ekkert stöðvaði leit þeirra tveggja nema dauðinn.

Inn í þessa mynd dregst ást Fjölnismannsins Tómasar á Jónasi Hallgrímssyni. Listaskáldið góða hefði á okkar tímum líklega verið skilgreint sem áfengissjúklingur og talist ótrúleg meðvirkni að lesa ljóðin hans og hafa áhyggjur af líðan hans, en það gerði Tómas. „Það er sárt að elska mann,“ segir í bók Hauks og látið er að því liggja að ef þú „elskar mann sem elskar mann sem elskar mann“ hafirðu veðdregið þig ást á heiminum og mannkyninu og viðurkennir að fólk skipti þig meira máli en allt annað, og það er kannski svarið við spurningu ljóðmælandans.

Auðvitað er oft tilvistarótti í spurningunni: „hvað er ég að gera hér?“ Hún getur beinst að mörgu. Í síðasta hluta bókarinnar dýpkar leit höfundar að svarinu. Það er vikið að bernsku, forfeðrum, sögu, goðsögnum, náttúru, himni og hafi.

Titillinn „Menn sem elska menn“ virðist ef til vill undirfurðulegur, meðal annars vegna þess að orðið maður merkir í mæltu máli ýmist manneskja, eða bara karlmaður. Í titli bókarinnar rúmar heitið „maður“ tvímælalaust alla, hvert sem kynið er. Í titlinum er jafnframt fólgið svarið við spurningu ljóðmælandans sem gerð var að titli á þessu spjalli. Ástin á mannkyninu knýr ljóðmælandann áfram í rannsókn sinni og ást hans á mönnum sem elska menn er óstöðvandi, eins og græðgi Grænlandshákarlsins.

Ljóðagerð Hauks Ingvarssonar er öflugur texti og þráðurinn sem ég hef fylgt hér er einungis einn. Er þetta ekki samt dálítið falleg kenning? Er ekki furðu margt af því sem við gerum knúið af ást á öðru fólki og velvild í þess garð? Hvernig væri líf okkar ef svo væri ekki?

Niðurstaða: Falleg ljóðabók og textinn margræður. Höfundurinn virðist una sér vel í dýpi tungumálsins. Á baksíðunni er ljóð um Grænlandshákarl.