Helga Vala Helgadóttir er kona ekki einhöm; lögfræðingur, leikkona og situr nú á Alþingi fyrir Samfylkinguna. Sem lögmaður sinnti hún málefnum hælisleitenda og þekkir aðstæður þeirra á Íslandi býsna vel.

Hún fer með lítið hlutverk í kvikmynd Ísoldar Uggadóttur, Andið eðlilega, þar sem hún leikur einmitt lögmann annarar aðalpersónunnar sem flækist í viðjum kerfisins á flótta sínum frá Gíneu-Bissá til Kanada.

En var hún þá bara að leika sjálfa sig í myndinni?

„Nei, nei. Maður gerir bara það sem maður er beðinn um,“ segir Helga Vala og hlær en hún kom fyrst að Andið eðlilega sem tæknilegur ráðgjafi.

„Þetta byrjaði þannig að Ísold bar undir mig senur og síðan hringdi hún og spurði hvort ég væri tilbúin til þess að leika í myndinni.

Þá var ég nýbúin að leika í Eiðnum og Borgarstjóranum og var einhvern veginn bara allt í einu komin á þessar slóðir. Svo er ég bara svo hvatvís að ég segi bara alltaf já.

Sjá einnig: Nístandi fagurt tímamótaverk

Kunnugleg hlutverk

Persóna Helgu Völu er flóttakonunni innan handar á erfiðum augnablikum og er boðberi slæmra frétta. Staða sem leikkonan kannast vel við úr starfi sínu sem lögmaður.

„Þetta var ekkert framandi. Alls ekki,“ segir hún. „Venjulega kom maður með viðkomandi að hlýða á niðurstöðuna frá fulltrúa Útlendingastofnuunar eða Ríkislögreglustjóra. Pólitíið var svolítið allt um kring þegar verið var að tilkynna fólki niðurstöður mála þeirra og þá var maður meira hliðsettur umsækjanda. Það er að segja ég vissi jafn lítið og umsækjandinn þegar við mættum á staðinn. Þannig að maður var alltaf sjálfur með hjartað í buxunum, af því að manni var ekki sama.“

Helga Vala segir slíka fundi yfirleitt stutta og þá geti komið í hlut lögmannsins að fara yfir það sem fór fram og útskýra niðurstöðuna betur fyrir skjólstæðingnum. „Í myndinni spyr hún: „Trúið þið mér ekki? Hvað er málið?“ Þetta er mjög raunverulegt vegna þess að það er alltaf spurningin. „Hvað er málið? Trúa þau ekki að ég sé að segja satt?“

Það er líka reyndar það sem maður upplifir til dæmis með þolendur afbrota, sérstaklega kynferðisbrota,“ segir Helga Vala og áréttar að þolandinn mæti iðulega þessari vantrú. „Og það er hart.“

Ofsalega venjulegt fólk

„En þetta er sjúklega flott mynd. Geggjaðar leikkonur og leikari,“ segir Helga Vala og vísar til þeirra Kristínar Þóru Haraldsdóttur, Babetida Sadjo, sem leikur flóttakonuna, og Patriks Nökkva Péturssonar sem leikur ungan son Kristínar Þóru.

Og aukaleikkonan efast ekki um að Andið eðlilega geti veitt fólki hugvekjandi innsýn í aðstæður flóttafólks og hælisleitenda. „Okkur hefur einhvern veginn tekist að láta eins og þetta sé bara eitthvert annað fólk. Einhver önnur tegund af dýrum, ekki eins og manndýrið.

Ég held að við höfum mjög gott að því að horfa á þessa mynd einmitt til þess að átta okkur betur á því að umsækjendur um alþjóðlega vernd eru ofsalega venjulegt fólk eins og við og hvernig aðstæður eins og í myndinni skuli leiða viðkomandi á þennan stað sem hann endar á. Við erum líka ofsalega hortug í þessu og bregðumst hin verstu við ef hælisleitandi er fastur hérna án þess að vilja það.“

Þá kveður við tónninn „þessi var ekki einu sinni að sækja um hjá okkur. Af hverju leyfum við ekki honum eða henni bara að fara. Þetta er rosalega ríkt í okkur.“

Helga Vala furðar sig á þessum særindum „yfir því að einhver hafi ekki ætlað að sækja um  hjá okkur. Þá kemur einhver höfnunartilfinning þegar fókusinn hjá okkur á að vera að þarna er einstaklingur sem er að reyna að bjarga lífi sínu og barnanna sinna.“

Ef þetta væri ég?

„Hvernig væri maður sjálfur í þeirri stöðu? Myndi maður ekki bara gera allt í heiminum ef maður gæti mögulega bjargað lífi barnanna sinna?

Ef maður hugsar sig um í tvær sekúndur. Hvenær myndi maður ekki gera allt í lífinu, jafnvel segja ósatt, ef maður þyrfti að bjarga lífi barnanna sinna.

Er það spurning?

Ef ég stæði frammi fyrir því að þurfa alltaf að segja satt eða bjarga lífi barnanna minna þá myndi ég líklega grípa til ósanninda öðru hvoru. Ef það myndi mögulega hjálpa mér og bjarga lífi barnanna minna. Þetta er no brainer, þú fyrirgefur.“