Sumar húðvörur innihalda hormónatruflandi efnasambönd og hafa margir haft áhyggjur af þeim vörum, sérstaklega í sambandi við hormónatengt krabbamein.

„Við höfum ekki fundið neinar vísbendingar um að mikil notkun húðvöru auki hættuna á brjósta- eða legkrabbameini,“ segir Charlotta Rylander, dósent við UiT-háskóla í Noregi, á vefsíðu forskning.no. Nokkrir vísindamenn við UiT, háskólann í Ósló og Alþjóðaheilbrigðisstofnunina standa á bak við rannsóknina. „Bæði notendur snyrtivara og húðsjúkdómalæknar hafa velt því fyrir sér hvort eitthvert samhengi sé á milli húðvara og krabbameins.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust nýlega í tímaritinu Environmental Health. Markmið hennar var að kanna hvort mismunandi notkun húðvara leiði til aukinnar hættu á krabbameini í brjóstum og legi hjá miðaldra konum og eldri. Þegar rætt er um notkun á húðvörum er átt við handáburð, andlitskrem og húðkrem (body lotion). Miðað er við að notkunin sé að minnsta kosti tvisvar á dag. Þetta eru algengustu húðvörur sem konur nota daglega. Sumar þeirra innihalda paraben og þalöt. Paraben eru notuð sem rotvarnarefni í snyrtivörur. Þalöt eru samheiti yfir efni sem aðallega eru notuð sem mýkingarefni í plasti en einnig í snyrtivörum. Þessi efni komast hæglega inn í blóðrásina við notkun. Áhyggjur hafa beinst að því hvort þessi efni geti aukið hættuna á hormónatengdu krabbameini þar sem þau eru mikið notuð. Ekki var hægt að finna nein tengsl þarna á milli í rannsókninni.

Upp úr 2000 voru settar hömlur á notkun parabena í snyrtivörum. Þær takmarkanir komu í kjölfar niðurstaðna sem gætu bent til tengsla milli parabena og aukinnar tíðni brjóstakrabbameins. Vísindamenn hafa nú rannsakað skaðleg áhrif þessara efna og hvort eitthvert samhengi gæti verið þarna á milli. Í rannsókninni voru norskar konur á aldrinum 46-68 ára sérstaklega skoðaðar en meðalaldur var 55 ár. Þátttakendur svöruðu spurningalista með spurningum um heilsufar, lífsstíl, lyfjanotkun, mataræði, hreyfingu og notkun á snyrtivörum. Alls tóku yfir 174 þúsund norskar konur þátt. Svörin voru borin saman við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið um konur og krabbamein og ná allt til ársins 1991. Niðurstaðan sýnir engin tengsl á milli mikillar notkunar á alls kyns húðvörum og brjósta- eða leghálskrabbameins hjá konum, hvorki fyrir né eftir breytingaskeiðið. Sérstök vörumerki í snyrtivörum voru ekki skoðuð auk þess sem einungis var spurt um handáburð, andlitskrem og húðkrem (body lotion). Sömuleiðis var einungis verið að skoða ákveðinn aldur kvenna, ekki er hægt að fullyrða neitt um yngri konur sem byrja oft snemma að nota snyrtivörur. Niðurstöðurnar ættu hins vegar að geta róað miðaldra og eldri konur.

Rannsóknin ber nafnið, ef einhver vill kynna sér hana betur: Use of skincare products and risk of cancer of the breast and endometrium: a prospective cohort study.