Dolli og Systa, eins þau eru oftast kölluð, leigðu sér húsbíl og tvö rafmagnshjól og hafa þvælst um í afar fallegu umhverfi á Norður-Spáni og eru nú komin til Portúgals.

„Fyrir fjórum árum þegar við héldum upp á þrjátíu ára brúðkaupsafmæli okkar leigðum við okkur húsbíl, keyptum hjól og ferðuðumst um Toskana á Ítalíu og Króatíu. Okkur fannst þetta svo rosalega skemmtilegt að við erum búin að vera að bíða eftir því að komast aftur í svona ferð. Núna ákváðum við að taka Spán og Portúgal,“ segir Adolf, sem um árabil var fastagestur á skjáum landsmanna sem íþróttafréttamaður á RÚV.

Cudillero fiskiþorpið á norðurströnd Spánar.

Adolf segir að þessi ferðamáti sé afar skemmtilegur.

„Það skiptir mjög miklu að vera með hjól í svona ferð. Í þetta skipti ákváðum við að leigja okkur rafmagnshjól sem gerir það að verkum að við förum lengra og víðar og gerir okkur kleift að fara upp brekkur sem maður mundi ekki leggja í að fara í á venjulegu hjóli. Við vorum til að mynda í litlu fiskiþorpi, Cudillero, sem er á norðurströnd Spánar. Þetta er eitt skemmtilegasta og fallegasta svæði sem ég hef komið á og minnir mann svolítið á Cinque Terre-þorpin á Ítalíu en er vinalegra og með færri ferðamenn. Brekkan þar upp er sú brattasta sem ég hef tekist á við. Þótt við værum á rafmagnshjóli ætlaði ég varla að hafa brekkuna og ég þurfti að halla mér fram svo hjólið prjónaði ekki. Maður kemst yfir svo miklu meira svæði með hjólunum, sér miklu meira, hreyfingin verður meiri og ég mæli svo sannarlega með þessum ferðamáta. Þetta eru ofsalega skemmtileg ferðalög. Ef fólk ætlar að velja að ferðast í húsbíl þá á það endilega að hafa með sér góð hjól eða rafmagnshjól,“ segir Adolf Ingi.

Adolf Ingi að hafa til veitingar í húsbílnum.

Rómantískt og skemmtilegt

Adolf segir að það sé mjög þægilegt að ferðast í húsbílnum.

„Það er frekar dýrt að leigja svona húsbíla en í vor datt ég inn á góða síðu, eins konar Airbnb fyrir húsbíla, og við fengum bílinn á hálfvirði miðað við það sem maður fær á bílaleigum. Það er fín aðstaða í bílnum og gott að sofa í honum. Að vísu er ekki loftræsting svo þegar hitinn var yfir 30 stig fyrstu dagana þá svitnaði maður svolítið mikið. Við eldum ekki mikið í bílnum en borðum heilmikið í og við hann. Að sitja úti á kvöldin fyrir utan bílinn og borða í rólegheitum er rómantískt og skemmtilegt. En auðvitað förum við líka af og til út að borða. Þessi ferðamáti gefur manni svo mikið frelsi,“ segir Adolf Ingi.

Húsbíllinn sem Adolf Ingi og Þórunn ferðast á um Íberíuskagann.

„Við Systa þolum hvort annað alveg þokkalega í þessu litla rými í bílnum,“ segir Adolf en þau skötuhjú hafa verið saman í 44 ár. „Maður þarf svolítið að læra og aðlagast því að umgangast svona rými. Það er ekki pláss fyrir báða aðila að vera að gera eitthvað. Við höfum hins vegar komið okkur upp ákveðinni rútínu til vera ekki að þvælast fyrir hvort öðru. Hlutir sem lenda á mér eru til dæmis að tæma klósettið, fylla á vatnið og sjá um rafmagnið en Systa sér meira um að reyna að halda öllu í horfinu í bílnum. Vanalega veljum við okkur tjaldstæði með tilliti til þess að geta hjólað í bæina eða farið í góða hjólatúra. Það eru fín tjaldstæði úti um allt og ég held að Google Maps hafi bjargað mörgum hjónaböndum,“ segir Adolf og hlær.

„Nú þarf ekki annar aðilinn að vera með kortið á lofti til að reyna að rata réttu leiðina. Stundum erum við ekki búin að ákveða hvar eigi að leggja bílnum fyrr en langt er liðið á daginn. Við reynum alltaf að finna svæði með sundlaug. Ég hef verið duglegur og hef synt í hálftíma á hverjum morgni. Við sameinum flakk, hreyfingu, að sjá marga fallega hluti og upplifum góðan mat og drykk. Þetta er geggjað líf.“