Fordæmalausir tímar. Þessi orð skilgreina ekki einungis íslenskt samfélag árið 2020 heldur einnig íslenska leikárið. Rask og rof hafa einkennt síðasta og núverandi leikár þar sem kórónaveirufaraldurinn tróð sér í aðalhlutverkið. Á árinu sem nú er að líða hafa leikhúsin einungis verið opin í rétt tæpa fjóra mánuði, í byrjun árs og stuttlega í haust. Þess á milli voru tjöldin dregin fyrir. En með nýju ári koma vonandi bjartari tímar, nýjar áherslur og gleði í leikhúsum landsins.

Lauk með hvelli

Síðasta leikári lauk með hvelli um miðjan mars. Gríman fór fram með óhefðbundnu sniði en í þetta skipti sópaði Þjóðleikhúsið til sín verðlaunastyttum. Í lok júlí bárust þær sorgarfréttir að Gísli Rúnar Jónsson hefði látist. Hann skilur eftir sig ómetanlega arfleifð sem leikari, handritshöfundur og þýðandi. Reykjavík Fringe Festival var þó haldin í ár en Act Alone var blásin af í annarri bylgjunni. Áhorfendur verða líka að bíða til næsta árs til að sjá LÓKAL og RDF.

Tjarnarbíó, undir forystu Friðriks Friðrikssonar, reið á vaðið með því að opna sínar dyr fyrr en önnur leikhús. Tjarnarbíó hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum misserum með framsæknum sýningum, fjölbreyttum efnistökum og metnaði fyrir að sinna sjálfstæðum sviðslistum á landinu. Í byrjun leikárs stóð Tjarnarbíó öðrum leikhúsum framar þegar kom að lausnum. En þegar líða tók á veturinn og harðari sóttvarnaaðgerðir voru kynntar, fór róðurinn að þyngjast mjög.

Flestar sýningar sem náðu á fjalirnar í haust voru þær sem frestað var í vor. En því miður voru örlög þessara örfáu sýninga sú að þriðja bylgjan skall á og þeim skolaði í pásu. Bæði 9 líf í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar og Kardemommubærinn í leikstjórn Ágústu Skúladóttur hafa átt erfitt uppdráttar, fyrst með seinkunum og síðan fyrrnefndri þriðju bylgju. Töluverðan tíma mun taka Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið að koma aftur skipulagi á sín stóru svið þar sem tugþúsundir miða haf verið seldar á þessar tvær sýningar.

Nýir listrænir stjórnendur hafa tekið við bæði Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Magnús Geir Þórðarson og Brynhildur Guðjónsdóttir gengu inn í kófið með jákvæðnina að vopni, ekki verkefnið sem þau sáu fyrir. Leikárið í haust var þó kynnt með pompi og prakt, smærri sýningum var forgangsraðað og yndislegt var að sitja í leikhúsunum aftur, ef tímabundið. Þar stóð Ekkert er sorglegra en manneskjan, eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson, leikstýrt af Adolf Smára Unnarssyni í Tjarnarbíói upp úr, enda hér á ferð eftirminnileg naumhyggjuópera sem talaði beint inn í samtímann. Leikfélag Akureyrar í samvinnu við Hælið sýndi verkið Tæringu, sem var sömuleiðis áhrifarík upplifun. Hvammstangi International Puppetry Festival var haldin í fyrsta skipti nú í byrjun október, hátíð sem örugglega verður gaman að fylgjast með. Samvinnusýningin Ég býð mig fram, fór eingöngu fram á netinu og ógrynni af erlendu sviðslistaefni má finna rafrænt um þessar mundir. Streymisvæðingin er komin til að vera og vonandi líka NT Live í Bíó Paradís, sem færir breskt leikhús til þjóðarinnar.

Gríðarlegt tekjutap

Tekjutap leikhúsanna hefur verið gríðarlegt. Verst fór fyrir sjálfstæðum leikhópum og einyrkjum. Þrátt fyrir fjölmörg loforð um aukinn stuðning frá ríki og borg virðast þau loforð ekki vera sniðin að þörfum sjálfstæðra leikhópa og listafólks. Tekjufallsstyrkirnir (lokunarstyrkir og viðspyrnustyrkir) svokölluðu virðast ekki henta félagaformi sjálfstæðra leikhópa. Þrátt fyrir fjölmörg mótmæli og samráð við ráðafólk virðist ekki eiga að taka tillit til þeirra þarfa. Sjálfstætt listafólk lenti líka úti í kuldanum fyrri part árs. Margir sitja eftir með sárt ennið og tóman kassa. Sömuleiðis bólar ekkert á miðstöð íslenskra sviðslista, sem margoft er búið að tilkynna að sé alveg að fara opna. En sviðslistafólk er ekki þekkt fyrir að leggja árar í bát.

Þjóðleikhúsið lagði mikla áherslu á innra starf og nýjungar. Anddyrið hefur loksins verið endurbætt og heppnaðist verkið einstaklega vel. Nýtt hlaðvarp var sett út í eterinn sem og Hljóðleikhúsið, þar sem klassísk, íslensk leikrit voru í fyrirrúmi. Aðventuvagninn þeystist af stað í desembermánuði og gerð var tilraun til að sviðsetja litla jóladagskrá á þrepum Þjóðleikhússins, en frá varð að hverfa vegna hópamyndunar. Borgarleikhúsið streymdi viðburðum síðastliðið vor og setti einnig hlaðvarp í loftið, en minna var að frétta þegar hausta tók. Aðventudagatalið þeirra kom með kátínuna inn í skammdegið og er vonandi merki um betri tíma.

Stuðningur nauðsynlegur

Í byrjun desember hófust æfingar aftur en leikárið hefur gjörbreyst. Miklar tilfærslur áttu sér stað innan veggja leikhúsanna og ekki sér fyrir endann á þessu öllu saman. Jólasýningarnar verða ekki með hefðbundnum hætti í ár, svo mikið er ljóst. Þjóðleikhúsið hefur gefið út vegvísi fyrir breytingar en ekki önnur leikhús sem skiljanlegt er, enda með öllu óljóst hvenær hægt verður að fara aftur í leikhús.

Nú er lag að nýta tækifærið og miða hátt. Ekki leita huggunar í því sem var fyrir fárið heldur að taka slaginn, gera betur og ögra. Fjölmenning og fjölbreytt verkefnaval verða að vera í fyrirrúmi. Sviðslistastofnanir geta ekki haldið því fram að þær séu að endurspegla samfélagið, ef andlitin á sviðinu eru eingöngu hvít á hörund og nýjar raddir fá ekki að heyrast.

Oft hefur verið mikilvægt að styðja við bakið á sviðslistafólki landsins en nú er nauðsyn. Leikhús snýst ekki einungis um það sem gerist á sviðinu heldur um samkennd og sameiginlega upplifun allra þeirra sem vinna baksviðs, standa á sviði og þeirra sem sitja úti í sal. Sviðslistin er okkar allra, þjóðargersemi sem ber að varðveita og fagna. Sviðslistafólkið okkar hefur staðið í ströngu allt árið og á skilið heiður og hlýju yfir hátíðarnar.

Sjáumst í leikhúsinu á næsta ári!

Ekkert er sorglegra en manneskjan talaði beint inn í samtímann. Mynd/Aðsend
Gísli Rúnar skilur eftir sig ómetanlega arfleifð. Fréttablaðið/GVA