„Jú, það á að fagna því að minn fyrsti „co­me­dy special“ er kominn á Sjón­varp Símans og vod-ið hjá Voda­fone. Þetta tók smá tíma en planið var frá upp­hafi að ná þessu inn hérna og þetta er loksins komið,“ segir uppi­stands­grínarinn Arnór Daði Gunnars­son sem ætlar að fagna því annað kvöld, með góðum grín­vina­hópi, að sýningin hans Big, Small Town Kid er komin í ís­lenskt streymi á veitum Sjón­varps Símans og Voda­fone.

Súrrealísk gleði

Stand Up Records fram­leiðir spesíalinn svo­kallaða og gaf hann út í desember og ör­verpið úr fimm syst­kina hópnum frá Hauga­nesi, þar sem hann er fæddur og upp­­alinn, upp­lifði súrrealíska gleði þegar banda­ríska fram­leiðslu­fyrir­tækið tók hann upp á sína arma.

„Þetta er svona kannski stærsta sjálf­stæða grín­fram­leiðslu­fyrir­tækið í Banda­ríkjunum og hefur gert svona „co­me­dy specials“ með Patt­on Oswalt, Lewis Black, Mariu Bam­ford, Marc Maron og David Cross. Þannig að þetta var ekkert smá­ræði fyrir mig, sko,“ segir ís­lenski sveita­strákurinn sem hefur þessa stór­grínara í há­vegum.

„Ég get ekki sagt annað en að við­brögðin hafi verið mjög góð og ég hef alla­vegana ekki heyrt neitt slæmt enn­þá,“ segir hann um sýninguna sem hefur verið að­gengi­leg á helstu al­þjóð­legu efnis­veitunum og á heima­síðunni standu­precords.com.

Hálf­gerð til­viljun

Segja má að Dan Shissel, fram­kvæmda­stjóri Stand Up Records, hafi upp­götvað Arnór Daða fyrir nokkrum misserum þegar hann sá hann fyrir hálf­gerða til­viljun troða upp í grín­klúbbnum sáluga The Secret Cellar í Reykja­vík.

„Hann sá mig uppi á sviði og leist vel á mig og við spjölluðum eftir sýninguna. Þetta var mjög súrrealískt,“ segir Arnór Daði sem áttaði sig strax á því hvaða stór­kanóna var þarna á ferð.

Þessi fundur markaði upp­haf Face­book-vin­áttu sem vatt síðan þannig upp á sig að ís­lenski grínarinn komst á blað með mörgum af þeim stóru hjá Stand Up Records.

„Ég var síðan með mjög svipaða sýningu á Reykja­vik Fringe Festi­val 2020 þar sem hún vann til þrennra verð­launa og hann sá grein um hana í Reykja­vik Grapevine á Face­book. Þetta var sumarið 2020 og það var allt lokað í Banda­ríkjunum en opið hérna og hann sá tæki­færi til að taka upp eitt­hvert uppi­stand hérna og sendi mér skila­boð,“ segir Arnór Daði sem í kjöl­farið skrifaði undir samning um að fram­leiða klukku­tímalanga sýningu.

Þá var lagt upp með að drífa í fram­leiðslunni strax um haustið en þá skellti Co­vid öllu aftur í lás og fram­leiðslunni var frestað fram á næsta ár.

Geð­veikt spenntur

Hringnum var síðan lokað síð­sumars þegar Big, Small Town Kid rann saman við ís­lenska streymið. Og nú skal því fagnað. „Við vorum búin að tala um að gera svona sýningu og svo kom Emily Pitts, vin­kona mín frá Banda­ríkjunum, og hún er dug­legri en ég að fram­kvæma og gera hluti.

Þannig að hún ýtti eigin­lega rosa­lega mikið á eftir mér og ég hóaði saman vinum mínum.“ Mauricio Villa­vizar, marg­verð­launaður uppi­standari, er kynnir kvöldsins og Arnór Daði neitar því ekki að hann sé orðinn býsna spenntur.