Blaðamaður ræddi við Hurðaskelli í hellisskútanum sem hann heldur til í ásamt bræðrum sínum og systrum, foreldrum og húsketti. Hurðaskellir er einn af hressari jólasveinunum, enda þekktur fyrir það að fara um með látum, með hrossabresti og hurðaskellum. Það er lokkandi matarlykt í loftinu en undirrituð lét það vera að spyrja hvaða kjöt væri í pottréttinum, enda vildi hún síður hafa það á sinninu hvort skötuhjúin Grýla og Leppalúði héldu sig við sögufrægt mataræðið eður ei.
Hvað er svo títt af Hurðaskelli?
„Bara svakalegaobboslegagríðarlega gott, en þér?
Bara allt gott. Hlakkar þú til jólanna?
„Jaaaaaaháááááá! Jólin eru sko langskemmtilegasti tími ársins.“
Hvað er það sem heillar þig við jólin?
„Öll fallegu jólaljósin sem lýsa upp skammdegið, ilmurinn af piparkökum og mandarínum um allan bæ og svo á ég líka afmæli þann 23. desember.“

Ferill á hvíta tjaldinu
Hurðaskellir situr ekki auðum höndum á milli þess sem hann mætir á jólaböll og gefur krökkum í skóinn. „Mér er boðið á fjöldamörg jólaböll þetta árið og ég hlakka mikið til að heilsa upp á krakkana og dansa í kringum jólatréð. Svo verð ég auðvitað á fullu að útbúa gjafir í skóinn.“
Hann segist vera sérstaklega upptekinn í allan desember þetta árið, þó hann eigi tæknilega séð að koma til byggða aðfaranótt 18. desember. Þá skilst blaðamanni að hann sé meðal annars að hasla sér völl í sjónvarpi og á leiksviðinu. Það líður líklega ekki á löngu uns þessi hæfileikaríki tröllkarl hreppir alþjóðleg verðlaun fyrir afrek sín á hvíta tjaldinu.
„Við erum nokkur úr fjölskyldunni, ég og mamma, pabbi og fleiri, að undirbúa rosalega flotta leiksýningu sem verður sýnd í Guðmundarlundi og heitir Ævintýri í Jólaskógi. Þetta verður svaka spennó sko. Gestir mæta með vasaljós og elta vísbendingar í skóginum eins og til dæmis jólakúlur eða luktir. Á leiðinni hittir fólk mig eða bróður minn og einhverja fleiri úr fjölskyldunni minni og við segjum gestum sögur. Svo þegar leikritið er búið þá fær fólk sér bara kakó og piparköku eða mandó (sem er sko gælunafn yfir mandarínu). Þetta verður sko mjöööög skemmtilegt og það er hægt að næla sér í miða á Tix.is. Leikritið er frumsýnt 27. nóvember og það verða sýningar á hverjum degi fram að jólum, og mögulega einhverjar á milli jóla og nýars.
Svo verðum við Skjóða systir í fyrsta sinn með þátt í sjónvarpinu, en við höfum sko verið í mörg ár á jútúp. Við ætlum að vera með Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu. Í ár heitir það reyndar Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu – Fjársjóðsleit, og er unnið í samstarfi við Samgöngustofu og Sjónvarp Símans. Mamma leikur stórt hlutverk í þáttunum með okkur. Þetta er nefnilega hálfgert umferðarreglujóladagatal en það var sko hún sem kenndi okkur þær.“ Það verður spennandi að sjá hvernig Grýla kýs að túlka umferðarreglurnar.
Sýna verkin raunsanna mynd af lífi jólasveina?
„Ég get því miður ekki tjáð mig um málið að svo stöddu,“ segir Hurðaskellir. Hann berst augljóslega við að halda flissinu í skefjum og orgar svo: „Mig hefur sko alltaf langað að prófa að svara spurningu eins og stjórnmálamaður,“ segir hann og skellir uppúr.
Hvað verður í matinn á aðfangadagskvöld?
„Pabbi eldar alltaf á aðfangadagskvöld og það er alltaf jólagrautur í matinn. Það er líka uppáhaldsmatur allra. Nýverið tók hann síðan upp á því að lauma möndlu í hverja einustu skál og þá fá allir mandarínu í verðlaun. Svo borða bara allir það sem þeim þykir best. Sumir borða skyr, aðrir bjúgu, enn aðrir hangikjöt …Listinn er langur.“
En gefið þið systkinin og foreldrar hvert öðru jólagjafir?
„Það er gaman að þú skyldir spyrja að þessu, því þetta tengist sögunni sem ég segi í Jólaskóginum. Við fjölskyldan erum fleiri en hundrað talsins, enda hefur Grýlumamma verið dugleg gegnum aldirnar. Ein jólin gáfum við öll, öllum systkinum og foreldrum gjafir. Eins og þú getur ímyndað þér, þá er ekki nokkur leið að halda utan um fleiri en 10.000 gjafir í einu jólaboði. Þannig að upp frá því bjuggum við til lítinn leik. Nú gefur hvert okkar þrjár gjafir og við fáum þá líka þrjár jólagjafir, sem er alveg mátulegt. Á jóladag erum við svo öll bara heima að livva og njódda og slagga, eins og söngmaðurinn sagði í einhverju lagi.“
En hvað er að frétta af systkinahópnum?
„Bara allt flott sko, nema Langleggur er með hælsæri og Nípa og Láni eru með kvef. Svo eru Skreppur og Típa au-pair á Grænlandi. Jólasveinarnir eru allir komnir í æfingabúðir þar sem við erum að æfa jólalögin og dansana, en það er eins gott að rifja þetta upp á hverju ári. Við erum næstum allir orðnir 500 ára og sumir vel það og minnið verður æ gloppóttara.“
Nýlega bárust fregnir frá Akureyrarbæ um að bann verði lagt við lausagöngu katta þar í bæ. Ekki er úr vegi að spyrja hvað verður um Jólaköttinn fyrir norðan. „Ég hlakka til að sjá þann sem ætlar að banna honum það sem hann vill gera, Hahahahahah. Við erum rúmlega 100 tröll sem eigum að heita eigendur hans og hann hefur aldrei hlýtt neinu sem við segjum. Ég held ekki að neinar reglur muni halda kisa í skefjum.“
Hvernig hurðum er best að skella?
„Hvítum fulningahurðum úr furu er langbest að skella.“
Hefurðu sérstaka skoðun á hurðarhúnum?
„Mér finnst hurðarhúnar með talnalás erfiðir, en giska samt merkilega oft á rétta talnarunu.“
En hvað finnst þér um sjálfvirkar rennihurðir, svona eins og þær sem eru í matvöruverslunum?
„Það ætti sko miklu frekar að banna þær frekar en ketti. Það er engin leið að skella þeim!“
Skellir þú á í símanum?
„Ég gerði það í gamla daga þegar það voru svona samlokusímar. En mér finnst núorðið miklu skemmtilegra að skella uppúr. Hahahahahah.“