Bókin er stutt og laggóð og hefur fengið mjög góðar viðtökur. Við erum búnir að fá góða gagnrýni og það eru margir fullorðnir búnir að hrósa húmornum og líka boðskapnum í bókinni,“ segir Ólíver Þorsteinsson, 24 ára gamall bókaútgefandi, um bókina Jólasveinar nútímans sem hann gerði ásamt þrettán ára gömlum bróður sínum, Tómasi Leó, sem einnig myndskreytir.

„Við kynnum alla jólasveinana með skemmtilegum sögum og það er kafli fyrir hvern og einn. Þetta er algjör jólabók og það er mikill húmor í henni líka og það er náttúrlega skemmtilegt að fólk les bókina með börnunum sínum,“ heldur Ólíver áfram og víkur nánar að boðskap bókarinnar.

„Það er líka sýnt hvernig þeir voru í gamla daga og hvernig þeir breyttust til hins betra. Þannig að það er boðskapur í þessu.“

Byrjað í jólastuði

Ólíver gefur Jólasveina nútímans út undir merkjum Leó bókaútgáfu sem hann stofnaði fyrr á þessu ári með það fyrir augum að auðvelda nýjum höfundum að koma sér á framfæri. Eða eins og það er orðað á heimasíðu útgáfunnar: „Eigendur LEÓ eru ekki ókunnugir hindrunum í heimi rithöfunda og því er mikið lagt upp úr góðu aðgengi og nánu samstarfi við alla þá sem vilja gefa út sína bók.“

Ólíver segir fyrsta upplag bókarinnar á þrotum og hann hafi þegar látið prenta meira þannig að þeir bræður megi vel við una. „Þetta byrjaði síðustu jól. Ég hafði áður skrifað bókina Leitin að jólakettinum sem kom út 2018 og var kominn í jólastuð og vildi skrifa aðra svona barnabók.“

Instagram-fylgið hrynur af Grýlu við hurðaskellina. Mynd/Tómas Leó

Áhrifavaldurinn Grýla

Ólíver segist þá hafa stungið upp á því við litla bróður sinn að þeir myndu færa jólasveinana til nútímans og skoða hvar þeir væru staddir í dag.

„Við fórum út að borða og funduðum um þetta. Spjölluðum heillengi um söguna og fullt af hugmyndum spratt upp. Við byrjuðum bara á því að ræða þessar hugmyndir og fórum svo bara að skrifa á fullu í byrjun árs 2020. Skyrgámur er til dæmis kominn með mjólkuróþol, Ketkrókur er orðinn vegan og Leppalúði er orðinn heimavinnandi húsfaðir.“

Það hlýtur að vera erfitt fyrir Ketkrók að vera vegan?

„Já, hann reynir nú að breyta um nafn í þjóðskrá en nær því ekki alveg vegna þess að hann er ekki skráður þar,“ segir Ólíver og hlær áður en hann útskýrir hvernig í ósköpunum jafn hræðilegt fyrirbæri og Grýla getur orðið vinsæll áhrifavaldur á Instagram.

„Já, heyrðu. Grýla er orðin þvílíkt vinsæl á Instagram. Hún fór í það og Leppalúði þarf núna að sjá um hellinn á meðan hún er algjör stjarna. Hún bannar til dæmis Hurðaskelli að skella hurðum vegna þess að það hefur áhrif á Instagram-aðganginn hennar. Hún missir fylgjendur þegar hann er að skella hurðum.“

Hákarl og Home Alone

Í káputexta bókarinnar segir meðal annars að það geti reynst „ellismellum“ eins og jólasveinunum erfitt að kveðja gamlar venjur. Allir þurfi þeir þó að hrista af sér villimennsku og prakkaraskap fortíðar og læra að haga sér almennilega.

Þeir bræður, Ólíver og Tómas, eru sjálfir fastheldnir á hefðirnar, ekki síst í kringum jólin. „Við erum mikil jólabörn og höfum alltaf verið,“ segir Ólíver. „Við erum með okkar hefðir um jólin. Ein hefð er reyndar svolítið skrýtin en á Þorláksmessumorgun þá fáum við okkur alltaf hákarl í morgunmat og horfum á Home Alone. Það er fastur liður.“

Þvörusleikir er enn mikið til við sama hellishornið. Mynd/Tómas Leó