Það er sagt að allir eigi sinn tvífara en öllu sjaldgæfara er að tvífararnir komi úr dýraríkinu. Krúttlegur hundur hefur vakið athygli á Reddit en hann þykir minna um margt á tónlistarmanninn Ed Sheeran. Breska blaðið Mirror fjallar um þetta.
„Þessi hundur er alveg eins og Ed Sheeran,“ sagði sá sem setti innleggið inn á Reddit. Óhætt er að segja að myndin hafi vakið athygli en hundurinn er sagður blendingur af tegundunum Lhasa Apso og Shih Tzu.
Margir tóku undir að hundurinn væri líkur tónlistarmanninum en aðrir bentu á að hann ætti sér ef til vill fleiri tvífara. Var nafn tónlistarkonunnar Siu nefnt í því samhengi og Franks Gallagher, hins litríka karakters úr þáttunum Shameless sem William H. Macy leikur.
Þetta er ekki eini hundurinn sem á þekktan tvífara því nýlega birti Thomas Green, eigandi tíkurinnar Laylu, mynd af henni og sagði hana alveg eins og leikarann Will Ferrell.
