Hundurinn Mosi hefur slegið í gegn á Landspítalanum sem geðhjúkrunarhundur. Hann er í eigu Ragnheiðar Bjarman Eiríksdóttur, aðstoðardeildarstjóra á Kleppi, og tekur hún þriggja ára gamla Maltese-hundinn Mosa með sér í vinnuna reglulega.
Í færslu sem birt var í Facebook-hópnum Hundasamfélagið og hlotið hefur góðar viðtökur sést Mosi með nafnspjald, líkt og starfsmenn Landspítalans nota, um hálsinn með starfstitlinum geðhjúkrunarhundur.

„Hann er oft með mér í vinnunni og hefur bara svo dásamlega skapgerð...fagn og kúr...fer líka oft með fólki í viðtöl,“ segir Ragnheiður um hinn geðþekka geðhjúkrunarhund Mosa.

