„Þetta er búið að ganga alveg rosalega vel,“ segir Þóra Clausen, dagskrárstjóri Stöðvar 2. Dómarar eru þau Birgitta Haukdal, Daníel Ágúst, Bríet og Herra Hnetusmjör.

„Við fengum gríðarlega mikið af innsendingum þar sem fólk sendi okkur sína prufu. Svo fórum við hringferð um landið og fengum fólk í prufu, svo það gekk rosalega vel að finna hæfileikana.“

„Í síðustu viku vorum við með fyrstu upptökur með dómurum. Þar fékk fólkið sem komst í gegnum fyrstu síuna að hitta dómarana og þar með hófust formlega tökur. Því stigi er núna lokið og keppendur mæta næst í prufu í Salinn í Kópavogi nú í nóvember. Svo fara þættirnir í sýningu 25. nóvember. Við munum sýna fjóra þætti fyrir jól og höldum áfram. Við vonum auðvitað bara að fjölskyldan sameinist yfir þessum þáttum!“ segir Þóra.

Hún segir aðspurð nokkur hundruð manns hafa tekið þátt í prufunum. „Svo voru það svona um hundrað manns sem komust í gegnum fyrstu síuna og voru boðaðir í gegnum dómaraprufu. Svo þegar niðurskurðinum í Salnum er lokið fer hópurinn áfram sem mun keppa í beinni útsendingu.“

Þóra segir ekki leyndarmál hvar úrslitin verða tekin upp og sýnd í beinni, þó það verði ekki Vetrargarðurinn í Smáralind eins og síðustu ár. „Það er stúdíóið í Gufunesi. Við tókum upp Allir geta dansað þar og Eurovision hefur verið tekið upp þar, þannig það er hægt að gera flott show þar.“

Fréttablaðið/Aðsend