Þar áður höfðu læknar engar aðferðir til að lækka hættulega háan blóðsykur hjá sykursjúkum og meðferðir gátu í besta falli lengt líf sjúklinga um nokkur ár með því að lágmarka inntöku kolvetna í mataræði þeirra.

Árið 1889 komust tveir þýskir vísindamenn að því að þegar briskirtillinn var fjarlægður úr hundum þróuðu dýrin einkenni sykursýki og dóu skömmu síðar. Af þessu spratt hugmyndin að brisið væri sá hluti líkamans sem þróaði efni sem spornuðu gegn sykursýki og var efninu síðar gefið nafnið insúlín.

Það var svo árið 1921 sem skurðlæknir að nafni Frederick Banting og aðstoðarmaður hans, Charles Best, uppgötvuðu hvernig fjarlægja mætti insúlín úr brisi hunds. Þeir héldu öðrum hundi með sykursýki á háu stigi á lífi í sjötíu daga með því að gefa honum insúlín og drapst hundurinn aðeins þegar meðferðinni var hætt. Þeir héldu rannsóknum áfram ásamt lífeðlisfræðingnum John MacCleod og þróuðu fágaðra insúlín úr brisi nautgripa.

Það var svo þann 11. janúar 1922 í Kanada sem hinn fjórtán ára gamli Leonard Thompson varð fyrstur manna til að fá insúlínsprautu gegn sykursýki. Á innan við sólarhring frá sprautunni hafði glúkósinn í blóði Thompson lækkað aftur niður á eðlilegt stig.

Ári síðar fengu Banting og Macleod Nóbelsverðlaunin í læknisfræði. Þeir deildu verðlaunafé sínu með aðstoðarmönnum sínum.

Vaxandi vandamál

Þrátt fyrir að insúlín hafi verið himnasending fyrir sykursjúka er sjúkdómurinn enn alvarlegt vandamál. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þjást um 422 milljónir af sykursýki á heimsvísu, meirihlutinn í lág- og meðaltekjulöndum. Um 1,5 milljónir dauðsfalla má rekja beint til sykursýki á hverju ári.

Bæði fjöldi tilfella og algengi sykursýki hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum áratugum. Fjöldi fólks með sykursýki 2 á Íslandi var um 10.600 manns árið 2018 og hafði fjölgað úr um 4.200 frá árinu 2005.

„Þetta hefur verið að springa út hérna og hefur margfaldast á nokkrum árum,“ segir Bolli Þórsson, sérfræðingur í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum hjá Hjartavernd. Hann bendir á að helsti áhættuþátturinn sé offita.

„Langlíklegasti áhættuþátturinn er aukin þyngd,“ segir hann. „Þótt við höfum ekki haft nýjar upplýsingar um líkamsþyngdarstuðulinn frá 2011 þá getum við séð aukninguna á eftirspurn eftir sykursýkislyfjum.“