Hunda­gæslu­maður söng­konunnar Lady Gaga var skotinn í gær­kvöldi í Los Angeles og hundum hennar rænt. Þeta kemur fram á vef slúður­miðilsins TMZ.

Hunda­gæslu­maðurinn Ryan Fischer var að viðra hunda söng­konunnar þegar minnst einn maður, mögu­lega tveir, réðust að honum og skutu hann fjórum sinnum.

Fischer var með þrjá hunda Gaga með í för sem allir eru franskir bola­bítar en sam­kvæmt TMZ var tveimur hundum stolið og einn slapp.

Fischer var með með­vitund þegar lög­reglu­menn mættu á vett­vang. Á­stand hans er sagt al­var­legt en hann er ekki sagður í lífs­hættu.

Sam­kvæmt TMZ hefur hefur Gaga heitið því að greiða hálfa milljón dala fyrir þann sem skilar hundunum hennar.