Einleikurinn Hún pabbi var frumsýndur í Borgarleikhúsinu árið 2017. Verkið er sett upp af leikhópnum Trigger Warning, en það fjallar um upplifun leikarans Hannesar Óla Ágústssonar af því ferli og þeirri lífsreynslu að faðir hans kom út sem transkonan Anna Margrét.

Hefur taugar til Færeyja

„Við sýndum líka á Einleikjahátíðinni á Suðureyri og hjá Leikfélagi Akureyrar þar sem aðsóknin var góð. Síðan þá hefur verkið legið í nokkurs konar dvala, aðallega af því að ég eignaðist mitt fyrsta barn,“ segir Hannes Óli, nýstiginn úr kennslustund í Listaháskólanum, þar sem hann kennir leiktúlkun.

Hann segir að sjálfan hann og leikhópinn Trigger Warning hafi mikið langað til að fara með verkið víðar.

„Það lá beinast við að fara til Færeyja. Ég var að leika þar fyrir nokkrum árum og kynntist þar nokkrum heimamönnum. Ég hef því taugar til staðarins, mér finnst svo margt frábært við færeyska menningu, þjóð og náttúru. En verkið er eitthvað sem á vel við að sýna þar, hvort sem það er satt eða ekki, þá er það þekkt að Færeyjar séu kannski aðeins aftar á merinni í jafnréttismálum og málefnum samkynhneigðra.“

Vilja vekja upp umræðu um málefni transfólks

Því hafi þeim í Trigger Warning fundist liggja beint við að sýna verkið í fyrsta sinn fyrir utan landsteinana í Færeyjum og vekja þannig umræðu um málefni og réttindi transfólks. Ljósahönnuðurinn Kjartan Darri Kristjánsson og aðalhöfundur og listrænn stjórnandi verksins, Kara Hergils Valdimarsdóttir, fara með Hannesi til Færeyja að segja verkið upp.

„Í verkinu er ég fyrst og fremst að segja mína sögu og frá minni upplifun. Það sem við vildum gera var að opna á umræðuna. Þetta er ekki eitthvert lærdómsverk eða algilt að upplifun annarra sé eins og mín.“

Þótt það sé ekki tilgangur verksins að kenna öðrum hvernig fara skuli að í þeim aðstæðum sem hann upplifði vonar leikhópurinn að verkið geti að einhverju leyti hjálpað öðrum.

„En verkið snýst aðallega um samskipti mín og pabba, en við höfðum það líka að leiðarljósi að normalísera einhvern veginn umræðuna. Okkur langaði með verkinu að opna umræðuna um eitthvað sem sumu fólki þykir framandi eða undarlegt.“

Talar ekki fyrir hönd allra

Hannes Óli segist alltaf hafa verið opinn og tilbúinn að svara spurningum fólks.

„En ég tek auðvitað alltaf fram að svona hafi mín upplifun verið, ég get ekki til dæmis að fullu sett mig í fótspor pabba míns og talað fyrir hennar hönd. Ég reyni að tala ekki um það sem ég hef ekki forsendur til að tala fyrir.“

Hann segir að fyrst um sinn og jafn vel enn þann dag í dag ruglist hann sjálfur á fornafninu og kalli pabba sinn hann.

„Ég hef ruglast af og til á þeim tíu árum sem eru liðin síðan pabbi kom út. Það er mjög skýrt í samskiptum mínum og pabba að hún sé pabbi minn, en sem manneskja er hún hún. Ég þurfti smá bara að venja mig á þetta,“ segir Hannes.

Spunaleikrit í stofunni

Hannes segist opinn með það að þetta hafi líka reynst flókið að venjast, en það sé allt liður í því að opna enn frekar á umræðuna.

„Og það að fólk þori ekki að spyrja eða ræða, það gerir málefnið meira tabú, sem það er ekki. Okkur langaði að fólk upplifði þetta sem venjulegt umræðuefni. Hvernig ég tala við pabba minn í dag er ekkert öðruvísi en þegar ég talaði við hann fyrir tíu árum, nema aðallega að pabba mínum líður betur.“

Frumburður Hannesar nýtur góðs af leikhæfileikum föður síns.

„Ég æfði kannski frekar verkin fyrir hana þegar hún kunni ekki að tala. Stundum eru samt sett upp í stofunni heima leikrit sem eru samblanda af Dýrunum í Hálsaskógi, Línu Langsokk og Batman. Það þjálfar í manni spunahæfnina.“

Hún pabbi verður sýnt í Færeyjum í Løksholl í Rúnavik á laugardaginn og Norðurlandahúsinu í Þórshöfn á sunnudaginn.