Yfirlitssýning á verkum og ævistarfi Gunnars Péturssonar stendur nú yfir í Þjóðminjasafni Íslands. Yfirskrift sýningarinnar er Í ljósmálinu.

Blaðamaður hitti Lindu Ásdísardóttur, verkefnisstjóra hjá Þjóðminjasafni Íslands, og forvitnaðist um sýninguna. „Hér er kynntur til sögunnar ljósmyndari sem fæstir hafa heyrt nefndan en á stóran sess í íslenskri ljósmyndasögu. Gunnar fæddist árið 1928 og dó 2012. Hann starfaði lengi sem skrifari hjá Eimskip og seinni hluta ævinnar vann hann í prentsmiðju. Hans lífsköllun var áhugaljósmyndun og hann myndaði frá því að hann ánetjaðist ljósmyndun um 1950 og alla ævi. Hann var ógiftur og barnlaus en eftir lát hans gáfu ættingjar hans Þjóðminjasafninu filmusafn hans, sem geymir um 54.000 myndir,“ segir Linda. „Steinar Örn Erluson heimspekingur gegndi rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárn við Þjóðminjasafnið á árunum 2018-2019 og rannsakaði þetta safn Gunnars og tók ásamt Ívari Brynjólfssyni og Ingu Láru Baldvinsdóttur viðtöl við samferðafólk hans. Þá bættist enn ein viðbótin við safneignina sem eru 800 frummyndir unnar af Gunnari sjálfum sem höfðu legið óséðar í áratugi en voru í fórum ættingja Gunnars. Miðað við umfang þessa safns er ótrúlegt hversu sjaldan Gunnar sýndi verk sín. Það má sannarlega kalla hann huldumann í íslenskri ljósmyndasögu.“

Linda Ásdísardóttir, verkefnisstjóri hjá Þjóðminjasafninu, segir Gunnar Pétursson eiga stóran sess í íslenskri ljósmyndasögu. Fréttablaðið/Stefán

Glíma við ljós og skugga

Á sýningunni í Þjóðminjasafninu eru á annað hundrað mynda. „Ívar Brynjólfsson, ljósmyndari og sýningarhöfundur, lagði mikla áherslu á að sýna sem mest af frumkópíum frá Gunnari sjálfum. Gestir eru svo heppnir að sjá þarna myndir með handbragði frá sjötta áratug síðustu aldar,“ segir Linda.

Spurð hvaða myndefni hafi helst fangað huga Gunnars segir hún: „Hið stóra framlag Gunnars til íslenskrar ljósmyndunar eru margs konar æfingar með abstrakt formið og hin eilífa glíma við ljós og skugga. Gunnar var mikill ferðagarpur og ferða- og náttúrumyndir eru stór hluti af safni hans en þar er líka verið að gera margs konar æfingar. Það voru tvær ástríður í lífi Gunnars: ljósmyndun og útivist. Hann byrjaði á því að vera ákafur og atkvæðamikill áhugaljósmyndari í borginni. Hann var í áhugamannafélögum ljósmyndara, sýndi nokkuð á sjötta áratugnum og myndir hans fóru víða og vöktu athygli. Síðan hvarf hann snögglega af þessum vettvangi. Það má segja að hann hafi horfið til fjalla. Besti ferðafélagi hans og lífsförunautur var Ingibjörg Ólafsdóttir áhugaljósmyndari og þau eyddu tíma sínum á fjöllum. Hann var dulur maður og þeir sem þekktu hann sögðu að hann hefði verið hæverskur prívatmaður.“

Mynd Gunnars Péturssonar frá 1967 af gluggum Skálholtskirkju.

Bók á leiðinni

Um náttúruljósmyndir Gunnars segir Linda: „Í safni hans eru margar náttúruljósmyndir sem eru mjög mínímalískar og formfagrar og margar alveg abstrakt. Náttúrusýnin í myndum hans var framúrstefnuleg á sínum tíma en varð vinsæl og viðtekin seinna meir. Myndirnar á sýningunni sýna vel hvernig hann hugsar alltaf í formum, flötum og hreyfingum.“

Sýningin stendur fram í lok ágúst. Í tengslum við hana er væntanleg bók um Gunnar og ljósmyndir hans eftir Steinar Örn Erluson.