Bækur
Brúðan
***1/2
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi: Bjartur
Fjöldi síðna: 359

Ungur piltur greinir frá kynferðisofbeldi í vistun á vegum ríkisins. Tveir hægri fætur finnast á hafsbotni. Útigangsmaður finnst myrtur úti á Granda. Þessi ólíku glæpamál koma öll til kasta lögreglu á sama tíma, þegar svo óheppilega vill til að flestir eru í sumarleyfi og hafa haft vit á að fara til útlanda svo ekki sé hægt að kalla þá til vinnu úr fríinu. Þeir sem eftir sitja, þar á meðal lögreglumaðurinn Huldar sem við þekkjum úr fyrri bókum höfundar, lenda í því að vinna að rannsókn í öllum málunum í einu og fljótlega kemur í ljós óvenjuleg tenging milli þessara ólíku sakamála.

Yrsa Sigurðardóttir er meistari plottanna. Í bókum hennar eru söguþræðir oft margir og fléttast yfirleitt saman á ófyrirsjáanlegan hátt þannig að spennan helst allt til enda. Persónurnar sem hún er að vinna með þessi árin, einkum þó lögreglumaðurinn Huldar og barnaverndarstarfsmaðurinn Freyja, eru skemmtilega dregnar og kómískar, hvorugt með nánast nokkuð á hreinu í lífi sínu og skrautlega seigfljótandi og misheppnaður samdráttur þeirra er áhugaverð hliðarsaga sem gengur í gegnum allar bækurnar og tengir þær að vissu leyti saman.

Barnabókahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir hefur ekki verið áberandi að undanförnu en barnabækur hennar voru hláturtaugunum og þindinni hin besta líkamsrækt. Þegar hún tók til við að skrifa fullorðinsbækur var þessi leiftrandi húmor ekki eins áberandi en við lestur þessarar bókar er hins vegar hægt að skella upp úr oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sem er alltaf mikill kostur að mínu mati enda má í þessu samhengi minnast foreldra norrænu glæpasögunnar, Maj Sjöwall og Pers Wahlöö sem léttu á oft drungalegum samfélagslýsingum sínum með gríni sem einhvern veginn hitti ennþá betur í mark vegna samhengisins. Huldar og Freyja og félagar þeirra bjóða á köflum upp á svipaða gríntakta og sumar persónurnar í bókaflokknum Skáldsaga um glæp og verða fyrir vikið raunverulegar persónur sem lesandinn á auðvelt með að tengja við og hafa áhuga á.

Brúðan er vel skrifuð og heldur áhuga lesandans. Stundum er aðeins of mikið að gerast í einu og mikið af upplýsingum sem þarf að henda reiður á í fáum dálksentimetrum til að fylgjast með en það er ekki endilega sjálfgefið og þaðan af síður kostur að allar glæpasögur sé hægt að gleypa í sig hráar í þriggja tíma flugi eða hraðsoðnar í sumarbústað yfir helgi. Brúðan gerir kröfur til lesandans um að hann fylgist með og textinn er það þéttofinn að það hefnir sín að hraðspóla yfir síðurnar.

Aðdáendur Yrsu geta beðið spenntir eftir harða pakkanum sínum í ár en er jafnframt bent á að þeir þurfa aðeins að hafa fyrir lausn gátunnar í þetta skiptið.

Niðurstaða: Spennandi og skemmtileg saga og svo þéttofin framvinda að stundum þarf lesandinn að hafa sig allan við.