Pétur Breki starfar sem Houdini Lead TD hjá Directive Games og rekur stórskemmtilega YouTube rás undir nafninu Birds of Play, með bróður sínum, Nökkva, þar sem þeir ræða Final Fantasy tölvuleikina. Aðspurður hvaða dag brúðkaupið fór fram segir Pétur:

„16. ágúst 2014, ég þurfti ekki einu sinni að fletta því upp, sko mig!“

Þau hjónin voru gæsuð og steggjuð sama dag af vinum sínum, bæði vissu af gæsun og steggjun hins en ekki sinni eigin.

„Þetta var tíu dögum áður ég kvæntist konunni minni, Signýju Jóhannesdóttur, þann 6. ágúst 2014, sama dag og skrúðganga Hinsegin daga átti sér stað,“ segir Pétur.

Dagur hefst á skoti og broti

„Dagurinn minn byrjaði á skoti af áfengi og svo beint í pógó-boltaleik, allt saman mjög eðlilegt,“ segir hann og hlær. Hann segir daginn þó svolítið móðukenndan sökum áfengis.

„Við vorum þarna fimm eða sex saman yfir daginn. Ég man óljóst eftir sjósundi, boltaleikjum og tölvuleikjum. Mögulega bogfimi eða Laser Tag? Að minnsta kosti fórum við á kostum í Pole Fitness tíma niðri í bæ, þar sem við kepptumst um að snúast sem hraðast og klifra sem hæst á súlunni.

Eftir sérstaklega tignarlega tilburði hjá mér þar sem ég hékk á hvolfi, þá datt ég og náði að lenda frekar illa á stóru tá. En svo mikið var um áfengið að ég tók ekki eftir því fyrr en síðar. Þetta hefur gerst rétt eftir hádegis-pitsu niðri í bæ. Dagurinn var því rétt að byrja. En lukkulega var lítið mál að deyfa sársaukann með áfengisskotum.

Það var í rauninni ekki fyrr en nokkrum dögum síðar sem ég tók almennilega eftir því að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. En ég pældi ekki mikið í því þar sem mér var ekkert sérstaklega illt í tánni. Hún greri náttúrulega skökk og ég get alltaf hugsað hlýlega til Pole Fitness þegar ég lít niður á fótinn á mér.“

Hafði brotna táin einhver áhrif á sjálfan brúðkaupsdaginn?

„Nei, svo sem ekki, verkjalyf og ástin lækna öll mein.“

Hvað kom þér mest á óvart?

„Ég bjóst sko alls ekki við því að vera steggjaður yfir höfuð og hvað þá að borða pitsu, þvílíkt hnossgæti. Einnig komst ég að því að þegar maður er við það að deyja áfengisdauða, getur maður ofkælt líkamann og komið honum í neyðarástand, þar sem hann gefur manni adrenalín innspýtingu og maður getur haldið áfram að skemmta sér. Ég mæli hins vegar ekki með því,“ segir Pétur alvarlegur í bragði. Pétur var ekki klæddur í asnalegan búning eins og hefð hefur myndast fyrir í heimi gæsana og steggjana í dag.

„Ég slapp blessunarlega alveg við það, enda lítum við vinirnir á svona daga sem daga gleði og vináttu, ekki dag þar sem manni þarf að líða illa eða skammast sín. Það sem stóð upp úr þennan dag var klárlega ástin og kærleikurinn (og tábrotið).“

Hefur þú sjálfur tekið þátt í að plana steggjun eða gæsun?

„Já, fyrir bróðir minn, hann Nökkva, sem tók líka þátt í minni. Sú steggjun var á margan hátt svipuð; mikið áfengi, fáklædd glíma í sleipiefni, Laser Tag og/eða bogfimi? Engin beinbrot samt.“

Hefðir þú viljað vera án steggjunarinnar?

„Nei, þetta eru skemmtilegar minningar til að eiga, tábrotið innifalið,“ segir Pétur að lokum.