Sam­band evrópskra sjón­varps­stöðva (EBU) hyggst til­kynna um á­kvörðun sína í máli Ís­lands og hugsan­lega refsingu vegna upp­á­tækis Hatara í stiga­gjöfinni síðast­liðið laugar­dags­kvöld eftir tvær vikur, að því er fram kemur í skrif­legu svari til Vísis.

Eins og al­þjóð veit lyftu liðs­menn Hatara upp palestínska fánann þegar at­kvæði Ís­lands voru kunn­gjörð í beinni út­sendingu á laugar­dags­kvöld. Páll Magnús­son, fyrr­verandi út­varps­stjóri er meðal þeirra sem telur lík­legt að EBU muni á­kveða að meina Ís­landi þátt­töku í Euro­vision á næsta ári vegna at­viksins.

Í svari EBU kemur fram að málið verði tekið fyrir á fundi fram­kvæmda­stjórnar keppninnar eftir tvær vikur þar sem tekin verði á­kvörðun um mögu­lega refsingu. Ekki er ljóst ná­kvæm­lega hve­nær um­ræddur fundur fer fram eða þá hvort eða hvernig Ís­landi verður refsað vegna at­viksins.

Telur Páll lík­legt að EBU muni vilja gera for­dæmi úr Ís­landi vegna at­viksins en nú­verandi út­varps­stjóri, Magnús Geir Þórðar­son, virðist ró­legri vegna málsins en for­veri sinn. Hann bendir á að eitt og annað hafi gerst undan­farna ára­tugi sem keppnin hefur verið haldin, sem hafi verið ó­væntir rétt eins og fánaflagg Hatara.

Hann segir það alveg rétt að RÚV hafi skuld­bundið sig til að fara eftir reglum keppninnar en hann sé á þessum tíma­punkti fyrst og fremst stoltur af fram­lagi Ís­lands, því sem þjóðin hafi valið.