Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) hyggst tilkynna um ákvörðun sína í máli Íslands og hugsanlega refsingu vegna uppátækis Hatara í stigagjöfinni síðastliðið laugardagskvöld eftir tvær vikur, að því er fram kemur í skriflegu svari til Vísis.
Eins og alþjóð veit lyftu liðsmenn Hatara upp palestínska fánann þegar atkvæði Íslands voru kunngjörð í beinni útsendingu á laugardagskvöld. Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri er meðal þeirra sem telur líklegt að EBU muni ákveða að meina Íslandi þátttöku í Eurovision á næsta ári vegna atviksins.
Í svari EBU kemur fram að málið verði tekið fyrir á fundi framkvæmdastjórnar keppninnar eftir tvær vikur þar sem tekin verði ákvörðun um mögulega refsingu. Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær umræddur fundur fer fram eða þá hvort eða hvernig Íslandi verður refsað vegna atviksins.
Telur Páll líklegt að EBU muni vilja gera fordæmi úr Íslandi vegna atviksins en núverandi útvarpsstjóri, Magnús Geir Þórðarson, virðist rólegri vegna málsins en forveri sinn. Hann bendir á að eitt og annað hafi gerst undanfarna áratugi sem keppnin hefur verið haldin, sem hafi verið óvæntir rétt eins og fánaflagg Hatara.
Hann segir það alveg rétt að RÚV hafi skuldbundið sig til að fara eftir reglum keppninnar en hann sé á þessum tímapunkti fyrst og fremst stoltur af framlagi Íslands, því sem þjóðin hafi valið.