Hvernig fáum við almenning til að draga úr neyslu? Hvernig stuðlum við að sjálfbærni í framleiðslu textíls? Hvernig fáum við almenning til að lengja líftíma eigin textíls? Hvernig tryggjum við betri og skilvirkari endurvinnslu svo verðmæti tapist ekki? Hvernig aukum við þátttöku almennings í endurvinnslu á textíl?

Þetta og margt fleira spennandi verður allt skoðað á Spjaraþoninu sem haldið verður dagana 28.-29. ágúst næstkomandi hjá Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24.

Vertu með í að breyta heiminum

Spjaraþonið er fyrir alla sem eru áhugasamir, hvort sem um er að ræða sérfræðinga, nemendur, hönnuði, fjárfesta, vísindamenn, kennara, félagsfræðinga, ömmur eða fólk af hvaða aldri sem er og hvaða kyni sem er.

Spennandi fyrirlesarar úr atvinnugeiranum mæta á staðinn og fjalla um stöðu vandamálsins. Þá fáum við meðal annars sjónarhorn fatahönnuðar, álit Umhverfisstofnunar sem og brakandi ferskan fyrirlestur úr nýsköpunargeiranum. Þá eru meðal annars kynntar aðferðir við hönnunarferli og þegar kemur að því að þekkja góða hugmynd sem þróa má yfir í árangursríkar lausnir sem eru bæði raunhæfar og gagnlegar.

Meðalfjöldi skipta sem hver flík er notuð á heimsvísu er 150 sinnum.

Spennandi áskoranir

Þátttakendur velja úr þeim fimm spennandi spurningum, sem nefndar voru í upphafi greinarinnar.

Verkefnin eru unnin í samstarfi við ráðgjafahópa og samstarfsaðila Spjaraþonsins. Teymin þróa hugmyndir, skila samantekt um þær og kynna svo fyrir dómnefnd að lokum. Veitt verða verðlaun fyrir bestu hugmyndina.

Saman gegn sóun

Spjaraþonið er haldið á vegum verkefnisins Saman gegn sóun, sem er almenn stefna umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir. Stefnan setur í forgang að draga úr myndun úrgangs og stuðla þannig að minni eftirspurn eftir náttúruauðlindum.

Í stefnunni er lögð áhersla á nægjusemi, betri nýtni og minni sóun, ásamt því að auka fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Textíliðnaðurinn er til dæmis einn sá umfangsmesti í heimi og honum fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda sem hefur neikvæð áhrif á bæði umhverfi og samfélag. Þessi áhrif geta margfaldast samhliða því sem við kaupum umfram þarfir.

Síðan árið 2000 hefur framleiðsla á fötum nær tvöfaldast á sama tíma og þau enda sífellt fyrr í ruslinu. Hver Íslendingur losar sig til að mynda við um 20 kg á ári.

Markmið stefnunnar eru:

  • að draga úr myndun úrgangs
  • að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
  • að bæta nýtingu auðlinda, m.a. með áherslu á græna nýsköpun
  • að draga úr hráefnisnotkun samhliða minni umhverfisáhrifum
  • að minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi

Viðeigandi ráðstafanir verða í samræmi við sóttvarnarlög og viðburðurinn haldinn rafrænt ef þurfa þykir.

Skráning fer fram á spjarathon.is Fyrir nánari upplýsingar hafið samband við ust@ust.is