Sumarliði R. Ísleifsson er höfundur bókarinnar Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Bókin er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún er tæpar 400 síður, skiptist í fjóra hluta og í henni eru um 200 myndir.
Vildi fá samanburð
„Hugmyndir annarra um Ísland og sjálfsmyndir þjóðarinnar hafa lengi verið mér hugstæðar og ekki síst samspil þeirra. Oft hef ég velt því fyrir mér hvernig viðhorf Íslendinga til sjálfra sín hafa mótast. Við þeirri spurningu eru mörg svör. Eitt þeirra er viðhorfin að utan, og hvaða áhrif þessi viðhorf hafa á það hvernig við lítum á okkur sjálf,“ segir Sumarliði. „Svo fannst mér ég ekki geta fjallað um þetta eitt og sér, heldur vildi fá samanburð við eitthvert annað land og þá var nærtækast að taka Grænland. Það er margt svipað með þessum löndum en líka ýmislegt ólíkt og það gefur tækifæri til að draga fram hvað er sérstakt við hugmyndir manna um þessi tvö lönd. Í bókinni fjalla ég um það hvernig hugmyndir um fólk og þjóðir verða til, hvers eðlis þessar hugmyndir eru, hvernig þær eru byggðar upp og hvernig þær birtast.“
Útópía Evrópu
Um efni bókarinnar segir Sumarliði: „Fyrst ræði ég um miðaldalýsingar frá því í kringum 1100 og fram um 1500. Á þessu tímabili eru löndin nánast óþekkt, örfáar en áhrifaríkar lýsingar eru til frá þessum tíma, engar frá sjónarvottum.
Næsta tímabil nær frá því um 1500 til miðrar 18. aldar. Hér eru aðallega ráðandi tvenns konar viðhorf, annars vegar um hinn göfuga villimann og hins vegar um hinn siðlausa villimann og þessi viðhorf eru heimfærð upp á löndin tvö. Fólk álítur að þetta sé eitt og sama svæðið og þar búi fólk sem lifi sams konar lífi og standi nánast utan heimsins.
Þriðja tímabilið nær frá ofanverðri 18. öld og fram um 1900; hér má segja að skilji leiðir á milli Íslands og Grænlands. Ísland varð á þessum tíma hluti Evrópu, nánast eins og safn um lífið í frum-Germaníu en Grænlendingar héldu áfram að vera fjarlægir, frumstæðir og framandi.
Á fjórða tímabilinu birtist Ísland oft sem útópía Evrópu, en Grænland birtist iðulega sem andstæða Íslands. Vitaskuld má sjá margvíslegar breytingar frá elstu lýsingum á löndunum tveimur og samtímalýsingum. En samt er margt furðu líkt við upphaf og lok tímabilsins þegar nánar er að gáð.
Hluti af ímynd þessara svæða er efasemdir um það hvernig lönd þetta eru. Í hugum fólks geta þau verið siðlaus og villimannleg en líka menningarleg og siðleg. Fólk veit að þau eru ólík þeim löndum sem það þekkir og öðruvísi, en það gerir líka að verkum að fólk hefur áhuga á þessum tveimur löndum og langar að fara þangað.“