Sumar­liði R. Ís­leifs­son er höfundur bókarinnar Í fjarska norðursins – Ís­land og Græn­land – við­horfa­saga í þúsund ár. Bókin er til­nefnd til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna. Hún er tæpar 400 síður, skiptist í fjóra hluta og í henni eru um 200 myndir.

Vildi fá saman­burð

„Hug­myndir annarra um Ís­land og sjálfs­myndir þjóðarinnar hafa lengi verið mér hug­stæðar og ekki síst sam­spil þeirra. Oft hef ég velt því fyrir mér hvernig við­horf Ís­lendinga til sjálfra sín hafa mótast. Við þeirri spurningu eru mörg svör. Eitt þeirra er við­horfin að utan, og hvaða á­hrif þessi við­horf hafa á það hvernig við lítum á okkur sjálf,“ segir Sumar­liði. „Svo fannst mér ég ekki geta fjallað um þetta eitt og sér, heldur vildi fá saman­burð við eitt­hvert annað land og þá var nær­tækast að taka Græn­land. Það er margt svipað með þessum löndum en líka ýmis­legt ó­líkt og það gefur tæki­færi til að draga fram hvað er sér­stakt við hug­myndir manna um þessi tvö lönd. Í bókinni fjalla ég um það hvernig hug­myndir um fólk og þjóðir verða til, hvers eðlis þessar hug­myndir eru, hvernig þær eru byggðar upp og hvernig þær birtast.“

Útópía Evrópu

Um efni bókarinnar segir Sumar­liði: „Fyrst ræði ég um mið­alda­lýsingar frá því í kringum 1100 og fram um 1500. Á þessu tíma­bili eru löndin nánast ó­þekkt, ör­fáar en á­hrifa­ríkar lýsingar eru til frá þessum tíma, engar frá sjónar­vottum.

Næsta tíma­bil nær frá því um 1500 til miðrar 18. aldar. Hér eru aðal­lega ráðandi tvenns konar við­horf, annars vegar um hinn göfuga villi­mann og hins vegar um hinn sið­lausa villi­mann og þessi við­horf eru heim­færð upp á löndin tvö. Fólk á­lítur að þetta sé eitt og sama svæðið og þar búi fólk sem lifi sams konar lífi og standi nánast utan heimsins.

Þriðja tíma­bilið nær frá ofan­verðri 18. öld og fram um 1900; hér má segja að skilji leiðir á milli Ís­lands og Græn­lands. Ís­land varð á þessum tíma hluti Evrópu, nánast eins og safn um lífið í frum-Germaníu en Græn­lendingar héldu á­fram að vera fjar­lægir, frum­stæðir og framandi.

Á fjórða tíma­bilinu birtist Ís­land oft sem útópía Evrópu, en Græn­land birtist iðu­lega sem and­stæða Ís­lands. Vita­skuld má sjá marg­vís­legar breytingar frá elstu lýsingum á löndunum tveimur og sam­tíma­lýsingum. En samt er margt furðu líkt við upp­haf og lok tíma­bilsins þegar nánar er að gáð.

Hluti af í­mynd þessara svæða er efa­semdir um það hvernig lönd þetta eru. Í hugum fólks geta þau verið sið­laus og villi­mann­leg en líka menningar­leg og sið­leg. Fólk veit að þau eru ólík þeim löndum sem það þekkir og öðru­vísi, en það gerir líka að verkum að fólk hefur á­huga á þessum tveimur löndum og langar að fara þangað.“