Rit­höfundurinn og tón­listar­maðurinn Örvar Smára­son er einn þriggja höfunda sem fengu Ný­ræktar­styrk 2022 frá Mið­stöð ís­lenskra bók­mennta. Hand­rit hans, Svefn­gríman, er smá­sagna­safn sem dansar á mörkum hvers­dags­legra frá­sagna og furðu­sagna.

„Þetta eru átta smá­sögur, margar af hverjum ég er búinn að vera að vinna og láta malla ansi lengi. Þetta eru allt sögur sem gerast í hvers­dags­leikanum, um fólk sem finnst það þurfa að taka á­byrgð á lífinu, en í hverri sögu er eitt­hvað utan­að­komandi sem flækist fyrir. Oftar en ekki eitt­hvað ná­lægt því að vera hryllingur,“ segir höfundurinn.

Örvar hefur á undan­förnum ára­tugum getið sér gott orð sem tón­listar­maður, en hann er stofn­með­limur hljóm­sveitanna múm og FM Belfast. Hann segir þó rit­listina alltaf hafa átt sér­stakan stað í hjarta hans.

„Ég hef alltaf skrifað mjög mikið. Síðan ég var ung­lingur þá var það svona upp­runa­lega: „Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór“ pælingin. Ég ætlaði alltaf að verða skáld eða rit­höfundur en svo datt ég ó­vart inn í tón­listina sem hefur þvælst svo­lítið fyrir mér síðustu tuttugu árin.“

Margar pælingar í gangi

Að sögn Örvars standa áður­nefnd tvö list­form, tón­listin og rit­listin, jafn ná­lægt honum og rúm­lega það.

„Mig dreymir enn um að vera bara skáld og vona að ég vakni ekki af þeim draumi alveg strax. Ég þarf samt alltaf bara að helga mig því sem kallar á mig hverju sinni og get eigin­lega ekki sloppið frá því. Akkúrat núna er það bæði,“ segir hann.

Örvar er maður margra hatta og þótt hann sé aðal­lega að vinna með smá­sagna­formið núna þykir honum ekki ó­lík­legt að hann muni fara út í eitt­hvað allt annað í skrifunum síðar meir.

„Hug­myndir á­sækja mig, þær hrúgast upp í hausnum á mér og því er full­komið að koma frá mér átta á einu bretti í svona smá­sagna­safni. Það hefur alltaf verið eins með tón­listina, ég hef eigin­lega alltaf verið með of mikið af pælingum í gangi, of mikið af hljóm­sveitum, of mikið af verk­efnum.“

Var al­gjör­lega á botninum

Skiptir það miklu máli fyrir höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref í ferlinum að fá Ný­ræktar­styrk?

„Það skiptir mig alla­vega miklu máli. Eins og allir þeir sem hafa skrifað vita, þá stundum í ferlinu er maður bara al­gjör­lega á botninum. Það er rosa­lega erfitt að finna sjálfs­traustið og orkuna stundum og þessi Ný­ræktar­styrkur kom á stað þar sem að ég var á al­gjörum botni. Þegar styrkurinn kom þá var hann eins og víta­mín­sprauta. Eins og að skvetta vatni í and­litið.“

Örvar út­skrifaðist ný­lega úr meistara­námi í rit­list og starfar nú í hluta­starfi á bóka­safni. Hann segir ýmis­legt vera á döfinni hjá sér í bæði skrifunum og tón­listinni.

„Ég er að leggja loka­hönd á sóló­plötu sem ég er búinn að vera með í vinnslu í nokkur ár. Síðan er ýmis­legt að gerast í múm-heimum, við erum á leiðinni til Ítalíu í haust að taka upp nýja plötu. Svo er ég með þó­nokkuð af skáld­skap í stíla­bókinni sem ég er að þróa á­fram.“