Nýsköpunarfyrirtækið On to Something (OTS) er alþjóðlegur rafrænn viðskiptavettvangur fyrir fagaðila þar sem afgangsefni ganga kaupum og sölum. Um er að ræða hugbúnaðarlausn sem opnar á og mótar skapandi farvegi fyrir hreina strauma afgangsefna með verðmætasköpun og sjálfbærni að leiðarljósi, segja stofnendur þess, María Kristín Jónsdóttir og Sara Jónsdóttir. „Inn á OTS skrá fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög afgangsefni sín og opna fyrir mögulega nýtingu þeirra og veita hvert öðru og frumkvöðlum, skapandi greinum, vísinda- og háskólasamfélaginu aðgang að hráefnum og upplýsingum sem hingað til hefur verið erfitt að nálgast,“ segir María Kristín. Þar myndast því mikilvægur gagnagrunnur sem getur nýst með afar fjölbreyttum hætti auk þess að kortleggja og veita yfirsýn í úrgangsmálum bætir Sara við. „Við ætlum okkur að færa þennan markað upp á yfirborðið, gera hann aðgengilegan og ekki síður aðlaðandi. OTS mun jafnframt miðla árangurssögum og verkefnum sem unnin eru innan hringrásarhagkerfisins öðrum til innblásturs og hvatningar.“

Reynsla úr skapandi geiranum

María Kristín og Sara kynntust þegar þær unnu báðar í Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. María Kristín var þá ritstjóri og listrænn stjórnandi HA, fagtímarits um hönnun og arkitektúr, og Sara stjórnandi HönnunarMars og verkefnastjóri Hönnunarverðlauna Íslands. „Við höfum báðar mikla reynslu af fjölbreyttum störfum innan skapandi geirans þar sem nýsköpun er einn helsti drifkrafturinn. Við höfum hrint af stað mýmörgum nýjum verkefnum og komið snemma að öðrum og keyrt þau áfram.“

Báðar hafa þær hannað hluti, rými og konsept, stofnað fyrirtæki, komið að uppbyggingu nýrra vörumerkja, komið ólíkum hátíðum og sýningum á koppinn og þróað aðrar. „Það má því segja að við höfum sannarlega komið nálægt nýsköpun áður þótt farvegurinn hafi verið annar en nú.“

Fengu áskorun

Hugmyndin að On to Something kviknaði eftir að skorað hafði verið á þær að þróa hugmynd og sækja um í Hringiðu, viðskiptahraðli sem snýr að hringrásarhagkerfinu. „Saman fórum við því að spá og spekúlera, hittum fullt af fólki og tókum púlsinn á ýmsum vinklum sem okkur þóttu áhugaverðir. Við höfum báðar í kjarnanum okkar þörf fyrir að vinna að málefnum og verkefnum sem skipta máli og hafa jákvæð og umbreytandi áhrif í stóra samhenginu. Hér var tækifæri til að skoða hæfileika okkar og reynslu og sjá hvernig þeir nýttust í öðru og stærra samhengi.“

Hugmyndin þroskaðist hratt

Þær voru sammála um að þróa hugmynd sem kveikti eldmóð í þeim báðum og innihéldi þau element sem hafa gefið þeim drifkraft í fyrri verkefnum, svo sem skapandi hugsun, hönnun og framsetning, umhverfisvernd, að tengja saman ólíka hópa og miðla framúrskarandi verkefnum. „Við vorum stöðugt að stilla af áttavitann og rétta okkur af í þróuninni. Hugmyndin varð að dansa við okkar element og hafa möguleika á að verða raunverulega til gagns. Útkoman var frumhugmynd að On to Something sem tók svo nokkra kollhnísa í samtölum við mentora og aðra stuðningsaðila innan hraðalsins og utan. Það var eflandi ferli sem við hefðum ekki viljað missa af enda þroskaðist hugmyndin hratt og við stofnuðum fyrirtækið innan mánaðar frá lokadegi Hringiðu.“

Mikil gróska í nýsköpun

Þótt þær komi báðar úr hönnunargeiranum og séu í raun að stíga inn í nýtt umhverfi með fyrirtæki sínu, segja þær þó að margt sé svipað og snertifletirnir séu margir. „Það mætti segja að hönnun og nýsköpun gangi í raun út á það sama, að skynja þarfir, hugsa í lausnum og skapa eitthvað nýtt eða bæta það sem fyrir er en það tekur vissulega alltaf smá tíma að átta sig á því hvernig hlutirnir virka í nýju samhengi. Það er mikil gróska í nýsköpun á Íslandi og víða er verið að þróa góðar hugmyndir og mikilvæg verkefni. Það eru margir og mismunandi hraðlar í boði sem styðja við fyrstu skrefin í slíkum verkefnum og er það vel. Það er óhætt að segja að hingað til hefur þetta verið virkilega áhugavert og gefandi ferli fyrir okkur þar sem fólk er almennt mjög hvetjandi og tilbúið að gefa af tíma sínum, reynslu og þekkingu. Fyrir það erum við afar þakklátar.“