Arnbjörg Kristín er búsett á Akureyri þar sem hún kennir jóga og nemur iðjuþjálfun. Hún segir lífið ósjálfrátt hafa farið í hægari takt eftir kórónuveirufaraldurinn og ætlar að reyna að halda því þannig áfram. Hún kennir jóga heima hjá sér í litlum hópum og einnig úti í náttúrunni. „Mér finnst gaman að vera með rólega og heimilislega stemningu þegar ég er með jógatíma,“ segir Arnbjörg brosandi.

Að hennar sögn fer áhugi á jóga og hugleiðslu sífellt vaxandi. „Eftir Covid er líka gott að hægja meðvitað á og hugsa meira um heilsuna og hvernig hægt er að byggja sig upp eftir þetta erfiða tímabil.“

Hugleiðsla í hvalaskoðun

Næstu daga verður Arnbjörg með mismunandi viðburði víða um land og úti á sjó líka. „Á sunnudag var ég að leiða hugleiðslu og gong-slökun í hvalaskoðunarferð Norðursiglingar á Ópal, hljóðlátri seglskútu í faðmi einstakrar náttúru og dýralífs úti á miðjum Skjálfandaflóa. Huld Hafliðadóttir hjá Spirit North var með mér og báðar spiluðum við á gong. Þar sem skútan er afar hljóðlát truflar hún hvalina lítið sem ekkert svo vonandi láta þeir sjá sig,“ segir Arnbjörg, en hún á von á að þetta verði mikil upplifun fyrir þátttakendur.

Gong er ásláttarhljóðfæri með sögu aftur til bronsaldar og hefur verið notað af fólki meðal annars í hugleiðslutilgangi í árhundruð. Í dag auðvelda hljómarnir hlustendum að hægja á huganum og upplifa núvitund meðan á og í kjölfar hlustunar, að sögn Arnbjargar.

Í dag ætlar hún svo að bregða sér til Siglufjarðar þar sem hún verður með gong og frumhljóðshugleiðingu í fjörunni, ef veður leyfir. „Þetta er hluti af Listahátíðinni Frjó í Alþýðuhúsinu. Þar verður líka á dagskrá ljóðlist og fleira áhugavert í boði,“ segir Arnbjörg.

Arnbjörg ætlar að leiða hressandi jógagöngu um Viðey á morgun. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hressandi jóga í Viðey

Á morgun mun Arnbjörg leiða hressandi jógagöngu um Viðey. Gerðar verða jógaæfingar undir beru lofti og endað á endurnærandi slökun. „Farið verður með ferjunni frá Skarfabakka klukkan 19.15. Ætlunin er að ganga um Viðey og tengjast eyjunni vel. Þetta er í raun jarðtengjandi og náttúruvænn viðburður. Við byrjum á að gera öndunaræfingar og liðkandi og styrkjandi jógaæfingar. Ég mun laga æfingarnar að veðrinu, en ef grasið verður þurrt gerum við æfingarnar að hluta sitjandi, annars allar standandi,“ segir Arnbjörg en farið verður hvernig sem viðrar og fólk beðið um að klæða sig eftir veðri.

„Ég enda síðan gönguna við friðarsúluna þar sem ég ætla að spila á gong á meðan fólk slakar á,“ segir Arnbjörg.

Þetta er í tíunda sinn sem hún leiðir jógagöngu um Viðey. „Það er skemmtilegt að sigla burt frá borginni og út í eyjuna, þótt stutt sé, og fá nauðsynlega pásu frá erli borgarlífsins. Það er gott tækifæri til að kúpla sig út, endurnæra sig og fara svo endurnærð/ur til baka. Í Viðey er svo sérstök orka, mikil náttúrufegurð og áhugaverð saga. Það er mér mikill heiður að fá að leiða jóga um eyjuna. Nokkrir sem hafa komið í jógagöngur með mér undanfarin ár eru að koma í fyrsta sinn til eyjarinnar og hafa ekki áttað sig á hversu nálæg og aðgengileg þessi náttúruperla er,“ segir Arnbjörg.

Finnum ræturnar

Arnbjörg ætlar að enda vikuna á að opna innsetningu sem kallast Molda í hlöðu í Garðhúsum á Stokkseyri. „Ég var með þessa innsetningu fyrr í sumar á Djúpavogi í Múlaþingi. Molda fjallar um að næra ræturnar og varpar ljósi á jarðtenginguna okkar og hvar við stöndum í okkar jarðneska lífi og að við getum eignast rætur hvar sem við endum á að búa. Eitt af því sem Covid hefur kennt okkur er að læra að vera heima hjá okkur og var því gaman að nota tímann til að tálga og forma hugmyndina heima. Ég nota endurunnið efni úr náttúrunni, rætur trjáa sem féllu í vetur og einnig rekavið. Innsetningin mun standa frá miðjum júlí og inn í ágústmánuð,“ segir Arnbjörg.

Hún ætlar síðan að halda áfram að kenna jóga næstu mánuðina. „Ég mun leiða HAF jógakennaranám á Heilsustofnun í Hveragerði í vetur. Fólk verður hjá mér í sjö helgar og ég kenni jógaæfingar í vatni og mildar og mjúkar æfingar í sal. Áherslan verður á milda uppbyggingu og endurnæringu í þessu prógrammi, auk þess sem ég mun fjalla um jógaheimspeki,“ segir Arnbjörg að lokum. ■