Ástralski leikarinn Hugh Jackman hefur neitað orðrómi þess efnis að hann hafi notað stera til að byggja sig upp fyrir hlutverk Wolverine í X-Men myndunum.
Jackman, sem er 54 ára, virðist ekki hafa haft mikið fyrir því að bæta á sig vöðvum fyrir hlutverk sín í gegnum tíðina en sjálfur kveðst hann ávallt hafa notað náttúrulegar aðferðir til þess.
Jackman ræddi þetta og fleira til í viðtalsþættinum Who‘s Talking to Chris Wallace á CNN og þar var hann hann spurður út í orðróm um steraneyslu.
Leikarinn sagðist hafa heyrt talað um aukaverkanir stera og þær séu ekki beint eftirsóknarverðar. Því hafi hann ákveðið að nota þá ekki heldur borða frekar prótínríkan mat, kjúkling til dæmis, og stunda ræktina af miklu kappi. Sagði hann að það tæki hann um það bil sex mánuði að undirbúa sig líkamlega fyrir hlutverk Wolverine.
Jackman hefur leikið í alls níu X-Men myndum og hann er væntanlegur á hvíta tjaldið í tíunda sinn í Deadpool 3 sem verður væntanlega frumsýnd á næsta ári.