Hjartaknúsarinn og stórleikarinn Hugh Grant mun ganga að eiga Önnu Eberstein, unnustu sína til fimm ára, í sumar. BBC greinir frá en þetta er í fyrsta skipti sem hinn 57 ára Grant giftir sig.

Saman eiga hann og Eberstein þrjú börn. Utan sambands þeirra á hann síðan tvö börn með fyrrverandi kærustu sinni Tinglan Hong. Þá átti hann í sambandi með fyrirsætunni og leikkonunni Elizabeth Hurley frá 1987 til 2000.

Grant þarf vart að kynna fyrir mörgum en hann hefur gert garðinn frægan í kvikmyndum á borð við Notting Hill, Four Weddings and Funeral, About a Boy, Music and Lyrics, Love Actually auk fjölda annarra kvikmynda.