Viðtal

Rannsakar hugarheim raðmorðingja

Dr. Ann Wolbert Burgess er á leiðinni til landsins. Hún er heimsþekkt fyrir rannsóknir sínar á raðmorðingjum, nauðgurum og þolendum. Rannsóknir hennar og tveggja alríkisfulltrúa, Johns Douglas og Roberts Ressler á hugarheimi raðmorðingja eru kveikjan að vinsælli Netflix-þáttaröð, Mindhunter.

Störf Ann og alríkisfulltrúanna Johns Douglas og Roberts Ressler á áttunda og níunda áratugnum og rannsóknir þeirra á hugarheimi raðmorðingja eru kveikjan að vinsælli Netflix-þáttaröð, Mindhunter.

Þetta var karlaheimur,“ segir dr. Ann Wolbert Burgess um þann tíma sem hún liðsinnti atferlisvísindadeild Alríkislögreglunnar, FBI, við rannsóknir á raðmorðingjum og nauðgurum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

„Það voru engar konur sem kenndu í skóla FBI í Quantico á þessum tíma en það voru fáeinar konur sem unnu sem fulltrúar í nokkrum borgum Bandaríkjanna. En einu konurnar fyrir utan mig á þessum tíma í Quantico voru ritarar og almennt starfsfólk,“ segir Ann.

Störf Ann og alríkisfulltrúanna Johns Douglas og Roberts Ressler á áttunda og níunda áratugnum og rannsóknir þeirra á hugarheimi raðmorðingja eru kveikjan að vinsælli Netflix-þáttaröð, Mindhunter. Og aðalpersónur þáttanna eru byggðar á þríeykinu.

Ann er væntanleg til landsins í boði MPM (Master of Project Management) við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og segir frá þessu áhugaverða rannsóknarefni næstkomandi miðvikudag. Þá heldur hún einnig annan fyrirlestur fyrir íslenskt fagfólk um það hvernig lögreglufulltrúar FBI leita gagna á vettvangi sem varpa ljósi á gerandann með því að skoða vettvang morðs.

„Á kvöldin þegar við áttum lausa stund frá vinnu hlustaði ég á fulltrúana tala um viðtölin sem þeir voru að taka við dæmda morðingja, segir Ann.

Þríeykið sem bylti morð­rannsóknum

Ann starfar nú sem prófessor í geðhjúkrunarfræðum við Boston College School of Nursing og er heimsþekkt fyrir rannsóknir sínar bæði á gerendum, og ekki síður þolendum, ofbeldisverka. Rannsókn Ann á 36 morðingjum og brotaþolum benti til mynstra og þátta sem virtust leiða til afbrotsins.

Ann, Robert og John gerðu rannsókninni og störfum sínum í FBI skil í bókinni Sexual Homicide: Patterns and Motive sem kom út árið 1988. Þá gáfu þau út bókina: Crime Classification Manual: A Standard System for Investigating and Classifying Violent Crimes nokkrum árum seinna, eða 1992.

„Rannsóknin tók til 36 raðmorðingja sem áttu það sameiginlegt að hafa fróun af morðunum og 112 þolendur þeirra. Í rannsókninni voru borin kennsl á mynstur og hvatir morðingjanna,“ segir Ann og segir frá samstarfsfélögum sínum, John og Robert.

John er sagður hafa bylt morðrannsóknum með því að ræða við og rannsaka raðmorðingja. Robert er eignað hugtakið „serial killer“, eða raðmorðingi.

Robert þróaði einnig fyrsta tölvugagnagrunn Bandaríkjanna sem innihélt skrá yfir óleysta glæpi. Gagnagrunnurinn reyndist mikil stoð í rannsóknum á raðmorðingjum sem frömdu morð í mismunandi ríkjum Bandaríkjanna.

„Bob hannaði verkefnið í fyrstu og kom með hugmyndina að því. Hann var nýr kennari í skóla FBI og hugsaði með sér að ef hann ætlaði að kenna afbrotafræði þá ætti hann að tala við afbrotamenn. Svo hann fór í fangelsin og hóf að taka viðtöl við fanga. John slóst í för með honum þegar hann hóf störf í skólanum og þeir tóku viðtölin saman í fangelsum.

Mér var svo boðið til Quantico, höfuðstöðva FBI skólans, til þess að þjálfa fulltrúa í því að tala við þolendur nauðgana,“ segir Ann um upphaf samstarfsins.

FBI streittist á móti í fyrstu en um leið og það varð ljóst hversu nytsamt verkefnið var í rannsókn mála og því að varpa ljósi á morðingjann þá studdi stjórn FBI vel við rannsóknina

Mættu andstöðu í upphafi

„Á kvöldin þegar við áttum lausa stund frá vinnu hlustaði ég á fulltrúana tala um viðtölin sem þeir voru að taka við dæmda morðingja. Ég sagði þeim að viðtölin fælu í sér mikilvægar uppgötvanir og að þeir ættu að setja þau upp sem rannsóknarverkefni, svo þeir hefðu upplýsingar og gögn til að deila með öðrum sem rannsaka morð. Á þriggja ára tímabil fór ég stundum til Quantico og stundum komu þeir til mín til Boston til að vinna að þessu verkefni,“ segir Ann frá.

Voru þetta spennandi tímar? Og mættuð þið andstöðu frá FBI í fyrstu?

„Þetta voru mjög spennandi tímar vegna þess að þetta voru nýjar upplýsingar og enginn hafði nokkru sinni áður rannsakað hóp raðmorðingja. Fulltrúarnir söfnuðu upplýsingum með 57 blaðsíðna spurningalista sem gerðu okkur kleift að flokka morðin í skipulögð og óskipulögð. Og þetta var upphafið að flokkunarferlinu fyrir óleyst morð.

FBI streittist á móti í fyrstu en um leið og það varð ljóst hversu nytsamt verkefnið var í rannsókn mála og því að varpa ljósi á morðingjann þá studdi stjórn FBI vel við rannsóknina. Við fengum styrk frá National Institute of Justice árið 1981. Eins og kemur reyndar fram í einum þátta Mindhunter,“ rifjar Ann upp.

Vanræksla og ofbeldi í æsku

Hver eru algeng persónueinkenni raðmorðingja og raðnauðgara? Hvað einkennir hugarheim þeirra?

„Karlarnir voru nær allir hvítir, gáfaðar, oft elstir í systkinaröðinni og oft frá millistéttarheimilum en áttu erfitt á unglingsárum. Lykilatriði hjá öllum þessara karla var þróun á fantasíum þeirra um nauðganir og morð. Margir karlanna gátu rakið fantasíur sínar til barnæsku.

Hvað mótar þá? Þeir voru líka sjálfir þolendur ofbeldis og oft vanræktir af feðrum sínum á mikilvægum tíma í lífi ungra drengja.“

„Mál Eds Kemper er mér minnisstæðast. Vegna þess að hann var svo vel máli farinn, segir Ann.

Vel að máli farnir

Þegar Ann er beðin um að rifja upp minnisstæðustu málin segir hún tvo raðmorðingja hafa vakið sérstaka athygli sína. Báðir hafi þeir verið sérstaklega vel máli farnir. Þetta voru raðmorðingjarnir Ed Kemper og Montie Rissell.

„Mál Eds Kemper er mér minnisstæðast. Vegna þess að hann var svo vel máli farinn og hann hafði ekki eingöngu myrt fjölskyldumeðlimi heldur líka skólafélaga sína. Viðtöl við hann gáfu mikla innsýn í fantasíur hans frá unga aldri um nauðganir og morð. Hann komst einnig undan réttvísinni í langan tíma. Hann myrti og sundurlimaði fórnarlömb sín.

Annar mjög forvitnilegur raðmorðingi er Montie Rissell, sem nauðgaði fórnarlömbum sínum og myrti þau. Fórnarlömbin urðu tólf á fjögurra ára tímabili. Hann nauðgaði sjö þeirra, fimm nauðgaði hann og myrti. Hans hugarheimur var mjög ólíkur Eds Kemper en þeir áttu það sameiginlegt að vera afar vel máli farnir. Hann gat lýst smáatriðum glæpum sinna,“ segir Ann frá.

Oft kölluð til sem sérfræðingur í rétti

Ann vinnur enn að rannsóknum á þolendum kynferðisbrota en að auki vinnur hún að verkefni sem felur í sér endurhæfingu slasaðra hermanna. Hún er oft kölluð fyrir dómstóla sem sérfræðingur í nauðgunarmálum.

„Ég starfa sem ráðgjafi jafnframt því að ég met ástand þolenda fyrir rétti og ber vitni um áhrif nauðgunarinnar á líf þeirra. Ég er núna að vinna að rannsókn á eldri þolendum sem eru með minnisglöp í viðleitni til þess að greina hegðun sem þeir þróa með sér þegar þeir geta ekki greint frá því að þeim hafi verið nauðgað. Þetta á sér stað á elliheimilum þar sem gerandinn er annaðhvort annar íbúi á heimilinu eða starfsmaður í aðhlynningu,“ segir Ann.

„Ég rek einnig meðferðarstöð fyrir slasaða hermenn í Boston College þar sem þeir stunda æfingar og sækja fræðslu tvisvar í viku. Markmiðið er að bæta líkamlegt ástand þeirra og styrk og minnka einkenni áfallastreituröskunar.“

„Bara Hollywood“

Hvað fannst þér um þættina, Mindhunter? Voru þeir í samræmi við raunveruleikann? „Bakgrunnur þriggja aðalpersóna þáttanna (Holden Ford, Bill Tench og Wendy Carr) er ekki sambærilegur að nokkru leyti við minn eða Douglas og Resslers. Þetta er bara Hollywood,“ segir Ann góðlátlega. Málunum sem þau fengust við hafi þó verið fylgt nokkuð nákvæmlega eftir.

„Nokkrum atriðum sem gerðust aldrei var þó skeytt við. Til dæmis þurftu fulltrúar að skilja vopnin sín eftir í læstri hirslu áður en þeir fóru inn í viðtalsherbergin en ekki skilríki sín. Fangarnir vildu vanalega skoða skilríki fulltrúa vandlega.

Annað dæmi var þegar Holden kom með háhælaða kvenskó í viðtal við raðmorðingjann Brudos. Það gerðist aldrei. Fulltrúarnir tóku heldur ekki upp viðtölin á segulband. Það hefði hindrað hversu miklum upplýsingum fangarnir vildu deila með fulltrúum,“ segir Ann frá.

Ætlar að greina Axlar-Björn

Á fyrirlestrinum í Háskólanum í Reykjavík í næstu viku ætlar Ann, ef tími gefst til, meðal annars að greina eina þekkta íslenska raðmorðingjann, Björn Pétursson, Axlar-Björn, kenndan við bæinn Öxl í grennd við Búðir á Snæfellsnesi. Björn myrti átján manns áður en upp um hann komst, þegar annað tveggja systkina slapp lifandi frá honum og sagði til hans.

„Já, ég ætla að setja upp greiningu á honum og ræða mál hans. Hann virtist velja fórnarlömb sín eftir hentugleika, sundurlimaði þau sín og dysjaði. Það virðist vera að eiginkona hans hafi aðstoðað hann,“ segir Ann frá en fyrirlestrar hennar verða í Háskólanum í Reykjavík þann 18.apríl nk. 

Ann telur að það hefði verið hægt að stöðva Ed með meiri aðgát og rannsóknarvinnu. Mynd/Bostoncollege.

Aldrei hrædd en gætti að öryggi sínu

Ann segist aldrei hafa orðið hrædd við viðföng sín. En hún hafi oft fyllst algjörum hryllingi við að lesa yfir viðtöl fulltrúanna og lýsingar á hvað þeir gerðu fórnarlömbum sínum. „Það gerði mig enn staðráðnari í því að leiðbeina og fræða fagaðila í rannsóknum og geðhjúkrun um atferli raðmorðingja. Ég gætti betur öryggis míns eftir að ég lærði hvernig þessir menn nálguðust fórnarlömb sín,“ segir Ann.

„Það þyrmdi aldrei yfir mig í vinnu vegna þess að alríkisfulltrúarnir sem ég vann með héldu verndar­hendi yfir mér.“

Heldur þú að það hefði verið hægt að stöðva einhverja þessara manna? „Já, ég held það hefði verið hægt að stöðva marga þeirra. Foreldrar þeirra vissu svo sannarlega af skrýtinni hegðun og hugðarefnum sem hófst hjá mörgum þeirra í æsku. Við þurfum að hjálpa foreldrum að fá ráðgjöf mjög snemma fyrir trufluð börn og unglinga,“ segir Ann.

Hefði verið hægt að stöðva Ed

Hún rifjar aftur upp málefni raðmorðingjans Eds Kemper. „Hann sagði í einu viðtalanna að það hefði ekki átt að sleppa honum úr fangelsi eftir að hann myrti afa sinn og ömmu. Hann hætti aldrei að hugsa um morð. Hann lýsti einnig einu skipti þegar lögreglan hefði átt að handsama hann. Lögreglan hafði þá komið á heimili hans til að taka af honum skotvopn vegna nálgunarbanns sem hann sætti. En þeir gerðu mistök og leituðu ekki í bílnum hans. Í skotti bílsins faldi hann byssu og þar voru einnig ummerki um tvö síðustu morð hans. Hann sagði að ef lögreglan hefði leitað betur þá hefði hann ekki getað myrt móður sína og vin hennar. Eftir að hann myrti síðustu fórnarlömb sín hringdi hann í lögregluna og gaf sig fram til að binda enda á morðin.“

Kynferðisglæpir í Banda­ríkjunum

Hvað hefur breyst síðan þú hófst rannsóknir þínar á líðan þolenda? „Upphaflega rannsakaði ég þolendur nauðgana. Það gerði ég með samstarfsfélaga mínum, henni Lyndu Holmstrom. Við tókum viðtöl við 146 manns, frá þriggja ára til 73 ára á eins árs tímabili. Við lýstum einkennum sem þolendur þróuðu með sér,“ segir Ann frá en hugtakið sem hún og Lynda notuðu er kallað „Rape Trauma Syndrome“ (RTS) og nær yfir ýmis einkenni streituröskunar, ótta og skömmustutilfinningar sem þolendur upplifa í kjölfar nauðgunar.

„Áfallastreita eftir nauðgun hefur verið rannsökuð mikið síðan þá. Og margt hefur áunnist í að afsanna alls kyns mýtur um nauðgun í tengslum við meðferðarrúrræði. En nauðganir og kynferðisbrot eru áfram meiriháttar vandamál í Bandaríkjunum,“ segir Ann og segir því miður enn langt í land.

John Wayne Gacy-þekktur sem „Killer Clown“ eða „morðóði trúðurinn.“

Önnur þáttaröð væntanleg

Netflix staðfesti í nóvember að önnur þáttaröð af Mindhunter væri á leiðinni. Ekki hefur hins vegar verið tilkynnt um hvenær þáttaröðin fer í loftið. Jonathan Groff, sem leikur aðalpersónuna, Holden Ford, hefur áður sagt að tökur hefjist á næstunni. Líklegt þykir því að næsta þáttaröð fari í loftið í lok þessa árs. Lítið hefur verið gefið upp um viðfangsefni þáttaraðarinnar annað en það að fjallað verður um hin svokölluðu Atlanta-barnamorð. Um er að ræða morð að minnsta kosti 28 barna, unglinga og fullorðinna sem hinn ungi Wayne Williams framdi á árunum 1979 til 1981. John E. Douglas, sem Ford er byggður á, vakti fyrst áhuga almennings í Bandaríkjunum þegar rannsókn á morðunum stóð sem hæst og tjáði sig opinberlega um Williams eftir handtöku hans.

BTK-morðinginn líklega á skjáinn

Þá þykir afar líklegt að áfram verði fjallað um Dennis Rader, sem sást ítrekað skarta þykku yfirvaraskeggi sínu í fyrstu þáttaröðinni. Rader myrti tíu á árunum 1974 til 1991 og var kallaður BTK-morðinginn. Sú skammstöfun stóð fyrir bind, torture, kill, eða fjötra, pynta, drepa. Aðrir fjöldamorðingjar sem voru virkir og áberandi á þeim tíma sem fyrsta sería Mind­hunter gerist, síðla á áttunda áratugnum, voru til að mynda Carlton Gary og David Carpenter. Gary myrti að minnsta kosti 7 árin 1977 og 1978. Carpenter myrti einnig að minnsta kosti sjö á árunum 1979 til 1981. Báðir komu þeir fyrir í bók Douglas sem þættirnir byggjast á.

Þá þykir afar líklegt að áfram verði fjallað um Dennis Rader, sem sást ítrekað skarta þykku yfirvaraskeggi sínu í fyrstu þáttaröðinni.

Talað við fleiri morðingja

Þá er líklegt að áfram verði sýnt frá viðtölum Fords og samstarfsmanna við þekkta morðingja. Á meðal þeirra sem Douglas ræddi við í gegnum tíðina voru meðal annars John Wayne Gacy, Herbert Mullin, Ted Bundy og Ed Gein. Gacy, þekktur sem „Killer Clown“, eða „morðóði trúðurinn“, var sakfelldur árið 1980 fyrir að nauðga drengjum undir lögaldri og fyrir 33 morð. Mullin var virkur á sama tíma og Ed Kemper, þekktur úr fyrstu þáttaröðinni, og á sama svæði. Hann myrti þrettán á áttunda áratugnum og sagðist hafa gert það til að fyrirbyggja jarðskjálfta.

… og Ted

Ted Bundy er trúlega afkastamesti og hrottalegasti morðinginn á þessum stutta lista. Hann játaði á sig 36 morð á áttunda áratugnum en er talinn hafa jafnvel drepið fleiri en hundrað. Hann var jafnframt nauðgari og náriðill. Ed Gein var sakfelldur fyrir eitt morð árið 1957, játaði reyndar á sig annað eftir sakfellingu, en var þekktastur fyrir þráhyggju sína fyrir dáinni móður sinni, grafarrán og að gera fatnað, lampaskerma og skálar úr líkamsleifum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Viðtal

„Mér var hafnað frá fyrsta degi“

Viðtal

Allir fá sama sjóvið

Viðtal

Lét börnin skila skattaskýrslu

Auglýsing

Nýjast

Partýbollur sem bregðast ekki

Orkudrykkir eru ekki fyrir börn

Arnold bauð Fjallinu í kvöldmat og kósí

Leikvöllur fyrir alla fjölskylduna

Heillandi vetrarparadís í norðri

Gilli­an Ander­son í hlut­verk Thatcher í The Crown

Auglýsing