Jákvæð sálfræði er fræðigrein sem byggir á rannsóknum á því sem einkennir fólk sem er hamingjusamt og líður vel. 

Með því að finna út hvað það er, nákvæmlega, sem einkennir hamingjuna er sannarlega líklegra að við getum nýtt okkur galdurinn og bætt okkar eigin hamingju, líðan og lífsgæði. Eitt verkfærið í verkfærakistu jákvæðu sálfræðinnar er fögnuður. Við Íslendingar kunnum svo sannarlega að fagna þegar íþróttamönnum okkar gengur vel á erlendri grund til dæmis í handbolta eða fótbolta. Við höfum meira að segja náð heimsfræð í fagnaðarlátum með hú! – inu okkar svo okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að nýta fögnuð til að auka hamingju í hversdagslífinu.  

Sonja Lyubomirsky prófessor við Kaliforníuháskóla er þekktur fræðimaður á sviði jákvæðrar sálfræði. Hún hefur sett upp verkfærakistu jákvæðrar sálfræði fyrir almenning sem inniheldur 12 aðferðir sem hægt er að tileinka sér og ástunda til að bæta líðan og auka hamingju. Tekið skal fram að ekki er við því að búast hér frekar en með skrúflyklasett að allt passi öllum en sannarlega er hér um að ræða aðferðir sem rannsóknir sýna að gagnast fólki. Eitt þessara verkfæra er fögnuður, savor life´s joy. Að virkilega ákveða að taka eftir, njóta og gleðjast yfir því jákvæða, góða, fagra og gleðilega sem lífið hefur að bjóða, markvisst og meðvitað á margvíslega hátt. Sem sagt, ekki bara fagna þegar íslenski markmaðurinn, ver eða línumaðurinn skorar heldur líka þegar þú skorar með því að elda miklu betri fiskrétt en þú bjóst við, hú!

Jákvæða sálfræðin sýnir að þeir sem ástunda fögnuð meðvitað og markvisst í daglegu lífi auka líkur sínar á hamingju og gleði. 

Ef þú vilt bæta líf þitt með því að stunda fögnuð, rétt eins og þú gerir það ef til vill með því að stunda sund, ræktina eða gönguferðir, þarftu að gera það reglulega og af alvöru, alveg eins og hreyfinguna, annað virkar ekki. En engar áhyggur, það er virkilega skemmtilegt að stunda fögnuð og þeir sem gera það af snilld gera það oft og á fjölbreyttan hátt og auka virkilega gleði sína og hamingju.

Hvernig stundum við fögnuð í daglegu lífi svo gagn sé að?


Fagnaðu sjálfur bara svona hversdags

Tölum saman á vellinum, fögnum saman.

Fögnum því sem gekk vel og var gaman

Tökum upplifunina alla leið

Fögnuður getur líka beinst að von og tilhlökkun

Fögnum saman í fjölskyldunni af líf og sál

Stöldrum við eitt andartak í tímans hafi og fögnum

Tökum eftir mörkunum í hversdeginum okkar, ekki bara á handboltavellinum, og fögnum, virkilega! Óskum okkur sjálfum til hamingju, hrósum okkur, klöppum, brosum, hlæjum, tökum dansspor. Fögnum, með sjálfum okkur þegar við skorum, með vel unnu verki eða með því að elda ótrúlega góða súpu. Frábært, bara alveg magnað!

Það gildir á leikvelli lífsins eins og handboltans að tala saman, deila tilfinningum og gleði með öðrum. Hafa orð á því sem vel gengur og virkilega gera í því að fagna því, saman. Ekki bara halda áfram í næsta verkefni orðalaust, þá verður allt svo grátt og hversdags. Gefum fimmu, hrósum okkur öllum, hú!

Við gefum fögnuði meira vægi með því að kalla fram jákvæðar minningar og upplifanir aftur á ný. Því er snjallt að mynda og skrifa niður góðar stundir og endurupplifa og fagna aftur síðar. Þannig nýtist sami atburðurinn eða upplifunin jafnvel mörgum sinnum. Í nútímanum nota margir ljósmyndir, dagbækur eða Facebook til að varðveita, miðla og fagna minningum og ná þannig að hugsa oftar um gleðileg augnablik, bara dásamlegt.

Nýtum skilningarvitin til að taka eftir því sem er heillandi, ekki vera dofin í grámanum. Taktu eftir töfrandi tónum í útvarpinu í bílnum eða listaverki sem þú rekst á í einhverri stofunun fyrir tilviljun og fagnaðu! Virkilega taktu eftir nærumhverfinu og fagnaðu því. Dúðaðu þig í hlý föt á köldu vetrarkvöldi farðu út og fagnaðu stjörnubjörtum himni og norðurljósadýrð sem stundum er bæði nærtækt og alveg ókeypis. Stækka það upp, taka upplifunina alla leið, gerðu í því að virkilega skynja töfrana og fagna inn að beini.

Við fögnum því að landsliðið okkar komist upp úr riðlinum og í næstu keppni. Því þá ekki að fagna því þegar við ljúkum einhverjum áfanga í deginum þó það sé bara áfangi í átt að næsta leik.Virkilega fagna, ekki bara segja, jæja gott að þetta er búið.

Tölum um það sem gengur vel og er gott og gaman, fögnum brosi barnsins, áföngum unglingsins og smáu skrefunum í farsæld daganna. Því að eiga hvort annað að einmitt núna.

Fögnum; gulu rósunum í fötunni í Hagkaup, tign fjallanna, mikilfengleika brimsins, mýkt heiðanna og lifandi flæðis fljótsins milli frosinna bakka. Fögnum veðrabrigðum, árstíðum og töfrum myrkurs og birtu. Fögnum seiðandi mjúkri rödd söngkonunnar sem syngur okkur ljóð og lög af gömlum geisladiski í stofunni heima. Fögnum samverustund með samferðamönnum á lífsins vegi.

Einsetjum okkur að taka eftir, og velta okkur upp úr því sem lyftir og gleður. Því einfalda og hversdagslega sem er jákvætt og gott. Þannig nýtum við verkfæri jákvæðrar sálfræði markvisst og meðvitað til að ýta undir eigin gleði, hamingju og vellíðan. Látum fögnuð okkar í ljós, höfum orð á honum, segjum frá því sem okkur finnst hrífandi, stórfenglegt, fallegt, gleðilegt og magnað - það bætir lífsgæði okkar og annarra, hú!