Þórður Helgi Þórðarson er kannski best þekktur sem útvarpsmaðurinn Doddi litli en hefur líka gefið út tónlist undir nafninu Love Guru. Næsta föstudag, þann 16. apríl, gefur hann svo út sína fyrstu og síðustu sólóplötu undir eigin nafni. Platan heitir Last og inniheldur 12 lög sem eru undir sterkum áhrifum frá synthapoppi níunda áratugarins.

Doddi segir að það sé mikill munur á nálguninni að tónlist Love Guru og sólóefninu í hans eigin nafni.

„Love Guru er anti-ego. Hann fæddist sem grín og er allt sem ég þoli ekki í fari karlmanns og ég fyllti plötuna sem kom út 2004 af tónlist sem ég þoldi ekki,“ segir hann. „Fyrsta lagið, Ástarblossi, var bara gott flipp-lag í útvarpsþættinum Ding Dong en það sló í gegn svo ég hélt áfram að gera tónlist sem mér fannst leiðinleg. Með tímanum hef ég svo reyndar smám saman sætt mig við tónlistina.

Fyrir tveimur árum ætlaði ég að hætta með gúrúinn og gera eina lokaplötu og á seinni helmingi hennar leyfði ég mér að fara í mínar áttir með tónlistina,“ segir Doddi. „Þar gerði ég lag með Cell7 og Steina úr Quarashi við takt frá Helga úr Úlfi Úlfi, D&B-lag með Adda ofar og lag við takt frá Bigga Veiru úr GusGus. Ég fékk svo Unu Stef til að syngja með og til að toppa allt fékk ég rithöfundinn Eirík Guðmundsson til að flytja ljóð á íslensku í miðju lagi sem er á ensku.

Útkoman varð lagið „Wastelands“, sem er eins ógúrúlegt lag og hægt var. En mér fannst þetta helvíti gott lag og fannst það eiginlega ekki passa Love Guru,“ segir Doddi. „Þannig að ég ákvað að gera lagið alveg upp á nýtt sem „Last Dance (Wastelands)“ og gefa það út undir eigin nafni.

En Love Guru er ekki alveg dauður úr öllum æðum. Í dag kemur út alveg ný útgáfa af laginu 1,2, Selfoss. Ég þurfti að gera það alveg upp á nýtt frá grunni og er frekar ánægður með það, þó þetta sé Love Guru lag. Það lendir á öllum streymisveitum í dag,“ segir Doddi.

Platan fæddist eftir að Doddi gerði lag fyrir Love Guru sem honum fannst einum of gott til að vera bara grín. Hann ákvað að gera nýja útgáfu af því og í kjölfarið gerði hann fleiri lög og ábreiður sem saman mynda plötuna Last. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Vill hreinsa nafn sitt

„Mig langaði bara að gera eitt lag en þegar ég heyrði útkomuna hugsaði ég „sjitt, djöfull er þetta geggjað, ég geri bara heila plötu af tónlist sem ég fíla“,“ segir Doddi og hlær. „Love Guru er svo gestur á einu lagi, Desire, en það er löðrandi R’n’B diskólag sem er mjög langt frá mínum stíl og hálf sóðalegt, svo ég varð að skrifa þetta á hann.

Ég var búinn að gera tónlist sem ég vildi ekkert endilega gera í svo langan tíma að ég vildi gera eitthvað fyrir mig og reyna aðeins að hreinsa nafn mitt í leiðinni,“ segir Doddi.

„En það er svo fáránlegt að ég er alltaf að hugsa að þetta sé fyrir mig en svo grenja ég úti í horni því enginn vill spila eða hlusta á þetta og ég fæ svo fá læk,“ segir Doddi og hlær. „En í tónlist er það þannig að maður þarf annað hvort að gera það sama og allir aðrir, nema bara betur, eða gera þetta fyrir sjálfan sig. Í það minnsta ekki gera tónlist sem þótti töff fyrir 40 árum.“

Pródúsent sem getur allt

Sjálfur samdi Doddi níu lög á plötunni, en á henni eru líka tvær ábreiður, ein af lagi með Depeche Mode og ein af lagi með Keflavíkursveitinni CTV.

„Svo lét Gunni Hilmarsson úr Sycamore Tree mig líka hafa eitt lag. Ég hefði alveg viljað fara þyngri og dekkri leiðir í sumum lögum en hluti af mér var alltaf að segja að það verði einhver að hlusta á þetta. Svo eru tvö lög sem eiga eiginlega ekki heima þarna, það eru lögin Desire og Electro Love, sem eru eiginlega bara grín og alltof mikið popp fyrir hinn alvarlega þenkjandi mann Dodda,“ segir Doddi kíminn.

Hann segir að vinnsla plötunnar hafi gengið vel en verið heldur óhefðbundin.

„Þetta var dálítið öðruvísi því ég er ekki merkilegur tónlistarmaður og spila eiginlega ekki á hljóðfæri. En ég er prýðilegur plötusnúður og fínn í að klippa niður tónlist. Þannig að þegar ég var að semja gat ég klippt niður hin og þessi lög og búið til grunna og samið ofan á það og sent það áfram,“ segir Doddi. „Ég er búinn að vinna þetta mikið með stráki frá Marokkó sem kallar sig N3dek og er EDM-tónlistarmaður. Ég fann hann á Fiverr.‌com og fékk hann til að remixa eitt Love Guru lag og það var ofboðslega gott að vinna með honum. Þannig að ég fékk hann til að vinna CTV-ábreiðuna, Casablanca. Þar var hann að fara í 80’s hljóm sem hann þekkti ekkert en negldi samt alveg og það sama gerðist þegar ég fékk hann til að gera tripphopp-lag.

Þetta virkaði þannig að ég söng hugmyndirnar mínar inn á símann, hann gerði svo frumstæðan grunn og svo gaf ég nánari fyrirmæli og þá kom grunnur að lagi. Svo fór ég að kenna honum um þá átt sem ég vildi fara í með þetta og þurfti að kynna heilu tónlistarstefnurnar fyrir honum til að hann áttaði sig á hvern fjandann ég væri að tala um, en hann var bara 22 ára þegar við byrjuðum,“ segir Doddi. „En þetta gekk, aðallega því þetta er gull af manni sem missir aldrei drifkraftinn. Smám saman kom þetta. Ég hélt stundum að hann réði ekki við sum lög en hann kom mér alltaf á óvart. Hann er magnaður, getur allt og á framtíðina aldeilis fyrir sér.“

Doddi er búinn að gera tónlistarmyndbönd við öll lögin á plötunni og segir að myndböndin við Electro Love og Desire standi upp úr.

Fór að þora að syngja

Á plötunni eru þó nokkuð margir gestatónlistarmenn: Una Stef, Karitas Harpa, Lísa Einarsdóttir, Aldís, Rachel Wish, Íris Ey, Inger, Weekendson og breski rapparinn Gimson. Doddi segir að það sé aðallega vegna skorts á sjálfstrausti.

„Ég þori ekki að gera þetta sjálfur og hef oft látið alvöru söngvara syngja viðlagið í Love Guru lögunum. Þegar ég gerði Wastelands og tók upp smá söng til að Una Stef vissi hvað ég vildi kom það mér reyndar á óvart að ég gat sungið og smám saman hef ég farið að þora að syngja,“ segir Doddi. „Á plötunni syng ég líka falsettur og í laginu sem ég gerði með Weekendson er ég til dæmis að syngja eins og ballöðukóngur.

Gimson er með geggjaða texta og frábært flæði og mig langaði rosalega að fá hann á plötuna. Hann er með í langpersónulegasta laginu sem ég hef gert á ævinni,“ segir Doddi. „Það er pínu fáránlegt að fá hann með eitthvert rapp en mig langaði að prófa. Textinn hans smellpassar samt þar inn en gerir það almennara, sem er snilld.

Svo langar mig að senda sérstakar þakkir til Jóns Þórs Helgasonar, sem tók upp allan söng og hjálpaði mér helling,“ segir Doddi. „Ég samdi þennan væmna og hugglega texta í laginu „Friends“ til hans, við lag sem við sömdum saman, hann vann með mér og við gáfum út sem Doddi & Weekendson.“

Meira á leiðinni

Doddi er búinn að gera tónlistarmyndbönd við öll lögin.

„Þau eru ekki merkileg, þetta er allt tekið á símann minn. En það eru tvö sem eru nokkuð góð, myndbandið við Desire er frekar fyndið og þar fékk ég Jón Gnarr til að leika hljómsveitarstjórann, Weekendson setti ég í leðurgalla, dóttur mína á hljómborðið og hinar guðdómlegu Camel toes í bakraddir,“ segir hann. „Electro Love myndbandið er líka skemmtilegt, það er ekta nýrómantík með fallegum búningum og ég er með blátt hár og Rakel og Aldís fara á kostum, stelpur sem ég þekkti ekki neitt. Það er hægt að sjá þau öll á YouTube-rásinni Doddi Dodds.“

Doddi segir að þó að þetta sé fyrsta og síðasta platan sé samt von á að minnsta kosti einu lagi í viðbót.

„Ég er búinn að semja eitt í viðbót sem ég er að vinna í. Svo hef ég líka alltaf verið sjúkur í remix og finnst gaman að heyra aðra fikta í mínu dóti, þannig að það eru góðar líkur á remix-plötu síðar og þá ætla ég að láta lagið sem ég er að vinna í fylgja með,“ segir Doddi að lokum.

Coverið á plötunni.