Daníel vann tvo Íslandsmeistaratitla en hann bar sigur úr býtum í langstökki og í þrístökki, þar sem hann gerði sér lítið fyrir og stórbætti 12 ára gamalt Íslandsmet. Metstökkið mældist 15,49 metrar en gamla metið var 15,27 metrar og var í eigu Kristins Torfasonar.

„Þetta var hreint út sagt frábær helgi og ég gæti ekki verið ánægðari með árangur minn,“ segir hinn 23 ára gamli Daníel Ingi.

Spurður hvort hann hafi vænst þess að slá Íslandsmetið á þessum tímapunkti segir hann: „Ég hafði það á tilfinningunni að metið gæti fallið þó svo að á mótunum fyrir Meistaramótið hafi niðurstaðan ekki verið sú sem ég vildi. Ég hugsaði samt með mér hvort Meistaramót Íslands gæti orðið sá tímapunktur sem ég myndi slá metið og það varð raunin. Ég var í góðum gír og það var frábær tilfinning þegar ég sá að ég hafði bætt metið.“

„Eins og staðan er núna þá er ég ekkert að leggja meiri áherslu á þrístökkið frekar en langstökkið. Mér finnst ég vera jafn vel settur í báðum greinum en svo getur komið sá tími að maður þurfi að ákveða hvor greinin verði númer eitt,“ segir Daníel, sem tryggði sér sigur í langstökkinu með því að stökkva 7,23 metra en Íslandsmetið á Jón Arnar Magnússon, 7,82 metrar.

Dreymir um að slá met Vilhjálms

Íslandsmetið í þrístökki utanhúss er svo sannarlega komið til ára sinna en það er er í eigu Vilhjálms heitins Einarssonar, 16,70 metrar, sem hann setti árið 1960. Skildi Daníel vera horfa til þess að bæta þetta 63 ára gamla met?

„Það yrði náttúrulega algjör draumur að slá það met. Ég hef heyrt það frá mörgum að ef það er eitthvað sem Vilhjálmur Einarsson hefði viljað verða vitni að þá hefði það verið að sjá einhvern slá Íslandsmet hans. Það yrði heiður fyrir mig að geta heiðrað minningu hans með því að slá metið og markmiðið til næstu tveggja ára hjá mér er að ná því. Það verður mikil vinna en hún á eftir að skila sér,“ segir Daníel Ingi en hann hefur lengst stokkið 15,31 metra utanhúss.

Daníel Ingi segist hafa byrjað að æfa frjálsar íþróttir ungur að árum. „Ég byrjaði í frjálsum sem barn og var í þeim alveg þar til ég var 16 ára gamall. Þá hætti ég í þeim. Það kom einhver leiði í mig og ég sneri mér að fótbolta og vildi gefa honum tækifæri. Ég spilaði fótbolta í sjö ár, með FH og Álftanesi en sá tími kom að ég fékk nóg af fótboltanum og ákvað að draga frjálsíþróttaskóna aftur fram í september 2021. Ég vissi að ég hefði grunninn úr frjálsum eftir að hafa verið í þeim sem barn og ég sé ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun. Nú er ég búinn að æfa af krafti í eitt og hálft ár eftir endurkomuna og ég tel það mikið afrek að hafa náð að slá Íslandsmetið eftir svo stuttan tíma. Þetta gefur mér mikið sjálfstraust.“

Það er nóg fram undan hjá stökkvaranum efnilega úr Hafnarfirði á þessu ári og hann stefnir að því að taka þátt í stórmótum á komandi árum. „Það er alltaf markmið og draumur að komast á stóra sviðið. Það er langtímamarkmið en fyrst er að setja fyrir sig þessi minni markmið og ná þeim sem geta svo skilað manni stóra draumnum.“

Tengir íþróttina við námið

Daníel Ingi stundar nám í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík og er þar á fyrsta ári. „Þetta er mjög skemmtilegt nám og gaman að geta tengt íþróttina sína við námið sitt, geta nýtt námið til að hjálpa mér að þróa íþróttaferilinn og vonandi í framtíðinni að geta unnið eitthvað tengt íþróttum,“ segir Daníel. Hann er þjálfari hjá fimmta og sjötta bekk hjá Frjálsíþróttadeild FH.

„Það er mjög gefandi og skemmtilegt að þjálfa þessa krakka og góð tilfinning að geta verið fyrirmynd fyrir þessa ungu kynslóð. Sjálfur var ég alltaf með mínar fyrirmyndir sem barn og horfði upp til þeirra.“