„Ég vakna snemma á morgnana og er mætt í Grafarvogslaugina klukkan hálfsjö. Ætli það séu ekki um fimmtán ár frá því ég fór að stunda sund en það var engin sérstök regla á því. Fyrir þremur árum ákvað ég að taka sundið föstum tökum og mæta fimm sinnum í viku. Það tekst oftast,“ segir Guðbjörg, en hún er útgefandi og ritstjóri tímaritsins Lifum betur – Í boði náttúrunnar og ferðakortanna Handpicked Iceland.

„Ég tók þá ákvörðun einn daginn að hætta að hlusta á raddirnar í hausnum á mér sem minna mig á hvað er gott að sofa aðeins lengur eða að veðrið sé eiginlega of vont til að fara í sund og í staðinn fer ég bara af stað. Á kvöldin tek ég til sundfötin, handklæði og föt og þá þarf ég ekkert að hugsa um þetta þegar ég vakna. Ég fer bara í úlpu yfir náttfötin, tek sundtöskuna mína og bruna beint út,“ segir hún.

Rútínan er góð

Guðbjörg syndir alltaf 500 metra. „Ég er búin að koma mér upp góðri rútínu í sundinu. Þar sem ég syndi frekar stutta vegalengd nota ég sundfit til að reyna meira á mig. Ég syndi fyrstu 200 metrana á eðlilegum hraða og svo gef ég í næstu 300 metrana. Síðustu tvær ferðirnar syndi ég á mikilli ferð til að fá hjartað til að slá enn hraðar og reyna vel á lungun. Að þessu loknu er ég búin að pústa vel og þá fer ég í heitasta pottinn. Þar tek ég teygjur og teygi vel á handleggjum og fótum og öllum mögulegu vöðvum sem mér dettur í hug. Því næst fer ég í kalda pottinn og þar geri ég öndunaræfingar. Þaðan fer ég í gufuna og geri styrktaræfingar. Oftast geri ég arm- og hnébeygjur. Ég pæli ekkert í því hvort það eru aðrir í gufunni, heldur geri bara mínar æfingar. Síðan slaka ég aðeins á í gufunni, dýfi mér svo aðeins í kalda pottinn og fer upp úr,“ segir Guðbjörg, sem æfði sund þegar hún var á unglingsaldri.

Þessi daglega rútína tekur rúman klukkutíma.

„Þá fer ég heim og fæ mér morgunkaffið, sem maðurinn minn, Jón Árnason, lagar handa mér og svo taka dagleg verkefni við,“ segir hún.

Gott fyrir geðheilsuna

Guðbjörg segir að fyrir sig sé sundið grunnurinn að góðum degi. „Það heldur mér í góðu jafnvægi, góðu formi og heldur geðheilsunni í lagi. Sundið er góð alhliða hreyfing, ég fæ góðan skammt af súrefni og styrki ónæmiskerfið. Ég fæ líka heilmikið út úr sundinu með því að hafa þessa rútínu því þá næ ég að gera margt á stuttum tíma. Þar fyrir utan nota ég sundið til að æfa mig í núvitund. Ég er meðvituð um að vera í flæði, ekki hugsa og vera sem mest í núinu,“ segir hún

Á föstudögum breytir Guðbjörg aðeins út af vananum. „Ég á góðar vinkonur í sundinu. Við köllum okkur Silfurskotturnar því einn daginn tókum við eftir því að við vorum allar með silfurlitaðar sundhettur. Í lok vikunnar förum við saman í infra-rauða gufu, sem er nýjung í Grafarvogslaug, og að henni lokinni tökum við spjall í heita pottinum. Á föstudögum býð ég þeim upp á heimagerðan kaffiskrúbb í sturtunni. Ég er að skora mörg prik þar,“ segir hún með bros á vör og bætir við að á laugardögum fari hún svo í sjósund með mömmu sinni og eiginmanni.

„Ég byrjaði að stunda sjósund fyrir einu og hálfu ári og fer helst alla laugardaga í Nauthólsvík og stundum í Guðlaugu á Akranesi. Mér finnst það gefa mér meiri tengingu við náttúruna en sundið. Þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst í vetur og bæði sundlaugarnar og Nauthólsvíkin voru lokaðar fannst mér nauðsynlegt að dýfa mér aðeins í kalt vatn. Við eigum sumarbústað í Kjósinni og þar fór ég út í kaldan hyl til að fá mína kælingu,“ segir Guðbjörg, sem hefur í mörgu að snúast þessa daganna og er meðal annars að skipuleggja viðburðinn Lifum betur, heilsu- og umhverfisveislu í Hörpunni í haust.