Hryllingsmyndir eru eðlis síns og viðfangsefna vegna iðulega litnar hornauga. Vinsældir þeirra eru hins vegar það almennar að ekkert lát er á framleiðslu þeirra. Hrollvekjur hafa einnig ríka tilhneigingu til þess að rjúka upp í vinsældum þegar ógnir á borð við kjarnorkuvá og farsóttir vofa yfir.

Þær ríða hins vegar sjaldan feitum hestum frá virðulegum verðlaunahátíðum þótt það komi stundum fyrir. Til dæmis þegar The Silence of the Lambs fékk Óskarinn sem besta myndin og nú síðast í Cannes þar sem Titane eftir Julia Ducournau hlaut Gullpálmann.

Titane (2021)

Franski leikstjórinn og handritshöfundurinn Julia Ducournau kom, sá og sigraði sögulega á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr í þessum mánuði þar sem hún varð önnur konan í sögu verðlaunanna til að hljóta Gullpálmann fyrir bestu myndina. JaneCampion braut þann glervegg 1993 með The Piano.


Sigur Ducournau þykir einnig marka tímamót þar sem Titane er ekki allra og hefur þegar verið stimpluð „mest sjokkerandi mynd ársins 2021“. Hún gengur enda fram af fólki og heldur áhorfendum í stöðugri óvissu um hvaða ósköp muni eiga sér stað næst. Titane er lýst sem fallegri, myrkri og sjúkri fantasíu með í senn martraðarkenndri og prakkaralegri gusu kynlífs og ofbeldis sem flýtur áfram í krafti ægilegs ljósaflóðs og dynjandi tónlistar. Greinilega bylgja sem má láta sig hlakka til að skelli á Íslands ströndum

The Sixth Sense (1999)

Leikstjórinn M. Night Shyamalan og hinn ungi Haley Joel Osment í aðalhlutverkinu slógu báðir hressilega í gegn með þessari draugalegu mynd sinni um ungan dreng sem er þjakaður af því að vera stöðugt með framliðna fyrir augunum.


Bruce Willis sýndi á sér mýkri hlið sem barnasálfræðingurinn sem reynir að hjálpa drengnum að glíma við drauga sína en á heldur betur eftir að fá á baukinn sjálfur.

The Birds (1963)

Sígilt fjaðrafok meistara Alfreds Hitchcock er algjörlega ómótstæðileg hrollvekja um fugla sem skyndilega byrja að ráðast á fólk.


Hluti hrollsins felst í því að vita að þetta gæti mögulega gerst í raunveruleikanum. Það er einfaldlega mjög auðvelt að tortryggja máva eftir að hafa horft á þessa snjöllu kvikmynd.

The Exorcist (1973)

William Friedkin braut alla múra siðvendni og góðra gilda í þessari tímamótamynd gerðri eftir einni áhrifamestu hryllingsbók síðustu aldar, The Exorcist eftir William Peter Blatty, um baráttu kaþólskra presta við að flæma illan anda úr líkama hinnar þrettán ára gömlu Reagan.


Enginn sem sá myndina á sínum tíma varð alveg samur og hún eltir enn nýja sem gamla áhorfendur langt inn í svefninn.

The Others (2001)

Alejandro Amenábar töfrar fram mynd sem er full af dularfullum persónum og afar drungalegu andrúmslofti. Nicole Kidman er móðirin sem verndar börn sín í húsi þar sem draugagangur virðist ríkja.


Leikstjórinn var tilnefndur til BAFTA- verðlauna fyrir besta handrit og Kidman var tilnefnd til Golden Globe og BAFTA fyrir leik sinn í hrollvekju sem sannarlega hittir í mark.

The Innocents (1961)

Leikstjórinn Jack Clayton teflir hér fram Deborah Kerr í hlutverki barnfóstru sem óttast að börnin sem hún gætir séu andsetin. Einstaklega fáguð hrollvekja þar sem tekst fullkomlega að skapa ógnvænlegt andrúmsloft og um leið er á áhugaverðan hátt leikið með hugmyndina um að allt hið óhugnanlega sem gerist sé hugsanlega hugarburður barnfóstrunnar.


Við kjósum hins vegar að trúa á draugana, enda er það svo miklu skemmtilegra.

Invasion of the Body Snatchers (1956)

Leikstjórinn Don Siegel, sem er þekktastur fyrir Dirty Harry, er í frábærlega vænisjúkum ham í þessari fyrstu kvikmyndaaðlögun sögunnar The Body Snatchers eftir Jack Finney.


Í bæ í Kaliforníu taka íbúar hver á fætur öðrum ógnvænlegum breytingum og verða sálarlausar útgáfur af sjálfum sér. Frábær og tímalaus hrollvekja sem hefur komist á lista yfir bestu kvikmyndir allra tíma. Mynd sem fær áhorfandann hvað eftir annað til að naga neglurnar

The Shining (1980)

Leikstjórinn Stanley Kubrick tekur eina fyrstu og þekktustu sögu Stephens King tröllataki í The Shining þar sem rithöfundurinn Jack Torrence sest að með eiginkonu og syni á afskekktu hóteli, missir vitið og ógnar um leið lífi eiginkonu sinnar og sonar sem er skyggn.


Jack Nicholson er á barmi þess að ofleika í hlutverki hins vitskerta rithöfundar, en fyrir vikið er það hrollvekjandi skemmtun að fylgjast með honum. Danny Lloyd er síðan átakanlega umkomulaus í hlutverki hins unga sonar. Hvert óhugnanlega atriðið rekur annað í magnaðri kvikmynd þannig að hin viðkvæmu hljóta að grípa nokkrum sinnum fyrir augun, þeir harðgerðari fyllast sæluhrolli.