Seljandi að sérlega varhugaverðu par­húsi á Kárs­nesi í Kópa­vogi bendir að gæta þurfi sér­stakrar ár­vekni við skoðun á húsinu. Það er til sölu hjá fast­eigna­sölunni Mið­borg. Um er að ræða 204,2 fer­metra par­hús á tveimur hæðum auk kjallara.

Fast­eigna­salan Mið­borg, sem annast sölu hússins, segir að á­stands­skoðun á húsinu hafi farið fram í nóvember síðast­liðnum. „Á­huga­sömum er bent á að bóka skoðun á eigninni og gera það með fag­aðilum í við­eig­andi klæðnaði af heilsu­fars­á­stæðum,“ segir í auglýsingunni.

Seljandi segir mikil­vægt að væntanlegir kaupendur leiti að­stoðar sér­fræðinga. Í auglýsingunni er haft eftir Gunnari Þor­fins­syni, bygginga­fræðingi hjá Frum­herja, að eignin sé afar illa farin og þarfnist al­gjörrar endur­nýjunar að innan og utan, sökum raka­skemmda og myglu.

Slíkar skemmdir megi finna á öllum hæðum hússins, auk á­berandi myglu víðast hvar á­samt öðrum ó­hreinindum. Þá eru lagnir tærðar og ó­nýtar á­samt við­varandi leka þar sem lagnir liggja í veggjum á nokkrum stöðum. Botn­plata í kjallara þarfnast auk þess endur­nýjar, er morknuð og í­lögn brotin og að líkindum sýkt af myglu­svepp. Segir að það eigi einnig við um aðra fleti.

Þá er haft eftir Gunnari að endur­nýja þurfi allar lagnir, mið­stöðvar­lagnir, neyslu­vatns­lagnir og frá­veitu. Auk þess þurfi að endur­nýja allt raf­magn og komast þarf fyrir raka í út­veggjum, berandi ­veggjum og gólf­flötum. Þá þarfnast þakið endur­nýjunar, auk þess sem endur­bóta er þörf á steyptum flötum og endur­nýja þarf allt tré­verk, glugga og hurðir. Uppsett verð er 38,5 milljónir króna.

Mynd/Miðborg
Mynd/Miðborg
Mynd/Miðborg
Mynd/Miðborg
Mynd/Miðborg
Mynd/Miðborg
Mynd/Miðborg