Tónlistarmaðurinn Barði Jóhannsson, sem enn er jafnan kenndur við Bang Gang, var að gera tónlist sína við hryllingsmyndina Agony aðgengilega á Spotify.

„Myndin kom út fyrir ári síðan og er fyrsta mynd leikstjórans Michele Civetta. Hún átti að fara í bíó en svo kom COVID. Það varð til þess að myndin endaði beint á streymisveitunum.

Skömmu eftir að myndin kom út þá fór ég að dúlla mér við að endurmixa og fínisera tónlistina fyrir útgáfu svo að það sé líka hressandi að hlusta á hana eina og sér,“ segir Barði, sem er ekki ókunnur hryllingstónlist eftir að hafa samið tónlistina við tryllinn Would You Rather sem hefur gengið vel á streymisveitum þar sem Agony endaði líka.

Barði segir aðspurður að óhætt sé að mæla með Agony. Fyrir rétta fólkið. „Sko, þetta er dulúðleg og draugaleg mynd sem er fallega tekin, gerð fyrir ákveðinn hóp fólks. Þeim sem fíla þessa tegund af bíómyndum á eftir að finnast hún skemmtileg.“

Hér talar Barði af marktækri þekkingu þar sem hann tilheyrir sjálfur þessum flokki hryllingsaðdáenda og segist vera með hina þekktu norrænu melankólíu í blóðinu sem leki út í tónlistina við Agony.

Heillandi hryllingsfeðgin

„Tónlistin er róleg og flæðandi með undirliggjandi óróa sem lýsir vel stemningunni í myndinni. Síðan hef ég verið mjög hrifinn af gömlum, ítölskum hryllingsmyndum og má gæta áhrifa þaðan,“ segir Barði og á þá helst við myndir áttunda og níunda áratugarins.

Agony tengist síðan þessum áhuga Barða lóðbeint í gegnum aðalleikkonuna Asiu Argento. „Pabbi aðalleikkonunnar er einn af mínum uppáhaldsleikstjórum,“ segir Barði, um meistara Dario Argento sem þekktastur er fyrir myndina Suspiria frá 1977. „Suspiria er ein af mínum uppáhaldsmyndum og líka tónlistin úr henni sem Goblin gerði og er alveg stórkostleg.“

Agony skartar þeirri mögnuðu leikkonu Asiu Argento í aðalhlutverki.
Mynd/Saga Sig

Barði segir í raun margt við Agony minna sig á ítölsku klassíkina og vekja einhvers konar nútímalega retro-stemningu í huga hans. „Kvikmyndatakan og margt annað minnir mig svolítið á þessar gömlu klassísku. Myndin gerist á Ítalíu, í kastala og það er einhver skrítin drauganornastemning.“

Zombíur og spaghettí

Asia Argento hefur meðal annars leikið í myndunum Frida, xXx, Marie Antoinette og uppvakningahrollinum Land of the Dead en auk hennar státar Agony af þeim fornfræga Franco Nero í aukahlutverki. Hann er þekktastur fyrir að hafa leikið Django í samnefndum spaghettívestra en hefur í seinni tíð látið að sér kveða sem illmenni í Die Hard 2 og John Wick 2 auk þess sem Quentin Tarantino gat ekki stillt sig um að tefla honum fram í Django Unchained.

Leikstjórinn, Michele Civetta, hefur hins vegar verið iðinn við auglýsingagerð og verið tilnefndur til Emmy-verðlauna í þeim bransa auk þess sem hann hefur leikstýrt tónlistarmyndböndum fyrir ekki ómerkara fólk en Lou Reed og Yoko Ono.

Hryllileg ánægja

Þannig að víða liggja þræðir og Barði telur líklegt að þeir eigi eftir að vinna meira saman. „Við erum í góðum fílíng,“ segir Barði sem hefur samið og lagt til tónlist í yfir tugi verkefna í kvikmyndum, leikhúsi og sjónvarpi. Hvað aðsókn varðar ber þar einna hæst tónlistin við íþróttadramað De toutes nos forces (The Finishers) frá 2013 sem fór á toppinn í Frakklandi og ætla má að um 800.000 manns hafi séð í bíó.

„Þetta er allt önnur stemning en fjölskyldumynd,“ segir Barði um Agony og hryllinginn. „Sko, þetta finnst mér skemmtilegt en það er meiri peningur og áhorf á fjölskyldumyndirnar. Þannig að þetta er meira til að vökva ánægjuna. Ég skemmti mér alveg konunglega að gera þetta. Dulúðin, draugagangurinn og áttundi áratugurinn létta lundina og auka á hressleikann.“