Myndskeið tókst af Hrossagauki á Álftanesi að morgni miðvikudags í vikunni að soga upp í sig orma. Sá bjargar sér um æti eftir að þykkt hret hafði þakið jörðina. Ásgeir Valgarðsson áhugaljósmyndari náði þessu skemmtilega myndskeiði.

Á fuglavefur.is segir: „Hrossagaukur (einnig kallaður mýrispýta eða mýrisnípa) er algengur meðalstór vaðfugl sem fer gjarnan huldu höfði.“

„Erfitt er að koma auga á hann á jörðu niðri, því hann er var um sig og felugjarn. Þegar hann er fældur flýgur hann snögglega upp með skrækjum og hverfur á braut með hröðum vængjatökum eða steypir sér snöggt til jarðar. Fremur ófélagslyndur fugl.“

Og þar segir að hann poti löngum goggnum í votan og mjúkan jarðveg og tíni upp orma en taki einnig aðra hryggleysingja eins og lirfur, bjöllur og áttfætlur.

Mynd/fuglavefur.is

Heimkynni hrossagauksins eru mýrar, fen, túndrur og votir hagar á Íslandi, Færeyjum, norður-Evrópu og Rússlandi. Hrossagaukurinn gerir hreiður sitt á huldum stað á jörðinni, samkvæmt Wikipediu.

Hið sérstaka hnegg

Skemmtilegan fróðleik má finna á fuglavefnum. Eins og að skömmu eftir aldamótin 1800 hófst deila á Íslandi um það hvernig hrossagaukurinn hneggjaði. Fram til þess tíma héldu menn að hneggið væri raddhljóð. En þá komu þýskir vísindamenn fram með þá kenningu að hrossagaukurinn hneggi með flugfjöðrunum. Þessari kenningu var síðan hrundið þegar færðar voru sönnur á að gaukurinn hneggjaði með stélfjöðrunum, þ.e. að loftstraumur lendi á milli stélfjaðra og þannig myndist hljóðið.