Hrönn Bjarna­dóttir er þrjá­tíu og þriggja ára gömul tveggja barna móðir, bú­sett í Kópa­vogi á­samt eigin­manni sínum. Hrönn er menntaður við­skipta­fræðingur með master í markaðs­fræði en er um þessar mundir í fæðingar­or­lofi.

Hrönn er mikill fagur­keri og er hennar helsta á­huga­mál að skipu­leggja og halda veislur af öllum gerðum og stærðum.

Að­spurð segist Hrönn hafa verið farin að skipu­leggja sínar eigin af­mælis­veislur mörgum mánuðum áður en hún átti af­mæli allt frá því að hún var í leik­skóla.

Hrönn og Sæþór, eiginmaður hennar, á brúðkaupsdaginn.
Mynd/Aðsend

Gott skipulag er númer 1, 2 og 3

Veislur Hrannar eru á­vallt glæsi­legar og eyðir hún á­vallt miklum tíma í undir­búning og skipu­lag.

„Ég viður­kenni alveg fús­lega að stundum fórna ég nokkrum klukku­tímum af svefni til þess að klára að gera allt og græja,“ segir Hrönn hlæjandi í við­tali við Frétta­blaðið.

Hún heldur á­fram og segir „Ég reyni hins vegar alltaf að gefa mér rosa­lega góðan tíma í undir­búning og ég græja allt sem er hægt að græja löngu fyrir veislur, til dæmis að baka og setja í frysti. Gott skipu­lag er líka alveg númer 1, 2 og 3 þegar þú ert að fara að halda stóra veislu með flóknum veitingum og skreytingum. Mér finnst alveg nauð­syn­legt að út­búa verk­efna­lista með svona um það bil tíma sem hvert verk­efni tekur og skipu­leggja hvað ég geri hve­nær út frá honum,“ segir Hrönn.

Hrönn hélt upp á þriggja ára afmæli dóttir sinnar á dögunum með regnbogaþema
Mynd/Aðsend
Hrönn bakar virkilega flottar kökur.
Mynd/Aðsend

Hrönn segist yfir­leitt vera búin að á­kveða þema fyrir veislur nokkrum mánuðum áður og pantar hún reglu­lega skreytingar er­lendis frá.

Fyrir nokkrum dögum síðan hélt Hrönn upp á þriggja ára af­mæli Emblu, dóttur sinnar, og viður­kennir hún að vera nú þegar búin að á­kveða þema fyrir fjögurra ára af­mælið hennar.

Hún segir þó að eftir að hún eignaðist börn hafi undir­búningur fyrir veislur orðið að­eins erfiðari.

„Ég er yfir­leitt að klára að græja og gera alveg fram á síðustu mínútu. Sér­stak­lega hefur þetta verið tæpt eftir að ég átti börnin og ein­hvern veginn er að­eins erfiðara að halda sig við tíma­planið núna heldur en þegar ég var barn­laus og sér­stak­lega núna þegar börnin eru orðin tvö,“ segir hún.

Tveggja ára afmæli Emblu, dóttur Hrannar.
Mynd/Aðsend
Drykkjarstöðin er ávallt vel skreytt líka.
Mynd/Aðsend

Brúðkaupsveislan sú stærsta

Hrönn segist yfir­leitt sjá um allt fyrir veislurnar alveg sjálf en að hún sé þó ó­hrædd við að not­færa sér leiðir til þess að ein­falda hlutina líkt og til­búin kökumix og frosnar mini pítsur.

Að­spurð segist Hrönn vera sú eina í fjöl­skyldunni sem sé jafn veislu­sjúk og hún.

„Ég veit ekki hvaðan ég fæ þetta, ég fæddist held ég bara svona,“ segir hún og hlær.

Hrönn á brúðkaupsdaginn sinn og Sæþórs, eiginmanns hennar.
Mynd/Aðsend

Stærsta veislan sem Hrönn hefur skipu­lagt var brúð­kaupið hennar og eigin­manns hennar Sæþórs en þau giftu sig í ágúst árið 2018.

„Það var eitt það skemmti­legasta sem ég hef gert en á sama tíma gríðar­lega mikil vinna og afar stressandi þegar dagurinn fór að nálgast. Dagurinn heppnaðist full­kom­lega og ég var í skýjunum með þennan yndis­lega dag. Ég hef svo verið með þrí­tugs­af­mæli fyrir Sæþór manninn minn og alls­konar af­mæli og þema­veislur, hall­oween partý, 3 mis­munandi morð­gátu­partý , kok­teil­partý og fleira. Þær eru orðnar ansi margar veislurnar þegar ég fer að telja þær saman. Næst á dag­skrá hjá okkur er svo skírn hjá litla prinsinum og ég er nú þegar búin að kaupa allt skrautið og skipu­leggja allar veitingarnar,“ segir hún.

Skreytingarnar í veislu Hrannar voru engu líkar.
Mynd/Aðsend
Sælgætisbarinn sem Hrönn útbjó fyrir brúðkaup sitt.
Mynd/Aðsend
Hrönn breytti salnum fyrir brúðkaupið svo mikið að hann var óþekkjanlegur.
Mynd/Aðsend

Mikilvægt að skrifa allar hugmyndir niður

Hrönn segist reglu­lega sækja sér hug­myndir á netinu og safnar hún þeim saman í hug­mynda­banka.

„Oft dettur mér þetta bara í hug sjálfri og mjög oft fæ ég flestar hug­myndirnar þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin og þá er mikil­vægt að skrifa þetta niður svo ég sofni ekki og gleymi öllu. Ég sé oft myndir af alls­konar skreytingum sem eru svipaðar því sem ég vil og breyti því svo bara og upp­færi með mínum hug­myndum í bland.“

Hrönn segir mikinn tíma fara í það að undir­búa veislurnar, allt frá því að hún á­kveði þema og fram að veislu­deginum sjálfum.

„Úff ég veit ekki hvort ég vil vita hvað það fari mikill tími í þetta,“ segir hún hlæjandi og bætir við „alveg allt of miklum örugg­lega. Ég var til dæmis alveg fimm kvöld­stundir af finna hvaða skraut ég ætlaði að kaupa á netinu fyrir af­mælið hennar Emblu, að finna hvar skrautið sem mig vantaði var til, hvar það var ó­dýrast og svona klára að á­kveða alveg 100% hvernig ég vildi hafa þetta. Helgin fyrir af­mælið fór svo að mestu í bakstur og 3 dagar fyrir af­mælið voru alveg undir­lagðir,“ viður­kennir hún.

Eins árs prinsessuafmæli.
Mynd/Aðsend
Drykkjarföngin eru líka skreytt.
Mynd/Aðsend

Fjölskylda og vinir hafa kallað hana klikkaða

Hrönn viður­kennir að hún eigi rosa­lega mikið af skrauti og að fjöl­skylda hennar og vinir telji hana nokkuð klikkaða þegar kemur að veislu­höldum.

„Ég á mjög mikið af skrauti. Ég er með næstum heila geymslu bara fyrir jóla­skraut, afmælis­skraut og alls­konar partý­skraut. Svo á ég can­dyfloss vél, súkku­laði­gos­brunn, kok­teil­gos­brunn, lukku­hjól og ég veit ekki hvað og hvað. Ég geymi lang­flest og það er ó­trú­legt hvað þetta kemur sér oft vel að eiga svona mikið af skrauti. Vinir og vanda­menn eru líka mjög dug­legir að kíkja til mín og fá lánað svo þetta nýtist nokkuð vel.

Jú fjöl­skylda og vinir hafa alveg sagt mér að ég sé smá klikk en þau eru búin að átta sig á því núna að það þýðir ekkert að reyna að segja mér að taka því ró­lega og draga að­eins úr um­fanginu. Svo er maðurinn minn orðin mjög þjálfaður í því að að­stoða mig í þessari veislu­geð­veiki og nú er hann farinn að hafa lúmskt gaman af þessu líka,“

Hrönn hefur haldið nokkur vel heppnuð Halloween partý.
Mynd/Aðsend
Öll rými heimilisins skreytt.
Mynd/Aðsend
Hawaii Luau partý og ekki mátti sleppa pálmatrjánum.
Mynd/Aðsend
Barinn stendur fyrir sínu.
Mynd/Aðsend

Eins og fyrr sagði er Hrönn núna í fæðingar­or­lofi með syni sínum en hún segist að­spurð alveg hafa velt því fyrir sér að finna sér vinnu við að skipu­leggja veislur.

„Jú ég hef al­gjör­lega spáð í því en veislur eins og ég held eru svaka­lega tíma­frekar og því yrði tíma­kaupið lík­legast nokkuð lágt. Svo í bili læt ég mér nægja að halda þessar veislur fyrir sjálfa mig og mína vini og fjöl­skyldu. Ef eitt­hvað spennandi dettur svo inn á borð hjá mér tengt þess þá má alveg skoða það. En þangað til þá stefni ég bara á það að fara að vinna aftur eftir or­lof og ætli ég haldi ekki fleiri veislur líka,“ segir hún og hlær.

Fermingarskreyting frá Hrönn.
Mynd/Aðsend