Einar er 33 ára gamall og er bú­settur í Reykja­vík á­samt kærustu sinni og tveimur sonum. Hann er með BA-gráðu í tón­smíðum frá LHÍ og masters­gráðu í kvik­mynda­tón­list frá Con­servatorium van Amsterdam í Hollandi.

Ó­þægi­leg til­finning á góðan hátt

Einar hefur samið tón­list fyrir fjölda kvik­mynda en það vekur ó­neitan­lega eftir­tekt hversu á­berandi margar þeirra eiga það sam­eigin­legt að vera hroll­vekjur.

„Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af góðum hryllings­myndum, en það að semja sér­stak­lega fyrir þær var svo sem aldrei ein­hver eigin­leg á­kvörðun sem ég tók, það bara æxlaðist svo­lítið þannig. En að því sögðu, þá er eitt­hvað skemmti­legt við það að semja tón­list sem lætur fólki líða ó­þægi­lega – á góðan hátt.

Mér finnst líka svo­lítið eins og hryllings­myndir bjóði meira upp á að gera eitt­hvað að­eins öðru­vísi, til dæmis að nota skrýtnari hljóð, óm­stríðari hljóma og skringi­legri stemningu en maður kæmist upp með í rómantískri gaman­mynd.“

Kröpp beygja úr MR yfir í LHÍ

Einar sleit barns­skónum að mestu leyti á Álfta­nesi og hugsar hlý­lega til heima­haganna. „Það að vera barn á Álfta­nesinu var stór­kost­legt, sér­stak­lega fyrir þessum 20–25 árum þegar byggðin var enn þá minni og sveita­til­finningin alls­ráðandi. Í minningunni voru stór tún alls staðar og enda­laust pláss til að ærslast og leika sér með vinum sínum.“

Þá ólst hann upp á sér­lega tón­elsku heimili en faðir hans, Tryggvi M. Bald­vins­son, er einnig tón­skáld, tón­listar­kennari og for­seti tón­listar­deildar Lista­há­skólans. Móðir hans, Vil­borg Rósa Einars­dóttir, er einnig kennari og kenndi í grunn­skólanum á Álfta­nesi um ára­bil.

„Pabbi minn er tón­skáld og tón­listar­kennari, þannig að það var alltaf mjög mikið um tón­list heima hjá mér. Sjálfur byrjaði ég að læra á píanó um 6 ára aldur og mig minnir að ég hafi samið mitt fyrsta lag um 9 ára. Það var svo þegar ég byrjaði í mennta­skóla að ég varð „að­eins of kúl“ fyrir píanó­námið, en þá varð ég rosa­lega spenntur fyrir tón- og laga­smíðum. Sá á­hugi jókst síðan jafnt og þétt í mennta­skóla svo að þegar ég út­skrifaðist af eðlis­fræði­deild í MR tók ég ansi krappa beygju beint inn í tón­smíðar í LHÍ.“

„Það hljómar kannski eins og ég sé að reyna að vinna mér inn stig fyrir næsta fjöl­skyldu­boð, en ætli ég myndi ekki segja pabbi minn, Tryggvi M. Bald­vins­son. Hann hefur alltaf bæði verið einn minn helsti stuðnings­maður og besti gagn­rýnandi."
Fréttablaðið/Valli

Á­hrifa­rík þögn

Einar rifjar upp augna­blikið þegar hann áttaði sig á því hversu þýðingar­miklu hlut­verki honum þótti tón­list, eða jafn­vel fjar­vera hennar, gegna í kvik­myndum.

„Ég hafði alltaf verið með­vitaður um kvik­mynda­tón­list sem barn – Star Wars, Back to the Fu­ture, Dis­n­ey teikni­myndirnar og svo­leiðis – en það var ekki fyrr en árið 2001 sem á­huginn kviknaði af ein­hverri al­vöru.

Ég man alltaf ár­talið því það var ein á­kveðin kvik­mynd sem kveikti þennan eld: Cast Away með Tom Hanks,“ segir Einar af­dráttar­laust.

„Ég man bara að það sló mig svo mikið að á meðan per­sóna Tom Hanks er á eyði­eyjunni er nær engin tón­list. Hann var alveg al­einn, og tón­listin – eða þögnin öllu heldur – endur­speglaði það svo vel. Það var þá sem ég fattaði hvað tón­list getur gjör­sam­lega gjör­breytt til­finningunni og stemningunni í kvik­myndum og upp frá því fór ég að horfa allt öðru­vísi á bíó­myndir.“


Inn­blásturinn bara bónus

Einar er spurður hvaðan hann fái inn­blástur til að semja. „Eitt fyrsta sjokkið sem ég upp­lifði eftir að ég fór að vinna við kvik­mynda­tón­smíðar var að læra það að maður gat ekki beðið eftir inn­blæstrinum. Á ung­lings­árunum samdi ég bara það sem ég vildi þegar ég vildi og mér leið eins og anda­giftin væri bara greypt inn í mig.“

Svo þegar maður fór að þurfa að mæta skila­frestum og semja tón­list í þágu þeirrar sögu sem mynd­efnið segir þurfti maður bara að gjöra svo vel og læra að vinna þetta eins og hvert annað verk­efni og inn­blásturinn er bara bónus,“ segir Einar Sverrir ó­myrkur í máli.

„En ég held að ég fái einna helst inn­blástur úr náttúrunni – mögu­lega ein­hver á­hrif frá álft­neska upp­eldinu. Langir göngu­túrar gera oft rosa­lega góða hluti fyrir sköpunina hjá mér, en það var ein­mitt í þeim túrum sem hug­myndin að plötunni kviknaði.“

„Ég man bara að það sló mig svo mikið að á meðan per­sóna Tom Hanks er á eyði­eyjunni er nær engin tón­list. Hann var alveg al­einn, og tón­listin – eða þögnin öllu heldur – endur­speglaði það svo vel. Það var þá sem ég fattaði hvað tón­list getur gjör­sam­lega gjör­breytt til­finningunni og stemningunni í kvik­myndum og upp frá því fór ég að horfa allt öðru­vísi á bíó­myndir.“

Víð­förul við­fangs­efni

Einar byrjaði að vinna að plötunni fyrir rúmu ári. „Ég átti nokkrar gamlar hálf­kláraðar hug­myndir að verkum sem ég hafði aldrei notað neins staðar. Ég á­kvað því að safna þeim öllum saman, klára þær og semja nokkur ný stykki og gefa allt saman út sem eina heild.“

Líkt og titillinn gefur til kynna, fer platan um víðan völl. „En það sem þessar hug­myndir eiga allar sam­eigin­legt er að þær eru allar byggðar á á­kveðnum stöðum – ýmist raun­veru­legum eða í­mynduðum. Þannig er eitt verkið samið eftir dvöl í snævi þöktum sumar­bú­stað á Suður­landi í fyrra­vetur, annað spratt upp úr minningu af hjóla­ferð í helli­dembu í Amsterdam á náms­árum mínum þar og það þriðja varð til eftir að ég rambaði á eitt­hvert saman­safn geim­mynda frá NASA á netinu.

Þessir staðir vekja allir mjög sterkar minningar eða til­finningar og ég reyndi svo að fanga þær í tón­list. Nafn plötunnar, „Destinations“, vísar svo ein­fald­lega til allra þessara staða sem mig langar að sýna hlust­endum og reyna að leyfa þeim að upp­lifa það sem ég upp­lifði.“

Spennandi en ógn­vekjandi

Destinations markar á­kveðin tíma­mót á ferli Einars Sverris en þetta er fyrsta platan sem hann gefur út einn síns liðs, ef svo má komast að orði.

„Það er bæði rosa­lega spennandi, en líka fer­lega ógn­vekjandi. Ég hef að vísu gefið út þrjár plötur áður, en það var allt tón­list úr kvik­myndum og sjón­varps­þáttum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég gef eitt­hvað út sem er 100% ég og það bætir alveg fersku lagi af stressi ofan á þetta allt saman.“

Þá eru fleiri verk­efni á döfinni. „Ég er ný­búinn að skila af mér tón­list fyrir arabíska stutt­mynd, en það var af­skap­lega skemmti­leg og ný reynsla. Svo bíða mín á vinnu­borðinu tón­list fyrir ís­lenska heimildar­mynd og breska hryllings­stutt­mynd, þannig að blessunar­lega er nóg að gera þessa dagana,“ segir Einar, sem hefur einnig sinnt annars konar verk­efnum sam­hliða tón­smíðunum.

„Ég hef líka mikið unnið við ýmiss konar texta­vinnu og rit­smíðar undan­farin ár með­fram tón­listinni – og held meira að segja úti minni eigin texta­þjónustu undir nafninu Tví­punktur.
Í þessum bransa, og ekki síst þessi síðustu misseri, er alls ekki galið að vera með ein­hverja smá hliðar­vinnu, svona til að borga leiguna.“

Hvernig er að starfa sem tón­skáld á Ís­landi?

„Fyrst og fremst myndi ég segja að sam­keppnin væri rosa­lega hörð. Bæði er fram­boð verk­efna ekkert brjál­æðis­lega mikið – þó það hafi vissu­lega aukist til muna undan­farin misseri – en stærsta „vanda­málið“ er bara hvað við Ís­lendingar eigum rosa­lega mikið af fer­lega góðum kvik­mynda­tón­skáldum!“

Hvaða tón­skáld hefur eða hafa haft mest á­hrif á þig?

„Það hljómar kannski eins og ég sé að reyna að vinna mér inn stig fyrir næsta fjöl­skyldu­boð, en ætli ég myndi ekki segja pabbi minn, Tryggvi M. Bald­vins­son. Hann hefur alltaf bæði verið einn minn helsti stuðnings­maður og besti gagn­rýnandi. Mér hefur alltaf fundist af­skap­lega gott að leita til hans upp á endur­gjöf og ráð­leggingar.“

Áttu eitt­hvert drauma­verk­efni?

„Mig dreymir svo­lítið um að semja söng­leik, ein­hvern tímann. Jafn­vel ein­hvers konar söng­leikja­teikni­mynd eins og Dis­n­ey-myndirnar sem maður ólst upp við.“

Einar segir sérstaklega á­nægju­legt að hafa fengið tækifæri til að semja tón­list fyrir ó­líkar tegundir kvik­mynda. „Ég held það sé varla til sú kvik­mynda- eða tón­listar­stefna sem ég væri ekki til í að prófa, þó sumar þeirra séu kannski að­eins minna spennandi eða meira ógn­vekjandi en aðrar. En hingað til hefur mér samt fátt fundist skemmti­legra í þessum bransa en að prófa nýja hluti og stíga út fyrir þæginda­rammann.“

Plata Einars Sverris, Destinations, kemur út á öllum helstu tón­listar­streymis­veitum 5. maí næst­komandi.