Hrókurinn hefur sinnt skákkennslu og barnastarfi á Grænlandi frá 2003 og þegar skákfélagið fagnaði 20 ára afmæli sínu í síðustu viku mætti sendinefnd Hróksins til Kullorsuaq, á norðvesturströnd Grænlands. Bærinn er við 74. breiddargráðu og hafa Hróksmenn aldrei farið norðar að boða fagnaðarerindi skáklistar, samvinnu og vináttu.

,,Þetta hefur verið ævintýraleg ferð,“ segir Máni Hrafnsson leiðangursstjóri. Hann segir að nánast öll börn bæjarins hafi tekið þátt í skákæfingum og fjölteflum. Þá var áhugi krakkanna síður minni á sirkusskóla og listasmiðju sem boðið var upp á en með í för voru sirkuslistamennirnir Axel Diego og Roberto Magro og Joey Chan sem hafði meðal annars umsjón með listsmiðjunni.

,,Við komum til Kullorsuaq á afmælisdegi Hróksins, og var fagnað með afmælisköku og söng. Næstu daga flykktust jafnt börn sem fullorðnir í skák og sirkus og myndlistina. Allt gekk fullkomlega upp, og gleðin var allsráðandi,“ segir Máni.

Birgitta Kamman Danielsen, æskulýðsfulltrúi Kullorsuaq, hafði veg og vanda af skipulagningu hátíðarinnar, ásamt Margréti Jónasdóttur frá Hróknum. Birgitta segist vera í skýjunum með hvernig til tókst:

,,Ég átti mér þann draum að Hrókurinn kæmi í heimsókn með skák og sirkuslistir, til að gleðja börnin hér á alveg sérstakan hátt í tilefni af 90 ára afmæli Kullorsuaq. En þetta varð miklu meira. Börnin, og margir fullorðnir, öðluðust reynslu og innblástur sem verður til þess að þau munu halda áfram þegar okkar góðu gestir eru horfnir á braut. Nú er búið að stofna hér skákfélag og skipuleggja skákkennslu og vikulegar sirkuslistaæfingar.“

Birgitta sagði að hátíðin hefði farið langt fram úr hennar björtustu vonum: ,,Börnin lærðu svo ótal margt og skemmtu sér konunglega á meðan. Þau lærðu að meta gildi samvinnu og þolinmæði, og að eiga sér drauma og þrár. Það var ótrúlegt að sjá hve jafnvel yngstu börnin voru áhugasöm um að læra að tefla. Fjölmörg þeirra báðu um að fá að halda áfram að tefla, þegar gerð voru hlé. Sama var upp á teningnum í sirkusskólanum.“

Birgitta bætir við að það hafi ekki aðeins verið börnin sem skemmtu sér: ,,Tvö kvöld buðum við fjölskyldufólki að spreyta sig í sirkuslistum í íþróttahúsinu, og þangað kom fólk á öllum aldri Hláturinn ómaði um salinn og gleðin skein úr andlitum fólksins, og allir skemmtu sér konunglega.“

Frjór jarðvegur reyndist líka hjá fullorðna fólkinu þegar kom að skákinni, og tefldi Máni fjöltefli við níu fullorðna bæjarbúa, sem veittu honum harða mótspyrnu. Tefld var tvöföld umferð, alls 18 skákir, Máni vann 16, gerði eitt jafntefli og tapaði einni skák. ,,Þetta er góður hópur, sem mun leiða skákstarfið áfram," segir Máni.

Á lokahátíðinni var stofnað skákfélag undir forystu Ole Danielsen og skákskóli sem Sören Nielsen stýrir, með aðstoð Abel-Enok Hansen. Við það tækifæri færði Hrókurinn nýja skákfélaginu og skólanum 20 taflsett að gjöf, og þeir Ole og Sören fengu einkennistreyjur Hróksins. 

Þá munu bæjarbúar geta æft sirkuslistir áfram, því Hróksliðar komu með heilmikið af sirkusbúnaði, sem bakhjarlar hátíðarinnar fjármögnuðu. Helstu bakhjarlar voru sveitarfélagið Avannaat, NAPA-sjóðurinn og Air Iceland Connect. Þá komu Hróksliðar að vanda klyfjaðir mörgum góðum gjöfum, ekki síst frá prjónahópnum í Gerðubergi og öðrum velunnurum.