Kvikmyndir

No Time to Die

Leikstjórn: Cary Joji Fukunaga

Aðalhlutverk: Daniel Craig, Léa Seydoux, Rami Malek, Lashana Lynch

Eftir tuttugu myndir og fimm mismunandi leikara var James Bond færður aftur á byrjunarreit með Daniel Craig í Casino Royale 2006. Löngu tímabærri endurræsingu þar sem Bond hristi af sér slatta af úldnum klisjum og kom sem óvenju jarðtengdur þrumufleygur inn í 21. öldina.

Nýr tónn var gefinn og þótt hann hafi í framhaldinu hljómað falskur í Quantum of Solace og holur í S.P.E.C.T.R.E. þá hitti Bond aftur á allar réttu nóturnar á milli þeirra með Skyfall og nú yfirgnæfir tilfinningaþrunginn krafturinn í No Time to Die þennan brotna takt svo gersamlega þannig að Daniel Craig- myndirnar standa sjálfstæðar sem firnasterkur og einstæður fimm mynda kafli í langri sögu þessa fræknasta njósnara í þjónustu hennar hátignar.

Lífshættuleg tilfinningaspenna

Bond hefur enda ekki verið teflt á jafn tæpt vað áður og verður aldrei samur eftir þessa tæplega þriggja klukkustunda þeysireið sem gengur svo nærri honum andlega og líkamlega að bæði hann og tryggir aðdáendur sitja eftir hristir og hrærðir.


No Time to Die er algerlega einstök Bond-mynd en um leið alveg dæmigerð Bond-mynd þegar hún lokar hringnum sem Craig opnaði 2006 á meðan hárfínum og merkingarþrungnum vísunum í enn eldri myndir er ofið svo hárfínt saman við fléttuna að gæsahúðin og nostalgían ganga næstum af manni dauðum í sætinu. Ekki síst þar sem þar ber hæst stef og stemningar úr fyrstu Bond-myndinni, Dr. No frá 1962, og einni allra bestu og um leið vanmetnustu myndinni af þeim öllum, On Her Majesty's Secret Service frá 1969.

Sú síðarnefnda leið fyrst og fremst fyrir að þar gerði George Lazenby sína fyrstu og einu atrennu að hlutverkinu þegar hann kom í kjölfar heilags Sean Connery. Casino Royale og On Her Majesty’s Secret Service eiga það hins vegar sameiginlegt, og skera sig úr að því leyti, að þær fylgja frumtexta Ians Flemming miklu betur eftir en allar hinar til samans.

Daniel Craig segir skilið við Bond með slíkum stæl og dramatík að skarð ahns hefur líklega ekki verið jafn vandfyllt síðan Sean Connery kvaddi. Í tvígang.

Fyrir vikið standa þær upp úr og þá ekki síst vegna þess að þær eru öðrum þræði ástarsögur og sýna Bond sem tætta tilfinningaveru og fullan efasemda. Þótt hann sé auðvitað bara verkfæri sem breska heimsveldið notar til skítverka. Þetta felur í sér að líklega hefur ekki verið jafnmikið um samtöl í nokkurri Bond-mynd sem aftur gefur Craig tækifæri til dýpri persónusköpunar og tækifæri til þess að njóta sín í hlutverki sem hann var kominn með ógeð á í S.P.E.C.T.R.E. þannig að hann er jafnvel betri en hann var í Casino Royale.

Kjaftavaðallinn og tilfinningaflækjurnar slá síðan hvergi á spennuna þar sem allir helstu þættir eru til staðar og keyrðir algerlega í botn í brjáluðum bílaeltingarleikjum, loftfimleikum og tilheyrandi byssubardögum og sprengingum.

Skuggalegur skúrkur

Grunnsagan er auðvitað aðeins enn eitt tilbrigðið við sama gamla stefið þar sem brjálæðingur ætlar að rústa heiminum og enginn nema 007, sem er að vísu ekki einn heldur tvö að þessu sinni, getur stöðvað hann.

Plottið hittir samt sérlega vel í mark í No Time to Die sem hefur síður en svo liðið fyrir Covid-töfina þar sem gereyðingarvopnið er manngerður smitsjúkdómur sem byggir á nanótækni og getur reynst sérlega banvænn þegar rétta fólkið smitast.

Þótt þetta hljómi vissulega kunnuglega þá heitir illmennið sem stjórnar smitunum ekki Þórólfur Guðnason, heldur Lyutsifer Safin og er veikasti hlekkur myndarinnar. Hann líður að vísu fyrir það að þar sem No Time to Die er lóðbeint framhald S.P.E.C.T.R.E. þá er aðalillmenni þeirrar myndar og jafnframt erkifjandi Bonds, Ernst Stavro Blofeld, plássfrekur framan af þannig að Safin þessi fær takmarkaðan tíma á tjaldinu.

Bond má hafa sig allan við þegar Léa Seydoux, Lashana Lynch, Naomie Harris og Ana de Armas láta heldur betur að sér kveða í No Time to Die.
Fréttablaðið/Samsett

Tíma sem Raimi Malek nýtir ekkert sérlega vel þar sem hann er ósköp staðlaður vondi kall og stenst tæpast samanburð við Christoph Waltz sem leikur sér áfram með persónu Blofelds. Safin er í raun lítið annað en daufur skugginn af Dr. No sem er augljós fyrirmynd hans í helstu grundvallaratriðum.

Aðrir leikarar sem endurtaka rullur sínar úr S.P.E.C.T.R.E. skila sínu með fyrirsjáanlegum sóma og ekkert upp á þau Ralph Fiennes, Ben Whishaw og Naomie Harris að klaga.

Fiennes er ábúðarmikill M og mátulega varasamur bjúrókrati, Whishaw fær að leika sér talsvert með persónu Q en Harris er og hefur verið sorglega vannýtt eftir að hún fékk að glansa í Skyfall.

Skuggi sterkra stelpna

Léa Seydoux bætir aftur á móti verulega í sem Madeleine og er í senn grjóthörð, vopnfim og heillandi þannig að það má alveg kaupa það að henni hafi tekist að bræða hjarta Bonds.

Casino Royale var óhjákvæmileg uppfærsla á Bond sem var fyrir tæpum sextán árum alveg úr takti við breytta tíma og heimsmynd. Hann er enn að reyna að fóta sig í breyttri veröld og stærsta framfaraskrefið í No Time to Die eru valdefldu konurnar sem mega ekkert vera að því lengur að kikna í hnjánum í návist Bonds enda alltof uppteknar við að varpa skugga á hann þegar snerpa í manndrápum er annars vegar.

Daniel Craig hefur ekki verið jafn góður síðan hann haslaði sér völl með Casino Royale 2006.

Þær eru hvorki meira né minna en þrjár valkyrjurnar sem koma Bond til bjargar á ýmsum ögurstundum og þótt Seydoux sé fullfær um að bjarga sér án afskipta Bonds eru hinar tvær enn skæðari og vart má á milli sjá hvor þeirra, Lashana Lynch eða Ana de Armas, blandi sér í hasarinn af meiri einurð og festu.

Lynch er ferlega töff og skemmtileg sem nýr handhafi leyfis til að drepa númer 007 og Ana de Armas er magnaður senuþjófur í einu hressasta bardagaatriði myndarinnar þar sem hún stígur seiðandi vélbyssuballett á milli 007 og 007. ■

Niðurstaða: No Time to Die er svo úthugsuð og djörf að með henni tekst að þjappa síðustu fimm myndunum í þétta heildarsögu þar sem hápunktar á rúmlega 50 ára sögu myndabálksins bergmála notalega á meðan Daniel Craig kveður James Bond með slíkum hvelli og stæl að hann verður aldrei samur og áhorfendur sitja eftir hristir og hrærðir.