Rafmagnaðar umræður spunnust í Facebook-hópnum Costco-gleði eftir að Haffý Magnúsdóttir forvitnaðist um hvort fólk hefði lent í vandræðum með Kirkland-rafhlöðurnar frá Costco. Sjálf hafði hún hlaðið rafmganskerti frá Costco með slíkum rafhlöðum og þau loguðu ekki lengi þar sem sýra lak úr rafhlöðunum þannig að kertin eyðilögðust.

„Þetta er klárlega einhver galli. Ég keypti batteríin í september og ætli ég hafi ekki sett þau í kertin svona hálfum mánuði seinna,“ segir Haffý, sem varð einskis vör fyrr en kertaljósin slökknuðu og hún tók eftir að allt var löðrandi í sýru í kringum rafhlöðurnar, í samtali við Fréttablaðið. 

„Ég var náttúrlega ekkert að fylgjast sérstaklega með þessu enda hvarflaði ekki að mér að það væri hætta á einhverju svona.“ Haffý henti rafhlöðunum og lét afganginn úr pakkningunni fljóta með í ruslið.

Lekamálinu var þó ekki lokið þar sem „ég heyrði síðan skrýtið hljóð frá ruslatunnunni og fann undarlega lykt og þegar ég fór að athuga þetta kom bara sýran freyðandi á móti mér. Alveg kraumandi. Ég veit svo sem ekkert hvað hefði getað gerst. Kviknað í út frá þessu eða eitthvað. Ég veit ekkert um það enda enginn sérfræðingur í sýru.“

Haffý segir fulla ástæðu til þess að vara fólk við þessum rafhlöðum. „Ég verð að segja að ég er mjög hissa á því að þeir skuli ekki innkalla þessi batterí þangað til það kemur í ljós hvað er að.“

Kirkland-sprenging

Þeir sem tjá sig við færslu Haffýar deilir ýmist góðri reynslu af Kirkland-rafhlöðunum eða slæmri þar sem hæst ber líklega sögu af sjónvarpsfjarstýringu sem sprakk.

„Um daginn sátum við í rólegheitum að horfa á sjónvarpið þegar við heyrum þennan svakalega hvell og svo kom brunalykt! Fundum út að Batterí SPRAKK & byrjaði að leka inní batteríboxi á seríu. Mun ekki kaupa þessi batterí aftur,“ segir ein konan í hópnum.

Fleiri segja farir sínar ekki sléttar: „Keypti einmitt bunka af svona AA og AAA, fóru bara að leka í pakkningunni, algjört drasl batterí....,“ segir til dæmis ein og önnur tekur í sama streng: „Ég lenti í þessu sama með þessi batterí algjört drasl, en ég nennti ekki að gera neitt í því.“


„Þau sprungu inni í flassinu á myndavélinni minni þegar hvorki myndavélin né flassið var í notkun, s.s. slökkt á báðum tækjum. Heyrði bara óhljóð og blossa og horfði á batteríin leka úr myndavélinni sem hafði ekki verið snert þann dag.“

Duracell-rafhlöður koma nokkuð við sögu í spjallinu og mælt er með þeim frekar en Kirkland-rafhlöðum. Haffý komst hins vegar að því hjá Costco að Duracell framleiðir rafhlöðurnar sem þar eru til sölu fyrir Kirkland.

Aldrei neitt vesen

„Svona getur gerst með öll batterí þegar þau verða gömul, líka Duracell,“ bendir ein kona á en þegar talið berst að Duracell hefur fólk meðal annars þetta til málanna að leggja: „Ég keypti pakkningu af Kirkland batteríum og minna en helmingurinn virkaði. Ég kaupi bara Duracell eftir það.“

„Ég hef einmitt forðast það að kaupa þessi batterí þar sem þetta er þekkt vesen með Kirkland batteríin. Hef aldrei lent í þessu með Duracell, ekki einusinni í gamla daga þegar maður átti það til að hita batteríin bara til þess að fá nokkrar auka mínútur á Gameboy tölvuna.“

Engilbert Arnar, umsjónarmaður Facebook-síðunnar og mikill Costco-aðdáandi, var fljótur að svara Haffý, gaf Kirkland-rafhlöðunum fína einkunn og fullyrti að Costco-myndi bæta henni tjónið.

Sjá einnig: Engilbert heldur Costco gleðinni gangandi af ástríðu

„Leiðinlegt að heyra. Ég sendi á þig skilaboð. Ég hins vegar hef verið að nota Kirkland batterí fyrir fjarstýringar og önnur lítil tæki og ekki enn verið neitt vandamál með þau,“ skrifaði Engilbert. 

„En um að gera að láta þá vita af þessu og þeir taka vel á móti þér það er alveg klárt mál. Ég hins vegar ætla að láta vita hérna inni ef ég mun lenda í vandræðum með Kirkland batterí en það hefur ekki gerst enn þá.. En annars bara kaupa sér Duracell batterí. Gangi þér vel.“

Engilbert er ekki einn um að vera ánægður með Kirkland. „Vá kaupi alltaf þessi batterí og aldrei neitt vesen, hljóta að vera gölluð batterí eða kerti.“

„Ég nota eingöngu Kirkland batterí og hef ekki lent í þessu enn þá...“

„Hef notað Kirkland batterí í 20 ár og aldrei lent í svona..“

Costco kannast við lekann

Haffý fór að ráðum Engilberts og setti sig í samband við Costco þar sem hún fékk þau svör að Costco hefði borist eitthvað í kringum tíu svipaðar kvartanir vegna Kirkland-rafhlaðanna. „Það er þá fólk sem hefur nennt að gera eitthvað í þessu en þá eru allir hinir eftir,“ segir Haffý.

„Ég fæ rafhlöðurnar endurgreiddar. Restina sem var í þessum pakka og svo á ég annan óopnaðan en ég sagði þeim að ég þyrði ekki einu sinni að opna hann eða setja batteríin í nein tæki hjá mér.“ Hún segir þessu hafa verið sýndur fullur skilningur og að henni væri velkomið að skila þessum rafhlöðum líka.

„Þannig að ég fæ allaveganna tvo pakka endurgreidda og kertin, sem ég keypti líka í Costco. Ég þarf síðan að finna kvittanir fyrir öllu öðru sem skemmdist og er ekki frá Costco. Ég þarf að koma með kvittanirnar í Costco og fylla út hjá þeim tjónaskýrslu á ensku. Skýrslan er síðan send út til Costco og Duracell sem framleiðir rafhlöðurnar fyrir Costco.

Hæstánægð með Costco að öðru leyti

„Það er sem sagt heilmikið vesen að reyna að fá það bætt sem er ekki frá Costco. Ef ég fæ það þá yfirleitt endurgreitt. Það fer eftir því hvernig þeir hjá Duracell meta þetta,“ segir Haffý sem býr úti á landi og á ekki erindi til Reykjavíkur það sem eftir lifir af þessu ári. „Maðurinn minn þarf að fara suður í janúar og ætli ég fái hann ekki til þess að ganga í málið þá,“ segir Haffý.

„Ég hef keypt IKEA-batterí í mörg ár og aldrei lent í neinu svona með þau. Það eina með þau er að þau duga ekki jafn lengi og venjulegu batteríin frá Duracell,“ segir Haffý sem er að öðru leyti hæst ánægð með Costco.

„Við verslum yfirleitt vel og mikið í Costco þegar við erum fyrir sunnan. Þá tökum við alltaf olíu hjá þeim og verslum helling þar. Þannig að ég hef ekkert nema gott um Costco að segja að öðru leyti og þeir mega eiga það að þeir vilja allt fyrir mann gera og bæta manni svona lagað.“