Þótt George Lucas hafi í árdaga talið hæfilegt að rekja hádramatíska sögu Anakins Geimgengils, lýsa risi hans, harmþrungnu falli og afdrifum niðja hans í níu kvikmynda bálki óraði sennilega engan, allra síst hann sjálfan, fyrir því að 42 árum eftir að hann lagði heiminn að fótum sér með Star Wars yrði hringnum lokað með Star Wars: The Rise of Skywalker.

„Ég hef lengi beðið eftir þér, Obi-van Kenobi,“ sagði Svarthöfði drungalegri, hátíðlegri röddu. „Loksins ber fundum okkar saman aftur. Hringnum hefur verið lokað.“ Kenobi fann á sér, að ánægju gætti bak við andstyggilega grímuna.“

Meistarinn og neminn gera upp gamlar væringar í fjórða hluta og fyrsta geislasverðaeinvíginu sem sást í Anakins sögu Geimgengils.

Svona hljómaði formáli Svarthöfða, í íslenskri þýðingu Hersteins Pálssonar frá 1978, þegar þeir mættust á ný, Anakin Skywalker og Obi Wan Kenobi, um miðbik fyrstu og þá hugsanlega einu Stjörnustríðsmyndarinnar.

Þrátt fyrir að vera hinn útvaldi með hinn æðsta Mátt ólgandi í olíumenguðu blóðinu reyndist Anakin nú ekki sannspár þarna fremur en endranær. Hringurinn varð spírall þegar hann breytti gamla lærimeistaranum sínum í hrúgu af óhreinu taui. Star Wars sló í gegn og sagan hélt áfram að hringa sig og hverfast á víxl, í fortíð, samtíð og framtíð um hann og soninn, Loga Geimgengil.

Anthony Daniels, sem hefur verið í búningi kvíðasjúka vélmennisins C-3PO í öllum myndunum níu ásamt nýliðunum John Boyega, leikstjóranum J.J. Abrams, Daisy Ridley, Oscar Isacs og Kathleen Kennendy sem öllu ræður hjá Lucasfilm.

Máttug tvíburasystir gaf sig fram einhvers staðar á leiðinni, fann ástina í ólíklegasta manni og eignaðist son sem umturnaðist á gelgjunni í tættari vandræðagemling en afa Anakin sem varð aftur góður áður en hann lést eftir að hafa drepið vonda keisarann sem nú virðist upp risinn, samkvæmt eigin áætlun, og er tilbúinn til þess að láta sverfa til stáls og rauðra geisla í langþráðum níunda kaflanum sem auk rómversku tölunnar IX er titlaður The Rise of Skywalker, Upprisa Geimgenglanna.

Ben Solo er í krónísku frekjukasti sem Kylo Ren og þarf að svara fyrir ýmis illvirki og mæta Rey einu sinni enn eftir að tilraunir hans til að líkjast afa Svarthöfða hafa dregið dökka dilka á eftir sér.

Þannig að allt getur gerst og vonin sem kviknaði í fjórða hluta 1977 lifir enn. Þessi von sem var í upphafi bundin við Loga sem deildi henni síðan með Lilju systur sinni hefur mögulega aldrei verið sterkari en í lokaþríleiknum í hinni svakalega flinku Rey sem hefur svo náttúruleg tök á Mættinum að leita þarf allt aftur til 1999 þegar barnungur Anakin sýndi snilldartakta í I. kafla, The Phantom Menace, sem hlýtur að teljast mestu vonbrigði sögunnar.

Fjárhættuspilarinn fláráði Lando Calrissian, fjandvinur Hans Óla, hefur ekki sést síðan í Return of the Jedi. Komi hann fagnandi!

Ringluð? Þið verðið það ekki eftir að hafa horft á næsta og síðasta hluta geimsápunnar Stjörnustríð. Í það minnsta ekki ef marka má leikstjórann J.J. Abrams sem hefur lofað að hnýta alla laus aenda og loka hringnum í eitt skipti fyrir öll.

Mátturinn er með ykkur. Alltaf.

Fyrir löngu síðan í fjarlægri vetrarbraut …

… var dramatísk innkoma

magnaðasta illmennis kvikmyndasögunnar ógleymanleg öllum sem sátu í myrkum bíósal þegar „allir – jafnt keisaraliðar sem uppreisnarmenn – þögnuðu, þegar hávaxinn, skikkjuklæddur maður birtist…“ Svarthöfði var mættur! Djúpur andardrátturinn, enn dýpri röddin og gríman!

… var mesti töffarinn

smyglarinn og geimkúrekinn Hans Óli og aldrei jafn ofursvalur en þegar hann alveg hiklaust grillaði aumingja Greedo áður en hann gat svo mikið sem dregið vopn sitt úr slíðrum. Auðvitað skaut Hans Óli fyrst!

… var Boba Fett ofmetnasti gaurinn

frá Alviðru til Urða og þótt víðar væri leitað með viðkomu á Hoth. Herklæði Mandalorínanna eru svo töff að maður þarf ekki annað en klæðast þeim til þess að virka svalur og þegar vel er að gáð er Boba Fett ekkert annað en umbúðirnar utan um kempu sem fellur fyrir blindum vígamanni og afrekar það eitt að þora að standa uppi í hárinu á Svarthöfða þegar hann er í óvenju góðu skapi.

… opinberuðu þau ást sína

þau Lilja Ósk prinsessa og Hans Óli, skipstjóri Fálkans, með fallegustu ástarjátningu kvikmyndasögunnar. Rétt áður en heitmaðurinn er bundinn í kolefnisklakabönd segir hún: „Ég elska þig,“ og Harrison Ford óhlýðnast George Lucas með því að segja ekki „ég elska þig líka“, heldur svarar að hætti Hans Óla: „Ég veit.“

… var af öllum tilkomumiklum geislasverðabardögum Stjörnustríðs

einvígi feðganna og Geimgenglanna Loga og Anakins, sem þá hafði ekki enn kastað brynju Svarthöfða, það magnaðasta. Þarna skella þeir saman geislabrandarnir rauður og grænn í uppgjöri föður og sonar þar sem hvorki meira né minna en sál þess fyrrnefnda er í húfi ásamt framtíð vetrarbrautarinnar.

… var Darth Maul allra skúrka vanmetnastur og vannýttastur. Fáránlega svalur með flottasta geislamoppuskaft sem sést hafði fékk þessi fyrsti lærisveinn keisarans illa ekki að sýna hvað í honum bjó og var snarlega sendur úr sögunni í tvennu lagi.