Tinna er hávaxin með glæsilegan líkamsvöxt og ber klæðnað sinn ákaflega vel. Hún er flott týpa og eftir henni er tekið. Tinna er menntaður fatahönnuður með BA-gráðu Hons Fashion Design frá De Monfort University í Bretlandi. Eftir útskrift stofnaði hún sitt eigið merki. En Tinna er líka einstaklega hæfileikarík þegar kemur að því að klæða aðra og er afar fær stílisti. „Það var mikil vinna og góður viðbótarskóli að vera með eigið merki, enda vildi ég hafa allt grænt og sjálfbært. Til að mynda keypti ég eingöngu efni sem voru framleidd í Englandi og leðrið sem ég notaði var afskurður. Þar af leiðandi voru öll efni sem ég vann með dýr í innkaupum. Við tókum þátt í tískuvikunum í London og París. Ég lærði heilan helling af því ferli. Eftir það ævintýri rak ég Isabel Marant Flagship verslunina í Mayfair í London í einhver ár. Þá hef ég jafnframt unnið mikið við útstillingar (VM) fyrir til dæmis Cos, Harvey Nichols, Selfridges, Libertys og Harrods. Það starf sem ég vann hvað lengst við og hafði mesta unun af, var starf mitt sem stílisti í London, bæði persónulegur og commercial, vann með merki eins og Max Mara, Stella McCartney, Fendi og öðrum áhrifakonum. Ég hef því gríðarlega mikla reynslu úr tískubransanum.“

Heim eftir tólf ár í London

Tinna bjó í London í tólf ár en þá tóku örlögin framtíð Tinnu í sínar hendur og leið hennar lá heim til Íslands. „Ég hitti manninn minn, Guðbrand Jóhannesson, ein jólin þegar ég var í jólafríi á Íslandi, eitt leiddi af öðru og ég ákvað að flytja aftur heim eftir tólf ára dvöl í London. Þegar ég kom heim tók ég við starfi rekstrarstjóra GK Reykjavík. Í dag er ég í besta starfi í heimi, nýbökuð mamma hans Elds míns.“

Hátískuskór sem nú er hægt að endurnýta.

Tímalausar flíkur úr gæðaefnum

Tinna ásamt stöllu sinni, Örnu Lísu Traustadóttur, hefur opnað nýja vefverslun, Buymychic, þar sem hægt er að versla notaðan merkjavörufatnað.

Segðu okkur frá tilurð þess að þið stöllurnar ákváðuð að opna Buymychic?

„Ég hafði gengið með hugmyndina að Buymychic í nokkur ár áður en hún kom til framkvæmda. Þetta hófst á því að ég byrjaði að selja vörur á milli kúnna, þar sem ég þekkti bakgrunn þeirra, lífsstíl og líkamsfall vel. Heimatökin voru því hæg þar sem ég vissi hvaða flík hentaði hverjum og einum. Sankaði ég því að mér margvíslegum gersemum bæði frá merkjum og frá kúnnum og er það undirstaða BMC í dag. Vel hannaðar tímalausar flíkur úr gæðaefnum eiga langan líftíma. Mér finnst að við að ættum að nýta betur þær vönduðu vörur sem er nú þegar búið að leggja mikla vinnu í að framleiða,“ segir hún.

Fallegar handtöskur eru líka í boði.

Ástarör Amors skaut mig í hjartað – til Íslands

„Árið 2017 keypti ég lénið buymychic.com og var á góðri leið það ár að starta þessu í Bretlandi, áður en ástarör Amors skaut mig í hjartað og ég flutti heim. Eftir að ég var flutt heim til Íslands varð ég vör við að þessi hugmynd mín ætti sér fyllilega stoð hér á landi. Auk þess sem ég vildi leggja mitt á vogarskálarnar við að sporna gegn þessu offramboði á flíkum, sem er svo ógrænt. Ég bar þessa hugmynd undir Örnu, sem ég hafði kynnst í gegnum störf mín á Íslandi og leist henni rosalega vel á hugmyndina, svo við ákváðum að gera þetta saman. Hún býr yfir mikilli reynslu líka, bæði í sölu merkjavara og svo er hún fatahönnuður að mennt. Draumurinn minn var alltaf að finna góðan partner í þetta verkefni með mér, svo við erum heppnar að hafa hitt hvor aðra. Gott teymi með ólíka reynslu innan sama geira, svo við vissum að við gætum unnið vel saman.“

BMC býður upp á stílistaþjónustu líka, er það ekki rétt ?

„Jú, það er hárrétt og er hluti af okkar þjónustu og hægt er að bóka tíma með stílista í gegnum vefsíðuna. Ég kallaði mig stundum wardrobe detox consultant og stílista. Við konur notum að meðaltali 20% af fataskápnum okkar. Svo þið getið ímyndað ykkur hvað það er hægt að gera mikið.“

Glæsilegir sumarskór.

Stuðla að umhverfisvænni tísku

Þegar vefverslun af þessu tagi er opnuð er mikilvægt að setja sér markmið og hafa áherslur skýrar. „Við erum vefverslun sem sérhæfir sig í kaupum/sölu á hágæða merkjavörum og stuðlar þannig að umhverfisvænni tísku. Áhersla okkar var að koma á sjálfbærari viðskiptum, með sem minnstu kolvetnisspori og ýta á sama tíma undir nýtingu á vörum sem eru til nú þegar. Slagorð Buymychic er hringrás hátískunnar. Með vísan til þessa göfuga markmiðs viljum við hvetja fólk til þess að hafa samband við okkur ef það hefur áhuga á að selja merkjavöru. Má vera ein flík eða hundrað flíkur. Við fókuserum á að þekkja uppruna vörunnar og viljum hvetja fólk til þess að tékka á okkur, frekar en að kaupa sér nýja vöru úr búð, vera grænni. En mörg merkin eru með klassískan stíl, svo vörurnar eru oft svipaðar og það sem er í búðum og fyrir mikið minni pening. Hvort sem að þú vilt eyða minna í gæðaflíkur, vera grænni, eða eiga flík sem kannski ekki allir eiga, eða skera þig úr, þá er buymychic.is fyrir þig.“

Þess má geta að flest merkjavaran hjá þeim er nýleg (ekki vintage), þó þeim finnist gaman að hafa vintage jafnframt. „Við erum með „showroom“ í 101 Reykjavík, þannig að allir eru velkomnir að koma og máta. Það eina sem þarf að gera er að panta tíma í gegnum vefsíðuna.“

Mikið úrval merkjavöru er fáanlegt hjá BMC.

Viðskiptin fara þannig fram að þegar viðskiptavinurinn kaupir sér vöru hjá á buymychic.is, þá er hún afgreidd næsta virka dag, en hægt er að velja á milli þess að sækja hana til þeirra í 101 Rvk eða fá vöruna senda heim í pósti. „Viðskiptavinurinn getur jafnframt pantað tíma, komið og mátað og keypt á staðnum ef eftir því er óskað. Okkur finnst alltaf rosalega gott að hitta kúnnana okkar.“

Svo er líka hægt að selja vörur hjá BMC og ferlið er einfalt. „Þegar þú selur vöru í gegnum okkur, þá sendir þú BMC línu í gegnum netverslun okkar, ásamt mynd af þinni vöru/vörum ásamt stuttri lýsingu, auk verðhugmyndar. Við samþykki vörunnar af BMC getur þú valið um að senda hana til okkar eða skila henni á skilastað. Í kjölfarið myndar BMC vöruna og þú færð svo staðfestingu um áætlað sölutímabil. Við sjáum svo um rest. Það er einungis tekin þóknun ef varan selst.“

Klæðaburður listform

En hvernig myndi Tinna lýsa sínum eigin fatastíl?

„Ég myndaði mér ung skoðun á fötum, klæðaburði og útliti. Að mínum dómi er klæðaburður ekkert annað en listform og tjáning. Ég er búin að fara í gegnum alls konar tímabil í stíl, en mér finnst alltaf mikilvægast að líða vel og vera í þægilegum fötum, sem henta því sem ég er að gera í hvert skipti og fer auðvitað eftir skapi líka. En því meira sem ég hef stílíserað í gegnum árin, því fleiri stíla hef ég tileinkað mér, þannig að ég get alveg verið minimalísk og tónal, en líka rosalega bóho og blóma, rokk og roll, kúreka og allt þar á milli. Svo ég er alls ekki með einhvern einn stíl. Mínar uppáhaldsflíkur í dag eru frá árunum 2013-2017.“

Glæsileg kápa sem Tinna klæðist hér og er hluti af þeim fatnaði sem hún er með í versluninni.
Klæðilegur síður kjóll með fallegu mynstri.