Þýðing: Kristín Eiríksdóttir

Leikendur: Hilmir Snær Guðnason og Vala Kristín Eiríksdóttir

Leikstjórn: Hilmir Snær Guðnason / Gunnar Gunnsteinsson

Leikmynd og búningar: Sean Mackaoui

Tónlist: Garðar Borgþórsson

Lýsing: Þórður Orri Pétursson

Leikgervi: Elín Sigríður Gísladóttir

Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson og Þorbjörn Steingrímsson

Eftir margra mánaða bið eru leikhúsin loksins að opna sínar dyr á ný og vonandi verða þær áfram opnar. Oleanna eftir David Mamet var tveimur vikum frá frumsýningu síðastliðið vor þegar COVID-19 skall á og öllu var skellt í lás. Síðan þá voru gerð leikaraskipti í bland við leikstjóratilfæringar og opnar nú sýningin leikárið í Borgarleikhúsinu.

Hilmir Snær Guðnason tekst á við hlutverk sitt af æðruleysi og áreynsluleysi. Vala Kristín Eiríksdóttir svarar honum með rísandi styrk og sýnir hvers megnug hún er sem leikkona.

Á yfirborðinu snýst Oleanna um röð samtala milli karlkyns kennara og kvenkyns nemanda, sem fara fram á nokkurra vikna tímabili á skrifstofu hans. En undir niðri kraumar valdabarátta kynjanna þar sem aðeins ein manneskja getur staðið uppi sem sigurvegari. Tæknilegir hæfileikar Davids Mamet sem leikskálds eru óumdeilanlegir. Hálfkláraðar hugsanir, hikorð og truflanir spila stór hlutverk í textanum. Málgleði kennarans einkennir fyrri hluta verksins en ásakanir nemandans hinn seinni. Algjört skilningsleysi á milli persónanna og niðurbrot hlustunar umlykur þessi samskipti. Mamet skoðar grá svæði samfélagsins af áhuga, en gengur iðulega of langt í dramatískum vendingum, sérstaklega hvað varðar ásakanir og viðbrögð nemandans, til þess að rannsóknin gangi upp.

Þessi þrætuhyggja, þar sem tveir einstaklingar stangast á í valdabaráttu, ætti að skapa dramatíska sýningu, en slíkt veltur á því hvernig verkið er framsett. Mikið mæðir á Hilmi og Völu sem þurfa ekki einungis að takast á við brotakenndu setningarnar, heldur einnig innra ferðalag karakteranna.

Hilmir Snær Guðnason tekst á við hlutverk sitt af æðruleysi og áreynsluleysi, þar sem reiði kennarans stigmagnast við hverja senu. En hann nær ekki að fanga örvæntinguna sem ýtir honum fram af brúninni. Vala Kristín Eiríksdóttir svarar honum með rísandi styrk og sýnir hvers megnug hún er sem leikkona, þegar hún fer með magnaða ræðu um eiginleika og afleiðingar óréttlætis. Gallinn er sá að neistann vantar á milli þeirra, sérstaklega í byrjun, sem er nauðsynlegur til að kynda undir textanum, eins og þau séu hvort í sínu horni frekar en að mætast í hringleikahúsinu. Hilmir Snær og Gunnar Gunnsteinsson eru báðir skrifaðir fyrir leikstjórninni, sá síðari tók við þegar leikaraskiptin áttu sér stað. Þeir spila með fjarlægð á milli persóna, sem endurspeglun á samfélagslegri stöðu þeirra, en ná sjaldan að fanga ókyrrðina í textanum. Niðurstaðan verður hálfkláraðar hugmyndir og óskipulagt tilfinningarót, fremur en afgerandi túlkun á leikritinu.

Sean Mackaoui er mikill happafengur fyrir listalíf landsins. Leikmyndir hans bera ætíð sterk fingraför og hann leitar töluvert í táknmyndir, sem virka reglulega vel. Þó tók umbreytingin fyrir síðustu senuna of langan tíma. Blessunarlega var búningur kennarans endurhugsaður miðað við myndir í leikskrá. Einkennisbúningur feðraveldisins er ekki lengur þykk þrískipt jakkaföt heldur stakur jakki og dýrir skór sem henta bæði á skrifstofuna sem og í grillveisluna. Á meðan kennarinn verður meira og meira berskjaldaður, brynjar nemandinn sig með faglegri fatnaði.

Umræðan um jafnræði kynjanna, ofbeldi og forréttindi er á allt öðrum stað heldur en hún var fyrir þrjátíu árum. Jafnræði þýðir ekki að líf annarra verði lagt í rúst, en líf alltof margra hefur verið lagt í rúst vegna skorts á jafnræði. Oleanna veltir upp mörgum spurningum og tæknin sem Mamet beitir er ansi merkileg, en nú er kominn tími á ný leikrit, nýjar raddir og ný sjónarmið.