„Íslenskur skógur og náttúra varð mér að yrkisefni þegar ég sótti hugmyndir að borðskreytingu jólanna í þetta sinn. Fegurð náttúrulegra skreytinga hrífur mig alltaf og ég ákvað að hafa rauða litinn með því hann er svo jólalegur,“ segir Lára Margrét Traustadóttir innanhússkreytir.

Lára lagði á borð fyrir lesendur jólablaðsins, svo þeir mættu fá innblástur að skreytingu.

„Allir geta skreytt veisluborð jólanna með þessum hætti því tilkostnaðurinn er lítill. Það eina sem þarf til eru könglar og greinar. Í borðskreytinguna notaði ég tvær tegundir af greni, mikið af könglum og falleg Eucalyptus populus-ber.“

Það þarf ekki að fara lengra en í stutta skógarferð til að finna jólaskraut náttúrunnar, svo sem sígrænt greni, köngla og ber. Útkoman er hlýleg, falleg, vistvæn og hagstæð.
Fréttablaðið/Ernir

Mamma gaf tóninn

Lára Margrét hefur frá barnæsku haft mikinn áhuga á skreytingum og segist erfa það frá móður sinni.

„Ég er alin upp á fallegu heimili og mamma mín heitin hafði mikinn áhuga á að hafa fallegt í kringum okkur heima. Á æskuárunum var heimilið alltaf mikið skreytt fyrir jólin og áhugi minn á skreytingum jókst enn meira þegar ég fór að búa sjálf, en ég bý svo vel að fá að ráða flest öllu sem er inni á heimilinu,“ segir Lára og hlær, komin í jólaskap.

„Mér finnst alltaf jafn gaman að nostra við jólin, sama hvort það er jólaborðið eða annað sem tengist jólahaldinu á heimilinu. Margir myndu eflaust telja mig pínu klikkaða í þessu en ég tek niður flesta hluti sem ég er vanalega með uppi við yfir árið og set jólaskraut í staðinn. Þá fer ég ófáar ferðir út í skóg til að sækja mér greinar og fleira fallegt til skreytinga, en ég nota alltaf mikið af náttúrulegum efniviði í jólaskreytingar.“

Rautt og grænt eru sígildir litir jólanna og tóna sérstaklega vel saman í náttúrulegu greni með jólarauðum borða.
Yfir jólaborði Láru grúfir rökkur skammdegisins, en kerta- og jólaljós veita yl.

Heimilislegt jólahald

Heimili Láru Margrétar ber þess merki að hún hefur gott auga.

„Ég legg mikið upp úr því að hafa fallegt í kringum okkur heima, en þó vil ég að það sjáist vel að hér býr fólk með öllu sem því fylgir. Stelpurnar mínar eru duglegar að koma með ýmislegt fram sem ætti kannski frekar heima inni hjá þeim, en mér er alveg sama þar sem þetta er þeirra heimili líka.“

Lára er eigandi Skreytingaþjónustunnar og tekur að sér að skreyta fyrir veisluhöld af öllu tagi árið um kring.

„Skreytingaþjónustunni fylgir oft mikið umstang og dót sem lendir oft á hinum ýmsu stöðum heima en það er bara í góðu lagi, eðlilegt og heimilislegt. Það á öllum að líða vel heima hjá sér og andrúmsloftið á að vera afslappað. Eins finnst mér mikilvægt að þeim, sem koma í heimsókn til okkar, líði vel hjá okkur og upplifi sig ekki eins og í líflausri húsgagnaverslun. Ég fylgist svo vitaskuld vel með því sem er í tísku hverju sinni, en oftar en ekki fer ég mínar eigin leiðir í skreytingum og vel frekar það sem mér finnst fallegt og passa hverju tilefni, í stað þess sem er kannski hæstmóðins akkúrat þá.“

Fylgist með Láru Margréti í Skreytingaþjónustunni á Instagram og Facebook.

Lára fléttar greni og köngla fallega utan um sérvéttur jólaveislunnar.
Dásamlega lekkert og jólalegt.