Leikhús

Benedikt búálfur

Leikfélag Akureyrar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands

Leikstjóri: Vala Fannell

Leikarar: Árni Beinteinn Árnason, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Birna Pétursdóttir, Björgvin Franz Gíslason, Valgerður Guðnadóttir, Kristinn Óli Haraldsson og Hjalti Rúnar Jónsson

Dansarar: Berglind Eva Ágústsdóttir, Elfa Rún Karlsdóttir, Molly Carol Birna Mitchell og Helga Ólafsdóttir

Höfundur: Ólafur Gunnar Guðlaugsson

Tónlist: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Leikgerð: Karl Ágúst Úlfsson og Ólafur Gunnar Guðlaugsson

Söngtextar: Andrea Gylfadóttir og Karl Ágúst Úlfsson

Búninga- og leikmyndahönnuður: Auður Ösp Guðmundsdóttir

Hljóðmynd: Árni Sigurðsson

Ljósahönnun: Friðþjófur Þorsteinsson

Danshreyfingar: Lee Proud

Fjórar stjörnur

Ástandið í samfélaginu þessa stundina býður svo sannarlega upp á að hverfa um stund í bjarta ævintýraheima, þar sem gleðin ríkir og hið góða sigrar að lokum. Benedikt búálfur og hans föruneyti eru svo sannarlega tilbúin til að bjóða upp á þannig ferðalag í Samkomuhúsinu á Akureyri. Sýningin er byggð á bókum Ólafs Gunnars Guðlaugssonar en leikgerðina gerði hann í samvinnu við Karl Ágúst Úlfsson fyrir um tuttugu árum. Leikstjóri er Vala Fannell sem stýrir hér fræknum leikhópi þar sem unga fólkið ræður för.

Birna stelur senunni

Árni Beinteinn Árnason fer með titilhlutverkið en hann hefur verið að gera það gott á Akureyri frá útskrift úr Listaháskóla Íslands. Fyrstu skrefin í sýningunni voru svolítið fálmkennd en hann fótaði sig betur eftir því sem á leið. Nærvera hans í hlutverki Benedikts er hlý og röddin góð en hann þarf að stilla sig örlítið betur af og þjóna sínu starfi sem miðpunktur sýningarinnar. Þórdís Björk Þorfinnsdóttir er sömuleiðis að stíga sín fyrstu skref eftir útskrift og er stöðugt að vinna á. Hún finnur fókus í barnslegri kæti Dídí mannabarns og fangar sakleysi hennar skemmtilega. Vinaþrenninguna fullkomnar Birna Pétursdóttir, sem stelur senunni í hlutverki Daða dreka. Hún er skreytt alveg frábæru gervi, smjattar á setningum sínum og fullnýtir hvert tækifæri til að heilla áhorfendur upp úr sætunum.

Tilkomumikill heimur

Álfheimum er stjórnað af álfakonungshjónunum Aðalsteini og Brynhildi, leiknum af Björgvin Franz Gíslasyni og Valgerði Guðnadóttur. Björgvin Franz er í essinu sínu með ýktum leik og stórum skapsveiflum en Valgerður heillar með listilegum söng, sannkölluð drottning í ríki sínu. Hjalti Rúnar Jónsson leikur myrkari verur Álfheima, hann gleymir sér stundum í æsingnum í hlutverki Jósafats mannahrellis en brillerar í hlutverki Sölvars súra, þá sérstaklega þegar hann er kynntur til leiks. Kristinn Óli Haraldsson, kannski betur þekktur undir nafninu Króli, sýnir hér og sannar að hann á fullt erindi á leiksviðið. Raddbeiting hans er upp á tíu og hann finnur sig vel í hlutverki Tóta tannálfs, þrátt fyrir tiltölulega fá atriði.

Þessari hersingu stýrir Vala skynsamlega og finnur fjölmörg tækifæri til að lauma inn leikhústöfrum. Hún leggur áherslu á að koma þessum töfraheimi til skila, ekki með flóknum brellum og skrauti heldur með glaðværum leik og frumlegum lausnum. Búninga- og leikmyndahönnuðurinn Auður Ösp Guðmundsdóttir hefur svo sannarlega stimplað sig rækilega inn eftir heimkomu úr námi í Prag. Vinna hennar við sýningar á Akureyri síðustu árin hefur verið frábær, vel úthugsuð og lifandi. Benedikt búálfur er enn ein skrautfjöðurin í hennar hatt. Heimurinn sem skapaður er á örfáum fermetrum er tilkomumikill og eftirminnilegur.

Traust á ungu listafólki

Reynsluboltinn og þúsundþjalasmiðurinn Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson er höfundur tónlistarinnar og stýrir henni einnig. Hann skapar lifandi og fjölbreyttan tónheim með hinni frábæru Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Þar standa upp úr lögin „Þessi Aðalsteinn“ og „Dreki í ham“, söngtextar Andreu Gylfadóttur skemma sko aldeilis ekki fyrir. Hljóðmyndin er í höndum Árna Sigurðssonar, hann vinnur nokkuð vel með tónlistinni en er ekki alveg búinn að hitta á rétta tóninn milli hennar og leikaranna. Stundum yfirgnæfir hljóðið textaflutning og söng leikaranna. Þrátt fyrir takmarkað pláss á litlu sviði Samkomuhússins finnur Lee Proud yfirleitt liprar leiðir fyrir hreyfimynstur og danshreyfingar, sem reka smiðshöggið á fantafína fjölskyldusýningu.

Trú Mörtu Nordal á ungu listafólki úr alls konar áttum er svo sannarlega að skila sér. Benedikt búálfur gefur vonir um bjarta framtíð þar sem ungt listafólk getur fengið að þróa list sína með fjölbreyttum verkefnum. Akureyringar og áhorfendur úr öðrum landshlutum eru hvattir til að skella sér í Samkomuhúsið, hverfa tímabundið inn í græna skóga Álfheima og á vit ævintýranna.

Niðurstaða: Frábær fjölskylduskemmtun þar sem unga fólkið ræður ríkjum.