Við höfum skemmt okkur í samkomubanninu við að búa til þætti með samverustundum fyrir leikskólabörn undir nafninu Birte- og Immustund,“ segir Birte Harksen um YouTube-þætti hennar og Ingibjargar Ásdísar Sveinsdóttur.

Þær segja sögulestur og söng vitaskuld hafa verið fasta liði í samverustundunum en þær stöllur vinna saman á Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi þar sem Birte er fagstjóri í tónlist en Imma er sagnaþulur og stundar meistaranám í listkennslu.

Þá hefur ekki skort á fjölbreytnina þar sem stundirnar hafa meðal annars fjallað um drauma, tilfinningar, sjóræningja, krókódíla, mæríuhænur, galdra, ruggutennur, skrýtna tíma og okkur og heiminn.

Neisti í tómarúmi

Hlutirnir gerðust hratt þegar leikskólarnir þurftu að bregðast við breyttum aðstæðum í samfélaginu og þær stöllur urðu skyndilega að leika af fingrum fram með framandi skipulag.

„Við mættum annan hvern dag og upplifðum visst tómarúm,“ segja þær og bæta við að þær hafi þarna fundið leið til þess að viðhalda neistanum. „Við nýttum svo undirbúningstíma okkar þá daga sem við vorum ekki í leikskólanum til að búa til þetta efni.“ Imma segir þær líka hafa þurft að viðhalda tengslunum við börnin sem með samkomubanninu hurfu úr þeirra umsjón vikum saman.

Stoltar af útkomunni

Aðspurðar segja Imma og Birte viðtökurnar hafa verið framar öllum vonum og það hafi yljað þeim um hjartarætur að heyra af börnum sem hafa glöð notið stundanna þeirra á vefnum.

„Það kom okkur líka skemmtilega á óvart að heyra frá foreldrum fyrrverandi nema sem hafa glaðst yfir að sjá okkur aftur,“ segir Imma og bætir við að þeim hafi víða verið þakkað, á förnum vegi og netinu, fyrir „framlag okkar á þessum skrýtnu tímum“.

Þá skyggir síður en svo á gleðina að þær hafa fundið stuðning og ánægju frá fagfólki innan stéttar sinnar. „Það fyllir okkur faglegu stolti og við höfum ekki orðið varar við mikla gagnrýni,“ segir Birte en bendir á að „við höfum samt þurft að fóta okkur áfram og aðlaga stundirnar að einhverju leyti nýjum viðmiðum vegna veirunnar.“

Birte og Imma bæta því við að fyrir þeim hafi verið mikilvægara að miðla gleði og leik til barnanna fremur en varnaðarorðum. „Við erum mjög stoltar af útkomunni enda höfum við lagt margar klukkustundir í að vinna hvern einasta þátt.“

Lærdómsríkur tími

Imma og Birte gerðu tíu þætti í samkomubanninu og sá síðasti er þegar kominn á YouTube. „Í síðasta þættinum fórum við út í garð í góða veðrinu og tókum upp sumarþátt um fiskveiðar.“

Þær segjast hafa deilt þáttunum með foreldrum Urðarhólsbarna og nánasta umhverfi á Kársnesi í gegnum Facebook-hóp. „Og svo auðvitað meðal leikskólafagfólks. Þættirnir hafa þó farið víðar, allt frá Egilsstöðum til Patreksfjarðar, og meira að segja líka til Íslendinga erlendis.“

Frá og með mánudeginum færist leikskólastarf að miklu leyti í hefðbundnar skorður og vinkonurnar hlakka mikið til að fá að vera aftur með öllum börnunum og starfssystkinum.

„Þetta tímabil hefur verið lærdómsríkt og opnað nýjar leiðir en við teljum að þetta hafi einnig verið slítandi. Starfið hefur verið sundurslitið, samvinna lítil,“ segja þær og minna á að ástandið hefur haft mest áhrif á börnin. „Jafnvel varanleg og nú verðum við að leggja áherslu á að hlúa að tilfinningum þeirra og öryggiskennd.“