Ásdís og Axel Valur hafa verið að þróa sínar eigin uppskriftir í nokkra mánuði og eru að opna matarblogg. Þau eru komin af stað með cleanlife.‌is og tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar að halda utan um sínar uppskriftir þannig að þegar hann flytur að heiman þá þurfi hún ekki að hringja í hann og hins vegar að byggja upp gott safn af hollum uppskriftum sem allir geta nýtt sér.

Gerir matseðil fyrir vikuna

„Ég reyni að vera mjög skipulögð þegar kemur að mat og geri alltaf matseðil fyrir vikuna. Ég kaupi grænmeti og ávexti frá foodcoop.‌is þannig að í hverri viku fæ ég eitthvað nýtt og spennandi, vinn síðan matseðilinn út frá þessari sendingu. Ég er svo heppin að elsti sonur minn Axel Valur býr hjá mér og hann er ástríðukokkur af guðs náð og hefur mjög gaman af því að elda. Síðustu mánuði höfum við verið að elda saman og við erum að þróa okkar eigin rétti. Yfirleitt er það þannig að ég segi; ættum við að hafa þetta saman og hann segir annað hvort já eða nei.

Ég vakna snemma á morgnana 4.45 og tek eina til tvær æfingar fyrir morgunmat. Ég borða yfirleitt það sama og tek ástfóstri við ákveðinn mat til lengri tíma. Í dag er það chiagrautur með heitri berjasósu, kókosflögum, pekanhnetum, berjum, mandarínu, kanil og kókósrjóma. Ég hef tekið eftir því að ef ég borða hreinan mat þá helst orkan jöfn yfir daginn og snarlþörfin hverfur. Ég borða þrjár máltíðir yfir daginn, stóran hádegismat og kvöldmat en stundum fæ ég mér seinni parts millimál ef ég er með langan vinnudag eða er að fara á æfingu. Ég var fljót að taka eftir því að ef ég fæ mér snarl í hádeginu þá fer orkan niður um leið. Áður fyrr tók ég oft léttan hádegismat, hrökkbrauð og jógúrt. Það gengur ekki í dag. Ég er orðin svöng eftir smástund og er nartandi allan daginn án þess að halda góðri orku.“

Hnetur toppa máltíðina

Ásdís segir það virkar best fyrir sig að halda sama mataræðinu allan tímann. „Ég byrjaði á að borða hreint í lok ágúst og það hentar mér mjög vel. Þegar þú finnur mataræði sem hentar þarf engan sjálfsaga til að halda þetta út. Þetta er einfaldlega góður og hollur matur sem er líka fallegur fyrir augað.“ Ásdís segist ávallt eiga hnetur og ber og nota mikið af berjum í salöt og ofan á alls konar rétti. „Ég uppgötvaði saltar macademiuhnetur í fyrra og einfalt salat hjá mér er einfaldlega salat, hnetur og bláber, svo set ég eitthvað meira í það eftir því hver aðalrétturinn er. Ef þetta er sterkur matur þá finnst mér mjög gott að bæta við mangó eða mandarínum. Þegar ég var að byrja að borða hreint þá var lykilatriði að skipuleggja sig vel. Það kom stundum fyrir að ég átti ekkert í ísskápnum og endaði á hrökkbrauði og jógúrt.“

Hefðbundinn matseðill

„Mér finnst nauðsynlegt að setja chiagraut í fallegt glas, toppa með ljúffengum ávöxtum og njóta þess að borða hann. Hádegismaturinn er yfirleitt alltaf afgangur frá því í gær. Það má hins vegar útfæra hann á svo marga vegu. Ég hita yfirleitt meðlæti í örbylgjunni. Set salat, macademiuhnetur og bláber í botninn á skál. Helli heitu meðlætinu yfir og sker síðan kalt kjöt í bita og dreifi yfir meðlætið. Ofan á set ég alls konar ber eða ávexti sem passa með og set svo spírur frá Vaxa sem eru bæði hollar og gómsætar og gera matinn svo fallegan og mér finnst einnig æðislegt að dreifa granateplafræjum yfir. Kvöldmaturinn er ávallt kjöt/fiskur, ofnbakað grænmeti og salat nema á föstudögum þegar ég er með krakkana þá panta þau pitsu og ég geri blómkálspitsu.

Það þarf ekkert að vera flókið að borða hreint. Ef þau fá hakk og spaghettí fæ ég mér hakk, pönnu-steikt grænmeti og salat. Þegar við erum með hamborgara þá geri ég það sama, tek kjötið og pönnusteikt grænmeti og salat og kalla minn rétt hamborgarasalat.“

Við fengum Ásdísi til að deila með okkur sinni uppáhalds uppskrift að chiagrautnum sem öllu máli skiptir.

Hægt er að fylgjast með matreiðslu Ásdísar á Instgramsíðu hennar: @asdisoskvals

Girnilegur chiagrautur sem er góður fyrir heilsuna.

Chiagrautur

Grunnur

½ bolli chiafræ

1 bolli vatn

330 ml kókosrjómi (t.d. Krav kókosrjóminn, fæst í Nettó).

Byrjið á því að hræra saman chiafræ og vatn í stórri krukku. Síðan er kókosrjóma bætt út í og hrært vel. Mikilvægt að hræra vel saman og gott að nota gaffal þegar hrært er. Þetta er grunnurinn, síðan er meðlæti bætt út í eftir smekk hvers og eins og fram kemur í máli Ásdísar sem setur gjarnan berjasósu yfir.

Berjasósa

½ bolli frosin ber hituð í potti, t.d. hindber

1 msk. vatn

Meðlæti

Kókosflögur

Pekanhnetur (brjóta niður í smærri bita)

Bláber

Mandarínur

Granatber

Ávextir og ber eftir smekk hvers og eins

Setjið frosin ber og vatnið saman í pott og hitið þar til blandan er orðin að mauki. Hellið þá yfir tveimur matskeiðum af tilbúnum chiagraut. Stráið yfir kókósflögum og pekanhnetum eftir smekk, bláberjum og mandarínum.

Ásdís settur slatta af kanil yfir mandarínurnar og hellir svo kókósrjóma yfir og toppar með granatberjum.

Hægt er að nota alls kyns ber í grautinn eftir smekk.
Grunnur af chiagraut tilbúinn fyrir næsta morgun. MYNDIR/AÐSENdaR