Mögulega eru margir búnir nú þegar að þrífa pallinn og svalirnar. Sumir eru duglegir að drífa sig út á vorin til að þrífa og bera á pall og húsgögn. Aðrir vilja bíða eftir hlýrra veðri. Það þarf að bera á pallinn og það er gott að vera búinn að því þegar sólardagarnir koma. Misjafnt er hversu vel pallurinn kemur undan vetri en yfirleitt þarf að bera á hann árlega. Ef ekki er farið í hreinsun geta óhreinindin sest í viðinn sem getur leitt til örveruvaxtar sem skemmir hann.

Ef pallurinn er virkilega skítugur er best að nota grænsápu á hann og skúra hann vel með þvottabursta. Stundum þarf sterkari efni og háþrýstiþvott. Háþrýstiþvottur hreinsar vel svæðið en ekki er ráðlagt að þrífa viðinn þannig nema í sérstaklega erfiðum tilfellum. Ef pallurinn er þveginn með háþrýstingi skal nota stút framan á slönguna. Til eru sérstakar viðarsápur sem henta vel í þrifin. Þegar búið er að skúra pallinn þarf hann að þorna. Stundum þarf að fara létt yfir hann með sandpappír en munið að vanda til verksins og fáið ráðleggingar hjá fagmönnum. Loks er viðarolía borin á pallinn en hana verður að bera jafnt á allan flötinn. Það gæti þurft að fara tvær yfirferðir. Skoða má myndbönd af því hvernig best er að bera sig við með pallinn hjá nokkrum þeirra sem selja viðarvörn hér á landi. Til er margs konar viðarvörn og í ýmsum litabrigðum. Vandið valið og veljið góð efni.

Það er ekki mælt með háþrýstiþvotti á viðinn nema hann sé mjög illa farinn. Ef notuð er þessi aðferð við þrifin skal setja stút framan á slönguna.

Ágætt er að þrífa garðhúsgögnin á sama tíma og pallinn. Oft er nóg að þrífa vel húsgögnin en oftast þarf að bera á þau og fríska þau upp. Ef húsgögnin hafa staðið úti allan veturinn er mjög líklegt að það þurfi að bera á þau olíu. Viðarhúsgögn eru viðkvæm fyrir rigningu, vindum og sól. Með tímanum verður viðurinn grár auk þess að geta sprungið.

Ekki spúla viðarhúsgögn með háþrýstivatnsdælu, segja sérfræðingar, því krafturinn í vatninu getur skemmt viðinn. Notið mjúkan bursta, vatn og mildan þvottalög til að fara yfir húsgögnin ef þau eru skítug. Oft er nægilegt að nota einungis vatnið úr garðslöngunni. Ef bera á olíu á húsgögnin þurfa þau að vera alveg hrein og þurr. Stundum þarf að nota sérstakan viðarhreinsi. Með góðri meðhöndlun endast húsgögnin lengur. Í raun er best að bera olíu á húsgögnin tvisvar á ári. Ef komnir eru blettir í viðinn þarf að nota sandpappír.